Öryggi á leiksvæðum og gervigrasvellir
Um leið og barn kemur inn á leiksvæði heldur það á vit ævintýra, eins langt og hugurinn leiðir það.
Við gleðjumst yfir ánægju þeirra af leiknum en á sama tíma er mikilvægt að ekki skapist hætta við leik og starf á leiksvæðum, hvort sem er í eða við leikskóla, skóla, á gæsluvöllum eða á opnum leiksvæðum.
Þegar meta skal hve örugg börn eru á leiksvæðum er litið til heildarmyndar leiksvæðisins, þ.e. hvernig leikvallatækin og leiksvæðin eru hönnuð og hvernig frágangi og viðhaldi á svæðinu er háttað.
En hver ber ábyrgð á öryggismálum leiksvæða? Almenna reglan er að rekstraraðili leiksvæðisins beri þá ábyrgð, sem oftast er sveitarfélag eða einkaaðili ef um einkaskóla er að ræða.
Rekstraraðili skal sjá til þess að:
-
leiksvæði sé skoðað reglulega m.t.t. augljósrar hættu sem getur skapast, s.s. skemmdir á leiktækjum og yfirborðsefnum vegna skemmda, notkunar eða veðurs. Slíka reglubundna yfirlitsskoðun skal framkvæma daglega til vikulega eftir notkun og álagi á leiksvæðinu. Dagleg yfirferð leikskólakennara áður en börn fara út að leika er dæmi um slíka skoðun.
-
svokölluð rekstrarskoðun sé framkvæmd en slík skoðun er ítarlegri en reglubundin yfirlitsskoðun. Þá er t.d virkni og stöðugleiki leikvallatækja skoðuð og getur í kjölfarið þurft að fara út í viðhald og viðgerðir á leiktækjunum og yfirborðsefni á svæðinu. Rekstrarskoðun skal framkvæma a.m.k. ársfjórðungslega af rekstararaðilum eða öðrum þeim er sinna uppsetningu og viðhaldi leikvallatækja fyrir rekstraraðila.
-
aðalskoðun sé framkvæmd einu sinni á ári á leiksvæðinu af faggiltum skoðunaraðila til að staðfesta öryggi leiksvæðisins í heild.
Er hugað að öryggi leiksvæðisins sem barnið þitt leitar á?
Reglubundnum skoðunum og rekstrarskoðunum er vel sinnt á flestum leiksvæðum landsins en því miður er ekki það sama að segja um aðalskoðunina. Á undanförnum árum hefur verið nokkuð ábótavant að óskað sé eftir aðalskoðun á leiksvæðum um land allt. Má nefna að árið 2009 er einungis talið að um 20% leiksvæða á Íslandi hafi verið aðalskoðuð. Hér má finna lista yfir þau leiksvæði sem hlutu aðalskoðun árin 2009 og það sem af er árs 2011. Er leiksvæðið sem barnið þitt notar á þessum listum?
Góð ráð:
-
Kannaðu hvort haft er eftirlit með leiksvæðinu sem barnið þitt notar. Ef ekki, gerðu kröfu til rekstraraðila um að slíkt verði gert.
-
Ef kaupa á leiktæki í heimilisgarðinn skal tryggja að leiktækið sé CE-merkt sem tryggir að leiktækið uppfyllir kröfur Evrópusambandsins. Neytendastofa fer með eftirlit með því að leikvallatæki og leiktæki á markaði uppfylli settar reglur um öryggi.
Gervigras
Gervigrasvöllum hefur fjölgað til muna á undanförnum árum bæði innan og utanhúss og eru þeir vel nýttir, sérstaklega af börnum.Notkun gúmmíkurls á þessum völlum hefur valdið nokkrum áhyggjum því það getur innihaldið ýmis hættuleg efni sem geta losnað út í umhverfið. Ef gúmmíkurlið er úr endurunnum hjólbörðum getur það innihaldið s.k. PAH efni sem eru krabbameinsvaldandi en notkun slíkra efna í hjólbörðum er nú bönnuð. Einnig getur gúmmíið innihaldið þungmálma sem eru skaðlegir bæði heilsu og umhverfi.
Það er mikilvægt að átta sig á því að gúmmíið er ekki hættulegt ef snerting við það er í takmörkuðum mæli. Ákveðin hætta er þó fólgin í því að ef gervigrasið og gúmmíið er ekki endurnýjað reglulega þá byrji smám saman að kvarnast úr gúmmíinu sem þyrlast þá frekar upp og valdi loftmengun (ryk og gúmmíagnir).
Góð ráð
- Burstaðu gúmmíkúlurnar af húð og fatnaði til að lágmarka snertingu við húð.
- Ef ofnæmisviðbrögð koma fram á húð skaltu forðast að nota gervigrasið. Ofnæmisviðbrögð lýsa sér oftast sem roði í húð.
Gervigras er gert úr neti úr plastþráðum, gervigrasi og undirlagi úr sandi og gúmmíi en gúmmíið er einnig inn á milli plastþráðanna. Gúmmíið mýkir völlinn og gefur honum eiginleika sem svipa til raunverulegs grass.
Á mörgum gervigrasvöllum er notað gúmmíkurl sem oft er fengið úr notuðum bíldekkjum. Endurunnið gúmmí með þessum hætti er ódýrara en nýtt en inniheldur meira af óæskilegum efnum. Gúmmí getur verið misjafnt að gerð en þó er oftast nær óhjákvæmilegt að nota ýmis skaðleg efni við framleiðsluna eins og þungmálma á borð við blý, zink og kadmíum.
Það versta við endurunna gúmmíið er að við framleiðslu bíldekkja hér áður fyrr var notað mikið af olíu sem inniheldur fjölarómatísk vetniskolefni (PAH) sem geta m.a. valdið krabbameini. Notkun slíkrar olíu við framleiðslu hjólbarða hefur nú verið bönnuð. Þá eru sumir næmir fyrir náttúrulegu gúmmíi (latexi) og ef loftræsting er ekki nægileg í yfirbyggðum gervigrasvöllum þá er þeim hætt við að fá ofnæmisviðbrögð.
Gúmmíkurl getur líka haft skaðleg áhrif á lífríki í námunda við velli utanhúss því þungmálmarnir eiga það til að leka út í nálægt umhverfi og skaða lífverur í vatni og jarðvegi.
Nokkur Evrópuríki hafa verið með til skoðunar hvort eðlilegt sé að leyfa þessa notkun á dekkjakurli. Í Svíþjóð og Noregi hefur nú verið mælt með að banna lagningu nýs gervigrass með endurunnu gúmmíi en á gervigrasvöllum í notkun verði engar slíkar kröfur gerðar. Til skoðunar er hvort beina eigi svipuðum tilmælum til sveitarfélaga og aðra rekstraraðila íþróttamannvirkja.
Heimild: ust.is