Fara í efni

Til kvenna sem eiga mann með ristruflun

Til kvenna sem eiga mann með ristruflun

5 af hverjum 10 mönnum á aldrinum 40–70 ára eiga við ristruflun að stríða.

Það vantar ekki ástina
Það er mikilvægt að láta sér líða vel með þeim sem manni þykir vænt um og hér skiptir kynlífið miklu máli, óháð aldri og heilsu. Fimm af hverjum 10 körlum á aldrinum 40 til 70 ára lenda í vandræðum með stinningu. Rétt er að leggja á það áherslu að í mjög fáum tilvikum stafar þetta af vanda í samskiptum viðkomandi pars. Oftast nær liggja líkamlegar eða líffræðilegar ástæður að baki.

Hjá körlum með sykursýki er þetta t.d. algengur fylgikvilli, og hjá þeim sem eru með hjartasjúkdóm lenda 4 af hverjum 10 í vandræðum með stinningu. Það er ekki svo að maður verði að sætta sig við þetta því að ýmislegt er hægt að gera við því. Oft getur það hjálpað ef konan hefur frumkvæði að því að ræða málið.

Á maðurinn minn í vandræðum með stinningu?
Ef eiginmaður þinn eða félagi á erfitt með að láta sér rísa hold þannig að það bitni á kynlífinu þá má tala um stinningarvanda eða ristruflun. En slíkt þýðir ekki að hann sé ófrjór og geti ekki haft sáðlát eða fengið fullnægingu.

Hvaða áhrif hefur þetta á manninn?
Karlar meta að hluta til eigin verðleika út frá hæfileikum sínum á sviði kynlífsins. Ef þeir ná ekki stinningu eða tekst ekki að viðhalda henni getur það orkað sálrænt á þá. Vonbrigði geta komið fram, taugatitringur og áhyggjur af frammistöðu, einnig reiði, þunglyndi og öryggisleysi. „Ef ég get ekki stundað eðlilegt kynlíf með elskunni minni þá hef ég svikið hana sem ástmaður og maður.“ Það getur reynst erfitt að ræða málið og þá getur svo farið að maðurinn þjáist í einrúmi og þögn.

Hvaða áhrif hefur þetta á konuna?
Vandamálið getur einnig kallað fram sterkar tilfinningar hjá konunni, m.a. reiði, vonbrigði, áhyggjur af manninum, taugatitring, öryggisleysi og áhyggjur af eigin frammistöðu. Margar konur fara að ímynda sér að þær séu ekki nógu aðlaðandi og kvenlegar ef karlinn á í vandræðum með stinningu.

Ef karl eða kona fær á tilfinninguna að hún (hann) sé ekki eins eftirsótt(ur) og áður verður þörfin meiri fyrir umhyggju og ást. Karlinn reynir að vísu að forðast slíkt af ótta við að það leiði til væntinga um kynlíf sem hann getur ekki staðið sig í.

Þessi vandi með stinningu getur smátt og smátt farið að orka á aðra þætti sambúðarinnar. Spenna getur myndast ásamt þeirri tilfinningu að æ meiri fjarlægð sé að verða í sambandinu.

Er unnt að meðhöndla þennan vanda mannsins míns?
Það má meðhöndla ristruflun hjá langflestum. Karlinn þinn þarf því ekki að sætta sig við að búa bara við þetta; margar leiðir til meðhöndlunar eru fyrir hendi.

Hvað get ég gert sjálf?
Það er ýmislegt hægt að gera:
Mikilvægast er að geta rætt þennan vanda við karlinn. Það er kannski ekki auðvelt að eiga frumkvæði að því. En það sýnir áhuga þinn á vandamálinu og vilja til að leysa það ef þú kynnir þér hugsanlegar orsakir og meðhöndlun.

Ef maðurinn þinn á að fá meðhöndlun verður hann að tala við lækni. Þú getur kannski boðist til að fara með. Því fyrr sem tekið er á vandanum því fyrr er unnt að finna hvaða meðhöndlun hentar best. Auðvitað er það karlinn sem fer í meðhöndlunina en stuðningur þinn við að koma þessu í kring getur skipt sköpum.
Ef karlinn þinn reykir eða neytir mikils áfengis getur það aukið á vandann. Þú skalt ráðleggja honum að fá aðstoð læknis við að minnka eða hætta reykingum og drykkju.
Ýmis lyf geta orsakað vanda við stinningu eða bætt á vanda sem fyrir er. Einkum er um að ræða lyf við háum blóðþrýstingi, flogaveiki og þunglyndi auk vatnslosandi lyfja. Ef þið teljið að vandinn tengist nýjum lyfjum sem maðurinn hefur fengið er mikilvægt að hann láti lækninn vita.
Hvers konar meðhöndlun er um að ræða?

Læknir ykkar getur leiðbeint ykkur um ýmsa möguleika til meðhöndlunar. Það er yfirleitt ekki þörf á miklum rannsóknum áður en meðhöndlun getur hafist. Maðurinn þarf hins vegar að ræða við lækni um hvað hafi angrað hann og hvaða lyf hann tekur. Hugsanlega verður tekið af honum hjartalínurit (EKG, þar sem rafskaut eru sett á brjóstið) og blóðþrýstingur mældur.

Það er óhætt að taka lyf við ristruflun ef þess er gætt að:
fá lyfin með lyfseðli frá lækni.
ræða við lækni um fyrri sjúkdóma og önnur lyf áður en meðhöndlun hefst.
ræða við lækni ef aukaverkanir koma fram.
fylgja ráðum læknis um skammtastærð.
Fimm mismunandi aðferðir til meðhöndlunar á vandanum

Töflur
Tvenns konar töflur til meðhöndlunar á ristruflun eru fyrir hendi. Í báðum tilvikum þarf að hafa lyfseðil. Unnið er að fleiri slíkum lyfjum sem enn hafa ekki fengist viðurkennd. Töflurnar eru ýmist teknar með vatni eða lagðar undir tunguna. Töflurnar virka aðeins við kynörvun.
Sprautur
Lyf í sprautuformi við ristruflun er til. Því er sprautað í hliðina á limnum með mjórri sprautunál og krefst þetta því vissrar kunnáttu og æfingar. Sprautan líkist venjulegum kúlupenna. Stinning verður án kynörvunar. Lyfið virkar hjá um 7 körlum af hverjum 10. Höfuðókosturinn er að þurfa að stinga í liminn í hvert sinn sem stinning á að nást. Einn til þrír af hverjum 10 kenna sársauka í lim í tengslum við sprautunina og einn og einn fær ör.
Viðtalsmeðhöndlun
Sumir karlar lenda í vandræðum með stinningu í sambandi við sálarstríð eða þunglyndi. Vandinn skapast oft skyndilega og án þess að um aðra sjúkdóma sé að ræða. Í slíkum tilvikum er gagnlegt að fá viðtal hjá lækni eða kynlífsfræðingi – e.t.v. ásamt maka. Það er alltaf gott að ræða við mann með sérþekkingu þegar vandamál tengd kynlífi koma upp. Slík mál eru samspil sálrænna og líkamlegra þátta. Sömu líkamlegu breytingarnar orsaka ekki vanda hjá öllum. Og jafnvel þótt búið sé að leysa hið líkamlega vandamál, t.d. með hjálp lyfja, getur verið eftitt að koma kynlífinu í eðlilegt horf vegna sálrænna þátta sem jafnan eru með í spilinu. Hægt er að fá tilvísun á kynlífsfræðing hjá heimilislækni.
Risdæla
Ef ekki er vilji til að nota lyf við ristruflun – eða ef lyfin virka ekki – geta sumir karlar haft gagn af risdælu. Útbúnaðurinn samanstendur af sívölu röri, dælu og teygju. Rörið er sett utan um liminn, og dælan orsakar undirþrýsting í rörinu. Þannig sogast blóð fram í liminn og stinning verður. Til að hún haldist er teygju smeygt um rót limsins áður en rörið er fjarlægt.
Dælan virkar vel en er dálítið erfið í notkun. Limurinn er blár og kaldur svo lengi sem teygjan er um hann og aðeins fæst stinning í fjærenda hans. Því er eins og hann sé búinn hjöruliðum. Muna verður að fjarlægja teygjuna 30 mínútum eftir að henni er komið fyrir til að koma í veg fyrir vefjaskemmdir.
Dæluna er hægt að fá hjá sérfræðingi í þvagfærasjúkdómum og getur heimilislæknir vísað á hann. Hugsanlega má fá hana lánaða til reynslu. Síðan er hægt að kaupa slíka dælu í kynlífsverslunum eða gegnum Netið.
Aðgerð
Mjög fáir fara í aðgerð vegna ristruflana. Rannsókn og aðgerð fer fram hjá þvagfæralækni sem heimilislæknir vísar á. Um er að ræða tvær tegundir aðgerða:
Reðurstólpar:
Uppdælanlegu stólparnir eru samsettir úr þremur einingum: stólpa, dælu og geymi. Þessar einingar geta verið tengdar með slöngum eða verið sambyggðar. Við að setja dæluna af stað, dælist vökvi frá geyminum, sem staðsettur er í pungnum, í stólpann. Þegar óskað er eftir að stinningu ljúki er dælan stöðvuð og vökvinn rennur til baka í geyminn. Sú stinning sem næst við uppblásanlega og þá sérstaklega þriggja þátta stólpann, minnir einna mest á eðlilegt ris. Mjög ánægjulegur árangur hefur náðst af ísetningu þeirra. Þau vandamál sem geta komið strax eru sýkingar. Síðan getur komið fram leki á vökva í kerfinu. Bæði vandamálin geta krafist aðgerða.

Æðaaðgerð:
Sumir karlar eiga í erfiðleikum með stinningu vegna þess að blóðið, sem fer inn í liminn og veldur stinningu, rennur strax burt. Slíkan „leka“ má stöðva með aðgerð. Hjá heimilislækni er hægt að fá meiri upplýsingar um kosti, óþægindi, aukaverkanir og reynslu af einstökum meðhöndlunarleiðum.

 

Vertu hreinskilin við sjálfa þig
Ef maðurinn þinn á við ristruflun að stríða skaltu spyrja þig nokkurra spurninga: Hefur þetta vandamál áhrif á okkar samband? Hefur þetta vandamál haft áhrif á innileikann í sambandi okkar? Gæti ég vel hugsað mér að maðurinn minn næði aftur fyrri getu? Svörin við þessum spurningum segja til um hve reiðubúin þú ert til að hjálpa manninum þínum við að finna lausn á vanda hans.

Hreinskilnar samræður
Það er mikilvægt að þú spyrjir manninn þinn um vanda hans og hvort hann vilji gera einhverjar ráðstafanir. Ræddu opinskátt við hann um tilfinningar þínar, þarfir og óskir. Ef þið eruð bæði sammála um að meðhöndlun sé rétta skrefið skaltu hjálpa honum að hrinda málinu í framkvæmd.

Leitið eftir hjálp fagmanna
Góð meðhöndlun krefst aðstoðar frá lækni ykkar. Mikilvægt er að fara í rannsókn hjá honum til að komast að raun um hvort orsakir vandans séu af heilsufarsástæðum og til að glöggva sig á hvaða meðhöndlun eigi best við.

Veljið meðhöndlunina sameiginlega
Enda þótt sumir karlar geti komist að því sjálfir hvaða meðhöndlun henti er hitt þó sennilega best að þið takið ákvörðunina saman um það hvaða leið þið hafið mesta trú á.

Verið þolinmóð
Ekki er öruggt að fyrsta meðhöndlun sem valin er virki strax. Gefist ekki upp. Ef þið eruð enn óánægð eftir nokkrar tilraunir, reynið þá aðra meðhöndlun. Verið tilbúin að prófa ykkur áfram.Skipuleggið eftirlit hjá lækni

Það er mikilvægt að maðurinn fari til læknis með reglubundnu millibili til að tryggja að meðhöndlunin sé fullnægjandi og að ekki komi upp neinir fylgikvillar.

Íhugið kosti við ráðgjöf
Kynlífsráðgjöf getur verið heppileg til að styrkja sambandið.

Haldið samvinnunni áfram
Par sem vinnur saman að því að ná góðu kynlífi uppsker vel í flestum tilvikum.

Þessi grein er unnin upp úr bæklingnum “Til kvenna sem eiga mann með ristruflun”

Jórunn Frímannsdóttir
Hjúkrunarfræðingur www.Doktor.is

doktor_is_logo (1)