Skammdegisþunglyndi. Ert þú með svoleiðis?
Oft er sagt að ekkert sé nýtt undir sólinni og það gildir sannarlega um skammdegisþunglyndi. Til eru frásagnir frá annarri öld af Grískum og Rómverskum læknum sem meðhöndluðu depurð og drunga með sólarljósi. Á síðustu áratugum hefur þekking á lífsklukkunni og áhrifum ljóss á hana tekið miklum framförum. Árið 1984 birtist grein Norman Rosenthals og félaga sem sýndi fram á að skammdegisþunglyndi er sérstök tegund af þunglyndi og ljósameðferð er áhrifarík meðferð við því.
Um þunglyndi
Þunglyndi er algengur sjúkdómur, sem getur komið hjá fólki á öllum aldri og á mismunandi árstímum. Kjarnaeinkenni þunglyndis eru depurð og vanlíðan, áhugaleysi og gleðileysi, framtaksleysi, aukinn kvíði og svefntruflanir. Önnur einkenni geta verið breytingar á matarlyst, erfiðleikar við einbeitingu, reiði eða pirringur og neikvæðni. Í alvarlegustu tilfellum vonleysi, lífsleiði og sjálfsvígshugsanir. Einnig geta geðrofseinkenni fylgt alvarlegu þunglyndi.
Skammdegisþunglyndi er talið tengjast minnkandi dagsbirtu og truflun á lífsklukkunni.
Árstíðabundið þunglyndi er þunglyndi sem kemur á ákveðnum tíma árs, oftast á haustin og veturna (skammdegisþunglyndi), en sjaldnar að vori og sumri. Einnig er þekkt s.k. vetrardepurð, eða „winter blues“, stundum kallað skammdegisdrungi, en þá er um að ræða vægari einkenni.
Einkenni skammdegisþunglyndis
Algengt einkennamynstur í skammdegisþunglyndi auk depurðar er aukinn svefn, aukin matarlyst og löngun í sætindi, þyngdaraukning, pirringur, þreyta og orkuleysi.
Orsakir
Orsakir skammdegisþunglyndis eru ekki þekktar, en talið er að það tengist minnkandi dagsbirtu hausts og vetrar sem valdi hjá sumum truflun á lífsklukkunni og/eða truflun á melatónín framleiðslu, en melatónín er stundum nefnt hormón myrkursins því framleiðsla þess er mest á nóttunni.
Vitað er að boðefnið serotonin er minnkað hjá fólki með skammdegisþunglyndi og ein kenningin er sú að minnkun á dagsbirtu gæti valdið minnkaðri framleiðslu á serotoníni.
Fleiri konur en karlar
Skammdegisþunglyndi er algengara hjá konum en körlum og algengara hjá fólki sem býr lengra frá miðbaug. Eins og með aðrar gerðir þunglyndis er það algengara hjá þeim sem eiga ættingja með sjúkdóminn, einnig getur fólk með þunglyndissjúkdóma haft skammdegisþunglyndi og liðið verr á veturna.
Í íslenskri rannsókn mældist algengi skammdegisþunglyndis 3,8%, og einkenni skammdegisdrunga, sem eru vægari einkenni mældust hjá 7,5%. Rannsóknarhópurinn fann að skammdegisþunglyndi var marktækt sjaldgæfara hjá Íslendingum og Canadabúum af Íslenskum ættum, en hjá öðrum Canadabúum. Þeir vörpuðu fram þeirri kenningu að Íslendingarnir hefðu náð að aðlagast og auka þol sitt gegn vetrarmyrkrinu.
Almenn ráð
Ef einkenni eru væg er ýmislegt hægt að gera til að bæta líðan sína í skammdeginu.
• Bættu meiri birtu inn í umhverfið. Dragðu gardínurnar frá meðan bjart er, klipptu trjágreinar eða runna sem hindra dagsljósið. Sittu nær glugga heimavið eða í vinnunni. Einnig er mælt með vekjaraklukku með dagsljóslampa, sem líkir eftir dagrenningu með því að smá auka birtustigið áður en vekjaraklukkan hringir.
• Útivera. Farðu í göngutúr meðan bjart er, eða sundlaugarferð. Vetrarfrí á sólríkan stað getur hjálpað.
• Regluleg hreyfing dregur úr þunglyndiseinkennum, streitu og kvíða, auk þess að
bæta líkamsástand.
• Mataræði: Omega-3 fitusýrur hjálpa sumum, einnig er mikilvægt að taka D-vítamín yfir vetrarmánuðina.
Meðferð
Ef hin almennu ráð duga ekki, er meginmeðferðin við skammdegisþunglyndi ljósameðferð eða notkun svokallaðra dagsljósalampa.
Lyfjameðferð með þunglyndislyfjum getur einnig verið gagnleg. Sumir taka lyf eingöngu yfir veturinn meðan einkennin eru, en aðrir taka þau allt árið um kring. Viðtalsmeðferð getur einnig verið hjálpleg, eins og við aðrar tegundir þunglyndis.
Algeng einkenni eru aukinn svefn,aukin matarlyst og löngun í sætindi, þyngdaraukning, pirringur, þreyta og orkuleysi.
Lokaorð
Listamenn og skáld hafa skrifað um áhrif árstíðanna á mennina. Shakespeare sagði til dæmis „a sad tale’s best for winter“. Árstíðirnar eru ekki eins fyrir alla, haustið töfrar suma með sinni litadýrð og kvöldrökkri, og leiðir hugann að notalegum stundum í faðmi vetrarmyrkursins sitjandi við arininn með kakóbolla, en fyrir aðra er haustið kvíðavaldandi fyrirboði þunga vetursins.
Það er aðeins lítill hluti mannkyns sem býr jafn norðarlega og við jafn mikið skammdegi og við Íslendingar, og kannski væri farsælla fyrir okkur að lifa meira í takt við árstíðirnar, hægja á okkur yfir vetrartímann sofa meira, eiga kannski fleiri stundir með kakóbolla og góða bók við arininn og færri hlaupandi um í verslunarmiðstöðvum í svartasta skammdeginu.
Heimildir:
1. Up-to-date: Seasonal affective disorder. Höf: Atezaz
Saeed MD, Timothy J Bruce, PhD, Section Editor: Peter P
Roy-Byrne MD, Deputy Editor: David Solomon MD.
2. John M. Eagles: Seasonal affective disorder. The British
Journal of Psychiatry (2003) 1 82: 174-176 doi: 10.1192/
bjp.02.129
3. Canadian Consensus Guidelines for the Treatment of
Seasonal Affective Disorder, edited by Raymond W. Lam,
MD, FRCPC, and Anthony J. Levitt, MBBS, FRCPC
4. The Carlat Psychiatry Report, October 2006
5. Norman Rosenthal: Winter Blues, fjórða útgáfa 2012
6. www.mayoclinic.com/health
7. Axelsson J: Seasonal affective disorders: relevance of
Icelandic and Icelandic-Canadian evidence to etiologic
hypotheses. Can J Psychiatry. 2002 Mar; 47(2)153-8.
8. Magnússon A: Prevalence of seasonal affective disorder
in Iceland. Arch Gen Psychiatry. 1993 Dec;50(12):941-6.
Þórgunnur Ársælsdóttir, geðlæknir
Grein af www.sibs.is , samstarfsaðila Heilsutorg.com