Ráðstefna um bakteríuflórunna í meltingaveginum – Flott flóra – leiðin til að tóra?
Miðvikudaginn 14.maí, kl. 13 – 17 í Salnum í Kópavogi
Hún Gyða Dröfn Tryggvadóttir er félagsfræðingur með meistaragráðu í lýðheilsuvísindum. Í sínu námi kynntist hún Ingibjörgu Loftsdóttur, sjúkraþjálfara og sameiginlegur áhugi þeirra á heilsumálum leiddi til þess að þær stofnuðum Heilan heim.
“Við erum núna að undirbúa okkar þriðju ráðstefnu sem ber yfirskriftina Flott flóra - leiðin til að tóra? þar sem athyglin beinist að bakteríuflórunni í meltingarveginum. Áður höfum við haldið ráðstefnur um D-vítamín og Omega, sem báðar voru vel sóttar enda efnið mikilvægt. Auk þess að skipuleggja ráðstefnur og aðra viðburði hef ég verið að halda fyrirlestra um vakandi athygli (mindfulness) og verið með hugleiðslu & slökunarhelgar. Svo rekum við eiginmaðurinn, Ástvaldur Traustason píanóleikari, saman tónlistarskólann Tónheima.“
Fyrst langar mig að vita hvað þú borðar til að halda þér í formi og hvað þú æfir?
Grænmeti tekur líklega mesta plássið á disknum mínum, ég elska góða grænmetisrétti og súpur. Fiskur er reglulega á borðum en kjöt sjaldnar og þá allra helst íslenskt lambakjöt. Gott súkkulaði ratar svo inn fyrir mínar varir reglulega, svona fyrir sálina. Ég geng eða hjóla á hverjum degi með hana Þulu mína, sem er Dvergschnauzer og dregur okkur hjónin út í hvaða veðri sem er. Ég sprikla aðeins í líkamsræktinni til að halda einhverjum vöðvastyrk og svo sit ég hugleiðslu reglulega því það er ekki nóg að huga bara að líkamlegri heilsu - það er heildin sem skiptir máli.
Ertu með stóra fölskyldu?
Ég á dóttur, tvo stjúpsyni og tvö barnabörn en við hjónin erum þó ein í kotinu með Þulu. Við vorum bæði ung þegar við eignuðumst börn og njótum því þeirra forréttinda á besta aldri að eiga barnabörn, það er BARA gaman.
Núna á næstunni er ráðstefna um bakteríuflórunna í meltingaveginum, hvað getur þú sagt mér um þessa ráðstefnu?
Flott flóra - leiðin til að tóra? er ráðstefna þar sem athyglin beinist að flórunni í meltingarveginum og munu sex fyrirlesarar halda erindi út frá ýmsum sjónarhornum. Um er að ræða algjöra nýjung í læknisfræði en það er að koma í ljós að bakteríurnar í meltingarveginum hafa áhrif á hjarta- og æðasjúkdóma, offitu, sykursýki, þunglyndi og hvernig okkur líður frá degi til dags. Þetta er algjörlega ný nálgun á þá læknisfræði sem við höfum þekkt til þessa. Aðalfyrirlesari er Michael Clausen barnalæknir og sérfræðingur í ofnæmissjúkdómum barna. Þetta er ekki hans sérgrein en hann er heillaður af efninu og hefur skoðað það mikið undanfarið. Aðrir fyrirlesarar munu fjalla um efnið í tenglsum við m.a. ristilkrabbamein, offitu og næringu og Kolbrún grasalæknir talar um leiðina að heilbrigðri þarmaflóru. Svo deilir einn fyrirlesaranna reynslu sinni af því að greinast með sáraristilbólgu og þeirri leið sem valin var til að takast á við sjúkdóminn.
Hvað er það sem við þurfum til að halda góðri bakteríuflóru í meltingaveginum?
Það mun einmitt koma í ljós á þessari ráðstefnu. Ég er ekki heilbrigðismenntuð og þó ég hafi mínar hugmyndir um það þá held ég að ég láti fagfólkið um að gefa ráðleggingar. Okkar markmið hjá Heilum heimi er að miðla upplýsingum og vekja upp góða umræðu og það gerum við með því að fá svona gott fólk eins og þessa fyrirleara til liðs við okkur.
Hverjir mun halda fyrirlestra?
Fyrirlesarar eru, fyrir utan aðalfyrirlesarann MIchael Clausen, Sigurjón Vilbergsson sérfræðingur í meltingarsjúkdómum, Kolbrún Björnsdóttir grasalæknir, Óla Kallý Magnúsdóttir næringarfræðingur, Erla Gerður Sveinsdóttir læknir í Heilsuborg og Margrét Alice Birgisdóttir, heilsumarkþjálfi.
Áttu gott ráð handa þeim sem þurfa að laga sína bakteríuflóru?
Besta ráðið sem ég á er að hvetja fólk til að koma og hlusta á þessa frábæru fyrirlesara, sem munu ausa úr sínum viskubrunni og gestir munu fara heim með ýmis ráð í farteskinu - því get ég lofað.