Skilnaðar- og forsjármál erfiðari en sakamál
Lögmaðurinn Guðrún Sesselja Arnardóttir hefur varið nokkra harðsvíruðustu glæpamenn landsins á ferli sínum. Hún hefur nú söðlað um og mun birtast í væntanlegri kvikmynd Baltasars Kormáks, Eiðnum. Guðrún er í forsíðuviðtali nýjasta tölublaðs MAN. Þar kemur hún víða við og segir meðal annars frá því að henni finnist skilnaðar- og forsjármál erfiðari en sakamálin.
Guðrún hefur sérhæft sig í bæði sakamálum og skilnaðar- og forsjármálum og hún segist kannast við að seinni flokkurinn sé eitthvað sem margir lögfræðingar reyni að forðast.
„Þetta eru erfið mál, mér finnst þau erfiðari en sakamálin. Enda oft ekkert rosalega mikil lögfræði, það eru sérstakar málsmeðferðarreglur o.s.frv. Svo oft á tíðum er maður meira eins og sálfræðingur en lögmaður. Það er bara mjög erfitt oft að hlusta á fólk rífast um börnin sín. Auðvitað er stundum ekki hægt annað en að fara í mál en langflest eðlilegt fólk á að geta leyst svona lagað. Manni finnst oft sem börnin gleymist hreinlega í þessum málum.“
Guðrún bendir þó á að heilmikið hafi breyst í þessum málum undanfarin ár og meginreglan í dag sé sameiginleg forsjá. „Því þó svo að oft séu særindi og leiðindi við skilnað þá næst ágætis sátt og það er jafnvel gengið mjög langt í því að reyna að ná fram dómssátt í svona málum. Lögheimilið þarf þó enn að vera hjá öðrum aðilanum og ég get ekki séð að það þurfi að vera þannig.“