Þegar þú hefur lesið þetta hættirðu að reykja
Til að auðvelda reykingarfólki að takast á við reykingafíknina koma hér nokkur ráð sem eiga að sögn læknis að tryggja að fólk hætti að reykja án mikilla erfiðleika.
Breski læknirinn Max Pemberton elskaði að reykja og eyddi mörgum árum í að venja sig af ósómanum og nú segist hann hafa fundið gulltrygga aðferð til að hætta að reykja með hugrænni aðferðarfræði. Hann segist hafa vitað mjög vel hversu hættulegar reykingar væru fyrir hann en það hafi ekki haldið aftur af reykingunum. Hann bendir á að ef vitneskja um skaðsemi reykinga dygði til að halda fólki frá reykingum myndu læknar og hjúkrunarfræðingar ekki reykja.
„Ég elskaði að reykja, þrátt fyrir að ég vissi að það myndi drepa mig.“
Þegar amma hans og frænka létust af völdum lungnakrabbameins fór hann að hugsa um hvað það væri sem hann elskaði svo mikið að hann væri reiðubúinn að deyja fyrir það. Þannig hófst rannsókn hans á ánægjunni við að reykja og það varð til þess að hann hætti að reykja og gefur út bók á nýársdag um hvernig hann sigraðist á fíkninni að sögn Daily Mail.
„Ég er hættur og ég hef aldrei litið til baka. Aðferðin sem ég notaði og hef nú skrifað bók um felur í sér nokkrar æfingar sem eiga að fá þig til að hugsa á vinsamlegan hátt um samband þitt við sígarettur.“
Hann segir að ef fólk fylgi þeim fjórum þrepum sem fylgja hér á eftir þá muni það hætta að reykja á auðveldan hátt.
1. Skrifaðu lista yfir allt það sem þú elskar við sígarettur og af hverju. Ekki sleppa neinu. Skrifaðu niður allt það sem þú færð út úr því að reykja.
2. Skrifaðu lista yfir allt það sem kemur í veg fyrir að þú hættir. Ekki sleppa neinu, jafnvel þó að það geti verið erfitt. Reykingar eru eitthvað sem við gerum án þess að hugsa mikið um það og það er auðvelt að búa sér til tálmyndir í kringum þær og af hverju við höldum áfram að reykja. Hvað er það sem heldur sannarlega aftur af því að þú hættir að reykja? Hvað hræðir þig?
3. Farðu aftur í fyrsta liðinn. Skrifaðu niður allt það sem þú vilt fá út úr því að reykja ekki. Skoðaðu síðan lista númer 1 aftur. Þú munt átta þig á að allt það sem stendur þar er tálsýn. Rök þín fyrir að reykja virðast vera góð og gild en þau eru það ekki. Sígarettur draga ekki úr stressi. Þvert á móti hækka reykingar blóðþrýsting og hjartslátt og auka þar með stress.
4. Ímyndaðu þér að þú sért lögmaður. Settu fram allar glóandi röksemdirnar úr liðum 1 og 2 sem hvetja til áframhaldandi reykinga. Skiptu síðan um hlutverk og vertu saksóknari og notaðu atriðin úr lið 3 til að styðja mál. Ímyndaðu þér að þú sért að flytja mál fyrir framan dómara. Æfingin mun verða til þess að þú horfir hlutlaust á stöðuna og færir þér þá fjarlægð frá málinu sem er nauðsynleg til að geta hætt að reykja.
Er því nokkuð annað að gera fyrir reykingafólk en að láta reyna á þetta?