Á hverju heimili og í öllum bílum ætti að vera Sjúkrataska
Hvert heimili ætti að eiga vel búna sjúkratösku. Sjúkratöskur er best að geyma þar sem auðvelt er að komast að þeim ef nauðsyn krefur. Best er að sjúkratöskur innihaldi einungis það allra nauðsynlegasta sem grípa þarf til ef slys ber að höndum.
Hjá Rauða krossinum eru seldar fjölnota sjúkratöskur.
Æskilegt innihald sjúkratösku
· Sáragrisjur 10 x 10 sm (5 -10 stk.): Á minni sár.
· Heftiplástur: Til að festa umbúðir.
· Skæri (stálskæri): Einfaldlega ómissandi.
· Flísatöng: Til að ná flísum og hreinsa óhreinindi úr sárum.
· Teygjubindi (10 sm og 8 sm): Til að styðja við tognanir í liðum og vöðvum.
· Grisjubindi (10 sm og 8 sm): Til að festa umbúðir.
· Plástur (ofnæmisprófaður): Til að setja á smásár og skrámur, klipptur í hæfilega stærð hverju sinni.
· Þríhyrna: Notuð til að setja handlegg í fatla, festa spelkur eða umbúðir.
· Öryggisnælur: Til að festa þríhyrnuna
· Saltvatn 0,9%: Til að hreinsa sár, skola augu, geyma úrrekna tönn, væta grisju til að geyma afhöggvinn útlim í.
· Eyrnapinnar: Til að fjarlægja sandkorn úr auga.
· Vaselíngrisjur: Til að setja á hruflsár.
· Augnskolglas: Skola efni úr auga.
· Einnota kælipokar: Til að kæla vöðva og liði sem hafa orðið fyrir áverka. Dregur úr bólgu og blæðingu. Sprengið innri pokann og hristið vel.
· Klemmuplástrar: Til að loka minniháttar skurðum sem ekki þarf að sauma.
· Sótthreinsiklútar: Til að sótthreinsa hendur áður en búið er um sár.
· Blástursmaski: Við munn við munn aðferðina er maskinn settur yfir munn þess sem blásið er í.
· Einnota hanskar: Til að verjast smiti, t.d. ef um er að ræða snertingu við blóð.
Til viðbótar má bæta í sjúkrakassann verkjatöflum s.s. panodil en þær fást án lyfseðils í apótekum, ofnæmistöflum sem einnig fást án lyfseðils í apótekum. Gott er að útbúa lista yfir innihald kassans og festa hann inn í lokið og setja dagsetningar fyrir aftan þá hluti sem hafa takmarkaðan endingartíma.
Athugið þessar upplýsingar koma ekki í stað hefðbundinna skyndihjálparnámskeiða.
Birt með góðfúslegu leyfi Rauða kross Íslands
Heimild: doktor.is