Stilltar fatlaðar konur…?!
Fatlaðar konur og sálrænar afleiðingar af margþættri mismunun.
MARK Miðstöð margbreytileika- og kynjarannsókna og Rannsóknarsetur í fötlunarfræðum kynna:
Þriðjudaginn 22. ágúst nk. kl. 12-13 í H-103 Háskólatorgi mun Freyja Haraldsdóttir kynna niðurstöður meistararannsóknar sinnar í kynjafræði sem ber heitið „Stilltar fatlaðar konur…?!
Fatlaðar konur og sálrænar afleiðingar af margþættri mismunun.“ Leiðbeinendur Freyju voru Þorgerður Einarsdóttir, prófessor í kynjafræði við Háskóla Íslands og Rebecca Lawthom, professor í sálfræði við Manchester Metropolitan University.
Fatlaðar konur um allan heim hafa orðið fyrir margþættri mismunun á grundvelli kyngervis, fötlunar, aldurs, stéttar, kynþáttar, kynheigðar og kynvitundar frá upphafi. Það hefur komið í veg fyrir jöfn tækifæri þeirra og dregið úr líkamlegri og andlegri vellíðan. Í meistararannsókn sinni rannsakaði Freyja reynslu fatlaðra kvenna á Íslandi af margþættri mismunun með sérstakri áherslu á kyngervi og fötlun. Jafnframt skoðaði hún sálrænar afleiðingar af því að verða fyrir margskonar beinu og óbeinu ofbeldi, hvernig konurnar andæfa slíku ofbeldi og hverjar hugmyndir þeirra eru af samfélagsumbótum. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að fatlaðar konur upplifa margþætta mismunun í ólíkum rýmum sem oft er bæði dulin og meiðandi. Sálrænu afleiðingarnar eru flóknar og mótsagnakenndar og birtast í gegnum þreytu, sorg, kvíða og ótta, reiði, tilfinningar um valdaleysi, að vera öðrum háðar, hlutgervingu og afmennskun.
Konurnar andæfa og stuðla að betri líðan með ólíkum hætti, m.a. með því að taka vald yfir því að skilgreina sig, leita til aðstandenda sem viðurkenna líðan þeirra og í gegnum samstöðu við aðrar fatlaðar konur. Þær telja að breytingar á jaðarsettri stöðu þeirra felist í að uppræta kúgandi valdakerfi og skaðlega menningu sem ýtir undir fötlunar- og kvenfyrirlitningu sem koma í veg fyrir að fatlaðar konur á Íslandi geti tekið fullan og virkan þátt í samfélaginu og búi við mannréttindi. Rannsóknin byggir á níu eigindlegum viðtölum við fatlaðar konur, með ólíkar skerðingar, á aldrinum 20-50 ára.
Í þessu erindi mun Freyja sérstaklega beina sjónum að þeim niðurstöðum rannsóknarinnar sem snúa að birtingarmyndum sálrænna afleiðinga af margþættri mismunun í lífi fatlaðra kvenna og hvar og hvernig þær birtast. Hún mun einnig fjalla um hvers vegna það er flókið fyrir fatlaðar konur að tala um og afhjúpa tilfinningar sínar og þá skömm sem því oft fylgir að reiðast og finna fyrir depurð, kvíða og öðrum neikvæðum tilfinningum, þegar samfélagið gerir ríka kröfu til þess að þær eigi að vera „stilltar fatlaðar konur“.