Um egglosvandamál
Það geta verið ýmsar ástæður fyrir því að komur hafa ekki egglos. Í þessari mjög svo góðu grein frá doktor.is er vel farið yfir málið.
Aðalástæðan fyrir því að konur fara ekki á reglulegar blæðingar, ef þungun er ekki með í spilunum, er sú að konan hefur ekki egglos. Nokkrar ástæður geta verið fyrir því að kona hefur ekki egglos eða fyrir því að það gerist sjaldan. Hægt er að greina hvort konur hafi egglos með því að skoða eftirfarandi þætti:
- Hvort mælingar á grunnlíkamshita sýna hækkaðan hita eftir áætlaðan egglostíma
- Hægt er að taka strok úr leghálsi 7-10 dögum eftir áætlað egglos
- Blóðprufa ætti að sýna hækkað gildi prógesteróns í blóði um 7-10 dögum eftir áætlað egglos.
- Sónarskoðun sem sýnir eggbú sem er 18 mm eða meira í þvermál og önnur sónarskoðun fáeinum dögum síðar þar sem eggbúið er ekki sjáanlegt er merki um egglos. Síðari sónarskoðunin ætti einnig að leiða í ljós vökva í kringum eggjastokkinn.
- Jákvætt egglospróf á að vera örugg vísbending um egglos þótt erfitt sé að treysta því nákvæmlega hvenær egglosið á sér stað með því að nota slík próf.
- Ef konan finnur fyrir verkjum í miðjum tíðahring (egglosverkjum) þá má hún vera nokkuð viss um að hafa egglos.
- Í kringum egglostímann á útferð úr leggöngum að breytast, verða meiri, þynnri, teygjanlegri og frjósamari (eggjahvítuslím).
Ástæður fyrir því að egglos verður ekki
Algengasta ástæðan fyrir egglosvandamálum eru blöðrur á eggjastokkum. Um 70% kvenna sem eiga við egglosleysi að stríða eru með blöðrur á eggjastokkum.
10% eru með vanvirka eggjastokka vegna þess að hormónin sem eiga að berast frá undirstúku heilans (sem koma framleiðslu FSH og LH af stað í heiladinglinum) vantar og þar með fá eggjastokkarnir engin boð um að þroska og losa egg. Þetta ástand heitir á ensku Hypothalamic amenorrhea, öðru nafni hypogonadotropic hypogonadism.
Önnur 10% kvenna sem ekki hafa egglos eru með offramleiðslu mjólkurhormóns (prolactins) sem truflar hormónajafnvægið í líkamanum þannig að egglos verður ekki. Hægt er að halda þessu vandamáli niðri með lyfjum.
Vanvirkni í eggjastokkum er skýringin á egglosvandamálum um 10% kvenna. Orsakirnar geta verið erfðafræðilegar eða vegna vandamála í ónæmiskerfinu. Hækkað magn FSH í blóði er vísbending um vanvirkni í eggjastokkum.
Líkaminn og egglos
Til að egglos geti orðið, þurfa eggjastokkar, heiladingull og undirstúka heilans að starfa rétt. Eftirfarandi eru nokkur atriði sem geta haft þau áhrif á starfsemi þessara þriggja hluta konulíkamans að hún brenglast.
Undirstúkan
- Blöðrur á eggjastokkum
- Mjög mikil líkamsrækt
- Mataræði
- Streita
- Skyndilegt þyngdartap, átröskun eða þegar kona er mjög grönn
- Krónískir sjúkdómar eða alvarleg veikindi
- Sum lyf
Heiladingullinn
- Vanvirkni í skjaldkirtli (þegar hann framleiðir ekki nægilegt magn af thyroxinhormóni)
- Ofvirkni í skjaldkirtli (þegar hann framleiðir of mikið af thyroxíni). Þetta leiðir til truflana á efnaskiptum líkamans.
- Of mikil framleiðsla á Prolactini (mjólkurhormóni) sem truflar egglos.
- Offita getur valdið truflunum á viðkvæmu samspili estrógens og stýrihormóna heiladingulsins, þar eð of feitar konur eru yfirleitt með of mikið estrógen í líkamanum. Hið gagnstæða á við um of léttar konur.
Eggjastokkarnir
Þegar egglosvandamál eru rakin til eggjastokkanna er yfirleitt um að ræða vanstarfsemi eggjastokkanna. (Þeir svara boðum frá heiladingli um að þroska egg ekki eins og skyldi. Þessu fylgir að magn FSH í blóði hækkar vegna þess að svörunin er ekki næg). Fyrir þessu vandamáli geta verið ýmsar ástæður og það getur birst í ýmsum myndum. Dæmi um ástæður vanvirkninnar geta verið erfðasjúkdómar, saga um geislameðferð, eða ef konan hefur undirgengist skurðaðgerð á kviðarholi. Einnig gerist það að konur sem eru á síðari hluta síns barneignaskeiðs finna fyrir þessu vandamáli og er það vísbending um að tíðahvörf geti verið skammt undan.
Heimild: doktor.is