Þú ert alltaf skapari - hugleiðing frá Guðna lífsráðgjafa
Hver ákvað að gera þig svona og setja þig hér?
Einn tveir og nú og það varst þú!
Þú ert alltaf skapari. Þú ert umbreytingareining sem dregur í sig orku alla daga, nýtir hana, meltir og sendir hana frá þér aftur – orka eyðist aldrei, henni er aðeins hægt að umbreyta og ráðstafa. Þú ert heilög orkuvera sem á í stöðugum og margþættum samskiptum við annað fólk, hluti, aðstæður og allan heiminn.
Við erum alltaf að ráðstafa orkunni og hagræða henni, okkur í vil. Stundum viljum við nota orkuna til að lítillækka okkur, stundum viljum við hefja okkur yfir aðrar manneskjur í því sem er kallað mikilmennskubrjálæði eða hroki. En blekkingin er sú að við tengjum aðeins hið síðarnefnda við sjálfhverfu eða egóisma.
Sannleikurinn er auðvitað sá að það er jafn mikið egó í lítillækkun og upphafningu.