Fara í efni

Margrét Gauja Magnúsdóttir er bæjarfulltrúi í Hafnarfirði og hún gaf sér tíma í smá viðtal

„Ég heiti Margrét Gauja Magnúsdóttir, er bæjarfulltrúi í Hafnarfirði og í framboði fyrir Samfylkinguna í Hafnarfirði þar sem ég er í 2. sæti. Ég er formaður Fjölskylduráðs, formaður Umhverfis- og framkvæmdarráðs, stjórnarformaður SORPU bs og forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar.“
Margrét Gauja
Margrét Gauja

„Ég heiti Margrét Gauja Magnúsdóttir, er bæjarfulltrúi í Hafnarfirði og í framboði fyrir Samfylkinguna í Hafnarfirði þar sem ég er í 2. sæti. Ég er formaður Fjölskylduráðs, formaður Umhverfis- og framkvæmdarráðs, stjórnarformaður SORPU bs og forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar.“

Hvaða stefnumál tengd heilsu eru þið með á ykkar stefnuskrá?

Samfylkingin í Hafnarfirði hefur mikla trú á gildi íþrótta- og tómstundarstarfs, ekki eingöngu fyrir börn og unglinga heldur alla og sýndum það í verki þegar við, fyrst sveitarfélaga á landinu innleiddum niðurgreiðslukerfi til þátttöku í íþrótta- og tómstundarstarfi fyrir börn, unglinga og eldri borgara. Við höfum sýnt mikin metnað í uppbyggingu íþróttamannvirkja sem nýtast öllum bæjarbúum t.d Ásvallalaug sem er sérhönnuð fyrir þarfir ungbarna og fatlaðra.

Við kláruðum nýlega glæsilegt frjálsíþróttahús í Kaplakrika sem mun nýtast öllum bæjarbúum sem það vilja. Einnig höfum við lagt ríka áherslu síðustu fjögur ár á að bæta hjá okkur göngu-  og hjólreiðastíga í bænum í samstarfi við Vegagerðina. Einnig hefur verið unnið að verkefninu Brúkum bekki með miklum sóma í samstarfi við Öldungaráðið, Félag eldri borgara og Félag sjúkraþjálfara. Nú á döfinni er að setja upp vatnspósta og markmiðið er að fjölga útiæfingatækjum og gera upplýsingar um göngu- og hlaupaleiðir í bænum enn aðgengilegri.

Hvað finnst þér um að íslendingar séu orðin ein feitasta þjóðin á Norðurlöndunm?

Mér finnst það hræðilegt og grunar að þar skipti mataræði miklu og því miður er það staðreynd að matarverð á Íslandi er of hátt og hollar matvörur enn hærri. Mig grunar að þetta sé ákveðinn orsakavaldur fyrir utan það  mikla magn sykurs sem er í almenni neyslu. Hér þarf að leggjast á árarnar og fara í meiri og betri forvarnir en fyrst og fremst þarf aðgengi almennings að hollri matvöru að verða betra og verð að lækka, nú eða laun að hækka.

Hvernig er aðgengi fyrir hjólreiðafólk í Hafnarfirði?

Árið 2011 var farið af stað með starfshóp sem átti að greina þörfina og hvað Hafnarfjarðarbær gæti gert betur til að þjónustu hjólreiðafólk betur. Unnið hefur verið eftir þessari skýrslu og lögð áhersla á að bæta hjólastíga við stofnbrautir bæjarins og klára allar tengingar við hjólastígakerfi Garðabæjar. Verkefnið er unnið í samstarfi við Vegagerðina og klárast 2015 en er samt eilíft verkefni og alltaf er hægt að gera betur m.a með því að breikka þá stíga sem fyrir eru, koma upplýsingum um leiðir betur á framfæri, kenna hjólafærni í grunnskólum bæjarins og svo mætti lengi telja.

Eru einhverjar breytingar á ykkar stefnuskrá varðandi hjólreiðastíga?

Nei, við höfum lagt mikla áherslu á hjólreiðastíga síðasta kjörtímabil og munum halda þeirri vinnu áfram. Við ætlum að festa okkur í sessi sem Hjólabærinn Hafnarfjörður.

Nú var nýlega opnuð frjálsíþróttahöll í Hafnarfirði eftir langa byggingarsögu, hver vegna tók þetta svona langan tíma?

Nú, hér varð hrun. Verktakinn fór í þrot og greiða þurfti úr afleiðingum þess fyrir Hafnarfjarðarbæ einnig. En nú er króginn fæddur og gerður hefur verið samningur við FH að klára framkvæmdirnar allar á næsta ári þ.e aðkomuna og útisvæðið.

Styður þú frekari stækkun á álverinu í Straumsvík?

Ef ég ætti að taka afstöðu til síðustu deiliskipulagstillögu sem lá til grundvallar íbúakosningunni í mars 2007 þá nei. En ég er opin fyrir öllum hugmyndum og góðan vilja hjá fyrirtækinu um að vaxa og þróast en sú stækkunartillaga hugnaðist mér ekki.

Hver er stefna þíns flokks/framboðs gagnvart þeim heilsufarslegu áhrifum sem hljótast geta af of miklum styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti eins og raunin er núna á nokkrum svæðum á höfuðborgarsvæðinu og hlýst af mengun frá Hellisheiðarvirkjun?

Mér finnst sú blýmengun sem er að mælast af völdum Hellisheiðarvirkjunnar á mjög stóru svæði ógnvekjandi og gefur mér vísbendingu um að við höfum ekki nægilega þekkingu á jarðvarmavirkjunum. Af þeim orsökum er ég ekki mikill aðdáandi uppbyggingar jarðvarmavirkjunnar í Krýsuvík og tel að við eigum að læra af reynslunni.

Hvað gerir þú til að halda þér í góðu formi?

Ég var í hræðilegu formi fyrir 4 mánuðum síðan, í raun á botninum, feit, stíf, stirð, þreytt og úttauguð. Eftir rauðvínslegið kvöld með vinkonu minni þar sem við vældum hvor í aðra hvað við værum allt þetta ofangreint tókum við þessa ákvörðun, að gera eitthvað í okkar málum og hafði hún samband við einkaþjálfara. Við förum til hans tvisvar í viku og er þetta ein besta ákvörðun sem ég hef tekið og fjárfesting. Í kjölfarið hef ég skráð mig í Reykjavíkurmaraþonið, stefni á að hlaupa 10 km undir 100 mínútum og er að vinna markvisst í því með því að hlaupa 2-3 í viku. Á þessum 4 mánuðum hef ég misst 10 kg og get talið það í árum hvað er langt síðan mér hefur liðið svona vel.

Spáir þú mikið í mataræðið?

Ég gerði það ekki, var alltaf að þykjast gera það, en ég geri það í dag. Ég passa að borða þegar ég er svöng en ég borða mig ekki sadda. Ég er mjög varkár þegar kemur að kolvetnisríkum mat, hann fer ekki vel í mig og er dugleg að búa mér til ,,boozt”. Bætt mataræði hjá mér er að skila sér margfalt til baka í bættri líðan á öllum sviðum. Einnig hef ég látið allt áfengi vera síðan um áramót og það er langt í að ég taki það upp aftur.

Ef þú værir beðin um að gefa gott ráð til hóps af fólki, hvaða ráð væri það?

Erfiðasta ákvörðunin í mínum breytta lífsstíl er að ég setti sjálfa mig ofar á forgangslistann, það var rosalega erfitt og ég þarf sífellt að vera að minna mig á að það er allt í lagi. Það græða allir ef ég er í góðu standi, ég er miklu þolinmóðari og betri móðir, betri eiginkona og dóttir, betri vinkona og systir, betri vinnufélagi og betri ég.

Einnig mæli ég með honum Elmari Frey, einkaþjálfara í Sporthúsinu. Hann er minn bjargvættur og ekki verra að vera með nett klikkaða vinkonu með sér eins og ég hef haft. Hún hefur verið mér ótrúleg hvatning og styrkur og hefur tekist að draga mig í tabata kl: 06:00 um nótt. Ég ætla að láta hana lesa þetta viðtal og ég vil að hún viti hversu þakklát ég er henni og elska hana <3.