Fara í efni

Við viljum skilja og skynja - Guðni og hugleiðing dagsins

Við viljum skilja og skynja - Guðni og hugleiðing dagsins

Kæru vinir, eruð þið sammála?

Það sem skiptir okkur mestu máli í lífinu er nánasta umhverfi, vinir okkar og ættingjar. Maður skilur fyrst þegar vinir og ættingjar falla frá hvert vægi þeirra og framlag er í tilvist okkar.

Viljum við bíða þangað til?

Við viljum vakna til vitundar og stíga inn í þakklætið. Við viljum vinna í einlægni; við viljum iðka ást, umhyggju og alúð á hverju augnabliki, koma fram af miklu örlæti við okkar nánustu, hvort sem það er fjölskylda, vinir eða samstarfsmenn. Við viljum gera þetta í verki, á forsendum hjartans, með því að beina orku og ást í átt til þeirra.

Við viljum lifa með titrandi þakklæti í hverri frumu.

Að geta gefið af einlægni í örlæti og þakklæti er sú allra stærsta gjöf sem okkur er veitt. Og þar með er hún líka stærsta gjöfin sem við getum veitt.

Við viljum stöðugt gefa í lífinu, án áhengja eða skilyrða; við viljum rækta blóm og jurtir sem vaxa í eigin garði, veita öllu því fallegasta og besta athygli svo það vaxi og dafni.

Við viljum skilja og skynja að tilveran er orsök og afleiðing – að tilveran er aðeins orsök og afleiðing. Við viljum skynja að við erum stöðugt að laða lífið að okkur í samræmi við tíðni hjartans – og því þarf hjartað að vera stillt inn á fullan slagkraft, á ást og örlæti; til að geta gefið til fulls og þegið til fulls þarf hjartað fullt frelsi.

Hjartað vill ljós. Hjartað er ljós.
Allt annað er blekking.