SIGRAÐU SYKURINN
Heilsutorgi langar til að benda ykkur á árveknisátakið Sigraðu sykurinn sem stendur yfir næstu 2 vikur og hefur það m.a. að markmiði að auka vitund Íslendinga á hættunni á sykursýki 2 - áunni sykursýki tengdri lífsstíl.
Samkvæmt áætlun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar eru um 23.000 Íslendingar með sykursýki af gerð 2 og ef marka má tölur frá Bandaríkjunum og Bretlandi má gera ráð fyrir að um 80.000 til viðbótar hafi skert sykurþol (e. prediabetes) sem veldur meðal annars aukinni áhættu á sykursýki, hjartaáföllum og heilablóðföllum. Allt að 70% einstaklinga með skert sykurþol þróa með sér sykursýki. Langvinnir lífsstílstengdir sjúkdómar valda um 86% dauðsfalla í Vestur Evrópu og eru um 70-80% heilbrigðiskostnaðar.
Ef einstaklingum í þessum áhættuhópi er boðið upp á skipulagða lífsstílsmeðferð sem hefur það að markmiði að bæta mataræði, auka hreyfingu, vinna að hugrækt þá lækkar áhætta á sykursýki um 60-70% til miðlungslangs tíma (3ja ára).
Tveir læknar og lýðheilsufræðingar, þau Tryggvi Þorgeirsson og Erla Gerður Sveinsdóttir hafa í auknum mæli beint sjónum sínum að lífsstílnum og því að fyrirbyggja sjúdóma í stað þess að slökkva elda í heilbrigðiskerfinu og er þetta liður í að auka vitund í samfélaginu um þessa miklu vá sem nú þegar er að hafa áhrif á yfir 100 þúsund Íslendinga - en lítill hluti þeirra áttar sig þó enn á því að þeir tilheyri þessum áhættuhópi. Þau eru hugsjónafólk og frumkvöðlar sem vilja snúa þessari þróun við.