Svona er hægt að fækka hitaeiningum í hrísgrjónum um helming
Hrísgrjón innihalda mikið af hitaeiningum og margir veigra sér við að borða þennan góða mat vegna þess. En það er til einföld leið til að fækka hitaeiningunum um helming og því ætti að vera hægt að borða hrísgrjón með góðri samvisku.
Þetta kemur fram á vefsíðu Daily Mail og þar segir að vísindamenn hafi fundið aðferð til að fækka hitaeiningum í hrísgrjónum um allt að 60 prósent. Galdurinn er að þeirra sögn að sjóða grjónin saman með kókosolíu.
Að jafnaði innihalda 100 grömm af ósoðnum hrísgrjónum um 365 hitaeiningar. En með því að nota kókosolíu þegar þau eru soðin eykst magn þolinnar sterkju í þeim tífalt en mannslíkaminn getur ekki tekið hana upp í mjógirnið og því verður hún ekki að sykri eða fitu í líkamanum.
Það voru vísindamenn á Sri Lanka sem komust að þessu en þeir gerðu tilraunir með 38 tegundir hrísgrjóna.
Það þarf þó að fylgja leiðbeiningunum vel annars geta hrísgrjónin orðið eitruð.
1. Ein teskeið af kókosolíu er sett út í sjóðandi vatn.
2. Setjið 105 grömm af hrísgrjónum út í og látið sjóða í 20-25 mínútur.
3. Setjið hrísgrjónin í ísskáp í 12 klukkustundir.
4. Hitið hrísgrjónin upp og gætið þess að þau hitni alveg í gegn.
Það er mikilvægt að kæla hrísgrjónin í 12 klukkustundir því að þá fer kókosolían inn í sterkjuna og breytir henni í þolna sterkju.
Eins og Pressan sagði frá í janúar er mikilvægt að meðhöndla hrísgrjón á réttan hátt til að forðast matareitrun af þeirra völdum. Aldrei má hita hrísgrjón oftar en einu sinni. Því er mjög mikilvægt að fara eftir leiðbeiningum vísindamannanna.
Niðurstöður rannsókna vísindamannanna voru kynntar á ársþingi American Chemical Society.
Grein þessi fengin að láni frá pressan.is