Vatnsmelóna getur mögulega haft jákvæð áhrif á of háan blóðþrýsting
Vatnsmelóna er talin minnka háan blóðþrýsting hjá fólki í ofþyngd og minnka þar með líkurnar á hjartaáfalli samkvæmt nýrri rannsókn sem Daily Mail fjallar um. Þessum niðurstöðum ber þó að taka með fyrirvara þar sem þátttakendur voru aðeins 13 talsins.
Rannsóknin birtist í American Journal of Hypertension og þar kemur fram að það að borða vatnsmelónu sé gott fyrir hjartaheilsuna og getur minnkað hættuna á hjartavandamálum, jafnvel í köldum aðstæðum.
Fleira fólk deyr úr hjartaáfalli í köldum aðstæðum þar sem blóðþrýstingurinn hækkar vegna þess álags sem líkaminn verður fyrir við að reyna að halda líkamanum heitum. Þetta verður til þess að hjartað erfiðar meira og því eru meiri líkur á hjartaáfalli og heilablóðfalli.
Arturo Figueroa prófessor við Florida State Háskólann segir að þrýstingurinn á aðalslagæðinni og á hjartanu hafi minnkað við það að innbyrgða kirni úr vatnsmelónu (e. watermelon extracts).
Í rannsókninni voru þátttakendur 13 miðaldra konur og menn sem voru að kljást við offitu og háan blóðþrýsting. Fylgst var með þeim yfir 12 vikna tímabil. Höndum þátttakenda var dýpt í kalt vatn til að líkja eftir köldum veðuraðstæðum og á meðan fylgdust rannsakendur með blóðþrýstingi þeirra. Á hverjum degi tók helmingur þátttakenda inn kirni úr vatnsmelónu - fjögur grömm af amínósýrunni L-citrulline og tvö grömm af L-arginine. Hinn helmingurinn fékk lyfleysu, sem sagt ekki kirni úr vatnsmelónu. Eftir 6 vikna tímabil skiptu hóparnir um hlutverk.
Í ljós kom að vatnsmelóna lækkaði blóðþrýsting og minnkaði álag á hjartað, jafnvel við kaldar aðstæður.
Amínósýrurnar í rannsókninni er hægt að nálgast í einhverjum heilsubúðum en þær þyrfti þó að innbyrgða í stórum skömmtum til þess að lækka blóðþrýsting.
Niðurstöður þessarar rannsóknar birtast í kjölfar annarar rannsóknar sem sýndi að líkamsrækt í heitu vatni gæti lækkað blóðþrýsting. Rannsakendur viðSao Pauloháskólann í Brasilíu komust að því að vatnsleikfimi í heitu vatni gæti lækkað blóðþrýsting, jafnvel hjá fólki þar sem lyf höfðu áður ekki gert gagn. Það er ekki skýrt hvers vegna þessi áhrif koma fram, en ein tilgátan er sú að hitinn víkkar æðarnar og bætir þar með blóðflæðið í gegnum líkamann.
Heimild: hjartalif.is