Viðtal við Svein Margeirsson forstjóra MATÍS á Íslandi
Nafn: Sveinn Margeirsson
Staða: Forstjóri MATÍS á Íslandi
Menntun: BSc í Matvælafræði og PhD í Iðnaðarverkfræði
Í hverju felst starf þitt sem forstjóri MATÍS?
- Mitt hlutverk er fyrst og fremst að vera með yfirsýnina yfir starfsemi fyrirtækisins, þessa heildar mynd sem svo mikilvægt er að sjá. Stefnumótun, fjármál, uppbygging, rekstur, allt er þetta inn á mínu borði auk fleiri þátta og má þar helst til viðbótar nefna markaðsmál. Mikilvægt er að forstjóri fyrirtækis hafi skýra sýn á það hvert fyrirtækið stefnir og eru markaðstæki og tól mikilvæg í því að ná í þá átt, en við höfum lagt mikla áherslu á að auka alþjóðlegt samstarf okkar sl. ár. Auk þess sit ég í ráðum varðandi stefnumótun bæði innanlands sem utan.
Nú eru Íslendingar að flytja út fjöldann allan af matvælum sem við almenningur á Íslandi höfum enga yfirsýn yfir, hvaða matvæli er helst um að ræða og hvar hefur orðið mest aukning?
- Sjávarútvegurinn er stærsta útflutningsgrein Íslendinga og liggur verðmæti hans á bilinu 280-300 milljarðar. Hér áður fyrr var sjávarfangið meira saltað og svo fryst en undanfarinn áratug sérstaklega hefur útflutningur einkennst fyrst og fremst af aukningu í útflutningi ferskra afurða. Þarna hefur nýsköpun svo sannarlega leikið stórt hlutverk og enn liggja mikil tækifæri til aukinnar verðmætasköpunar enda oftast um að ræða hærra verð á ferskum afurðum en t.d. frystum eða bræddum. Matís hefur tekið mikinn þátt í samstarfi fyrirtækja í sjávarútvegi til að vinna okkar dýrmæta hráefni með þeim hætti að gæði og ferskleiki verði eins og best er á kosið. Til að mynda var stórt Evrópuverkefni í gangi hjá okkur í nokkur ár sem heitir Chill-on og snérist það verkefni meðal annars um bætta kæliferla sjávarfangs, en það var að mörgu leyti grunnur að ýmiskonar nýsköpun í kæliferlum sem fylgdi í kjölfarið. Það er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að hafa í huga að fá sem mest fyrir hvert kíló af fiski og einbeita okkur að gæðum frekar en magni.
Hvar sérð þú fyrir þér að sé óplægður akur hvað útflutning á matvælum snertir?
- Ísland er klárlega ofarlega á lista áhugaverðra staða á heimsvísu. Það er ekki bara landið sem slíkt og fegurðin sem það býður upp á þó svo að það sé sjálfsagt stærsta ástæðan fyrir því að ferðamönnum til landsins fjölgar á hverju ári. En hjá okkur leynast mikil tækifæri til að kynna matvælaframleiðslu okkar. Matvælaframleiðsla hér á landi er margt frábrugðin matvælaframleiðslu annarra landa og ber keim af meiri nánd þeirra sem standa að framleiðslunni við náttúruna sjálfa. Margt af því sem verið að er krefjast erlendis að matvælaframleiðendur geri er nú þegar við líði hér á landi og hefur í sjálfur sér ekki breyst í áranna rás. Íslenskt sjávarfang er hreint og ómengað og það staðfesta rannsóknir okkar á Matís. Samanlögð áhrif þess hver mikill áhugi er á Íslandi og hve gott og hreint og ómengað íslenskt hráefni er gera það að verkum að framtíðin er björt fyrir útflutning á íslenskum matvælum. En á sama tíma og við getum gert betur og jafnvel bætt í þá megum við aldrei gleyma að grunnforsenda verðmætasköpunar í matvælaframleiðslu er matvælaöryggið. Við megum alls ekki taka áhættu hvað það varðar og verðum að hafa það sterklega í huga í hverskonar nýsköpun. Eitt óheppilegt atvik getur skemmt áralanga uppbyggingu á svipstundu.
Hefur þú skoðun á íslensku salti, hreinleika þess og gæðum og hvort að við eigum mikla möguleika til framtíðar í útflutningi á góðu/skemmtilegu salti til matargerðar annars vegar og hins vegar salti sem markaðssetja má sem heilsusalt?
- Ísland hefur ákveðna sérstöðu í huga fólks, t.d. hvað varðar hreinleika. Með því að nýta þá sérstöðu og vera í stakk búin vísindalega að sýna fram á hreinleikann, þá getum við átt mjög góða möguleika á þessu sviði. Okkur hefur stundum skort á markaðsfærsluna og svo jafnframt að hafa gögn sem styðja fullyrðingar um hreinleika, en ég held að við höfum lært af reynslunni.
Eigum við að efla ferðamennsku út frá matvælasviðinu/matarmenningu, þannig að hugtök um; lífræna framleiðslu, sölu beint frá býli, hreinleikann, gamla matinn og nýstárleikann verði allt sett fram á skýran máta með það að markmiði að kynna það enn betur fyrir ferðamönnum og jafnframt erlendum matgæðingum og matartímaritum?
- Farvegur fyrir þess háttar matvæli er frjór um þessar mundir og líklegt er að slíkt eigi eftir að aukast. Almenningur er sífellt meðvitaðri um mikilvægi þess að vita hvaðan matvælin koma og upplýsingar um rekjanleika leika t.d. stórt hlutverk í þeim málum. Við Íslendingar eigum þar mikil tækifæri og höfum í raun nýtt þau mjög vel í gegnum tíðina, þó alltaf megi gera betur. Ímynd matvælaframleiðslu á Íslandi er mjög góð og ekki hvað síst vegna þess hversu stutt er í raun á milli framleiðandans og kaupandans/neytandans. Þetta er allt hluti af stóra samhenginu um sjálfbæra staðbundna matvælaframleiðslu sem tengist svo beint við matartengda ferðaþjónustu. Með auknum straumi ferðamanna til landsins skapast enn frekari tækifæri til þess að kynna íslenska matvælaframleiðslu. Ef við gerum þetta rétt þá getum við tryggt að þó svo að fjölgun ferðmanna verði ekki eins mikil, eða þó jafnvel dragi úr fjöldanum, þá seljist íslensk matvæli áfram um allan heim.
Getum við gert eitthvað til að ferðamenn eigi auðveldara með að kaupa íslensk matvæli við brottför og tekið þau með sér heim með það að markmiði að kynna þau fyrir vinum og kunningjum í heimalandinu sem mögulega myndi vekja áhuga þeirra á að kynna sér land og þjóð með heimsókn til Íslands?
- Við höfum bætt okkur á þessu sviði sl. ár, en það er þó alltaf hægt að gera betur. Við erum auðvitað dálítið bundin af því hvers konar matvæli eiga hlut að máli enda mikilvægt að fyllsta öryggis sé gætt þegar kemur að matvælum og að þau séu alltaf örugg til neyslu. Ég tel þó að upplifun þeirra ferðamanna sem hingað koma sé aðal atriðið og ef hún er góð þá verður „sagan“ sem þeir segja vinum sínum jafn mikilvæg og að leyfa fólki að smakka sjálf matvælin. Það má ekki gleyma því að „ferðasagan“ er sögð um leið og fólk ferðast, í gegnum Twitter og aðra samfélagsmiðla.
Nú ert þú að vinna að verkefnum í Kanada, getum við íslendingar kennt Kanadamönnum eitthvað á matvælasviðinu?
- Það er margt líkt með okkur og Kanadamönnum, ekki síst á Atlantshafsströndinni, þar sem sjávarútvegur hefur spilað stórt hlutverk í gegnum tíðina. Kanadamenn hafa gert meira af því að veiða tegundir eins og krabba og rækju en vísbendingar eru uppi um að bolfiski, þá sérstaklega þorski, sé að fjölga við austurströnd Kanada. Þegar kemur að þorski þá standa Íslendingar framarlega. Við höfum mikla þekkingu á veiðum, meðferð hráefnis, kælingu og nýtingu, allt þættir sem gera sem mest úr því sem við höfum. Magn þess sjávarfangs sem veitt er hefur oft verið meira en nú, en verðmætin eru hinsvegar mun meiri en áður. Þar spilar stórt hlutverk samvinna íslensks sjávarútvegs og rannsóknarfyrirtækja á borð við Matís.
Hver eru þín helstu áhugamál?
Vinnan er nú ansi stórt áhugamál, amk fer mikill tími í hana, m.a. í samskiptum við fjölskylduna, sem þekkir mjög vel til þess sem við á Matís erum að gera. Við höfum líka haft mjög gaman af því að laga til gömul fjárhús í Skagafirðinum, en ég og Rakel konan mín höfum eytt sumarfríunum okkar í því verkefni sl. ár. Skíðafrí og einstöku hlaupatúrar komast líka á listann einhversstaðar – svo er alltaf gaman horfa á góða bíómynd – Vonarstræti var t.d. algjör veisla.
Hvað getur þú segt okkur um þær rannsóknir á skyri sem verið var að ganga frá samningi um á dögunum. Hvert er markmiðið með þessum rannsóknum og í hverju felast þær. Erum við að horfa á rannsóknir á næringargildi skyrsins, próteinmagni þess og næringarlegri sérstöðu. Og einnig markaðstengdar rannsóknir á því hvernig við getum styrkt ímynd skyrs sem hágæða náttúrulegt fæðubótarefni?
- Um er að ræða nýtt samstarf milli MS og Matís þar sem markmiðið er að ná betur utan íslenska skyrið og þá sérstaklega íslenska skyrgerilinn. Markmiðið er að skilgreina íslenska skyrstofninn betur og draga fram upplýsingar um sérkenni hans. Þetta verður gert með samanburðarprófunum á vinnslueiginleikum við aðra sambærilega stofna og raðgreiningu á genamengi hans. Þessi rannsókn mun hjálpa til í markaðsstarfi með því að einmitt, styrkja ímynd íslenska skyrsins og draga fram sérstæði þess í samanburði við aðrar sambærilegar afurðir á erlendum mörkuðum.