Súkkulaði með þeyttum rjóma og óteljandi tegundir af smákökum
Jólaboðið okkar er á annan dag jóla, þá býð ég fjölskyldunni til veislu sem er í gamla móðnum.
Ég hita sjúkkulaði og ber fram með þeyttum rjóma.
Á borð eru bornar tertur: eplakaka, marengsterta, súkkulaðiterta, vínarterta og lagkaka og fínar smákökur, fallega skreytt brauð.
Þegar við erum búin að fá okkur súkkulaðið og kökurnar, syngjum við jólalög. Þetta hefur verið svona allan minn búskap en ég er fædd á öðrum áratug síðustu aldar“, segir skagfirsk kona. Það eina sem breyttist var fjöldi gesta í jólaboðum hjá henni. Hún er ein þeirra sem svarað hafa spurningalistum þjóðháttasafns Þjóðminjasafnsins um jól og jólboð. Frá því um 1960 hefur Þjóðminjasafn Íslands safnað skipulega heimildum um lífshætti á fyrri tíð með því að semja spurningaskrár og senda út til fólks. Ýmisskonar upplýsingar um jól og jólasiði er að finna á þjóðháttasafninu og hvernig jól og jólasiðir hafa breyst í áranna rás.
Hangikjöt, malt og appelsín
Konan sem vitnað var til var til í upphafi greinarinnar var vön að borða hangikjöt með uppstúfi á aðfangadagskvöld og drekka með því malt og appelsín. Þegar skrárnar eru lesnar kemur í ljós að margir borðuðu hangikjötið á aðfangadagskvöld langt fram eftir síðustu öld. Maður sem alinn er upp á Suðurlandi og fæddur í kringum 1960 lýsir jólamatnum svona þegar hann var að alast upp: „Börnunum fannst alltaf viss tilhlökkun að finna lyktina af hangikjötinu því þau vissu hvað var í vændum. Hangikjötið var alltaf borið fram með grænum baunum, rauðkáli og hvítum jafningi. Með þessu varð að drekka blöndu af malti og appelsíni. Eftirrétturinn var svo niðursoðnir blandaðir ávextir með rjóma. Á unglingsárum mínum fór svo fjölbreytnin að aukast og hamborgarhryggur eða bayonskinka kom í staðinn fyrir hangikjötið á aðfangadagskvöld en hangikjötið var haft á jóladag. Algengir eftirréttir voru niðursoðnir ávextir með rjóma og ávaxtagrautur með rjóma“. Eftir miðja síðustu öld fer ís að verða vinsæll eftirréttur. Fjölbreytni í jólamatnum jókst svo smátt og smátt á seinni hluta aldarinnar. Fram kemur að mörgu eldra fólki fannst rjúpur ekki jólamatur enda voru rjúpur hversdagsmatur hjá mörgum. Það er ekki fyrr en á síðari áratugum sem þær verða algengur jólamatur og enn styttra er síðan fólk fór að borða endur, gæsir og kalkúna á jólum.
Smelltu HÉR til að klára að lesa greinina.