Viðtalið - Arney Þórarinsdóttur
Við erum skýjum ofar að vera komin með ljósmæður Bjarkarinnar hér á Heilsutorg.is til að
skrifa fjölbreytt efni um allt sem fylgir meðgöngu, fæðingu og því sem á eftir kemur. Við
erum að kynnast þeim hægt og rólega á næstu vikum og nú er komið að Arney Þórarinsdóttur, öðrum eigandi Bjarkarinnar.
Segðu okkur aðeins frá sjálfri þér:
Ég heiti Arney Þórarinsdóttir og er 46 ára gömul, ég ólst upp í Kópavoginum en bý nú ásamt
manninum mínum, Gísla Guðmundssyni á Álftanesinu. Við eigum saman þrjú börn sem eru
15, 18 og 25 ára gömul. Við eigum líka hund, enskan cocker sem heitir Balti (Baltasar Kormákur) og er 6 ára og dísarfuglinn Pésa sem er líklega 15 ára. Ég er ljósmóðir og hef starfað sem ljósmóðir síðan ég útskrifaðist árið 2009. Áður starfaði ég sem hjúkrunarfræðingur á hjartadeild Landspítalans eða frá 2001 –2007 þegar ég fór í ljósmóðurnámið.
Við hvað starfar þú í dag?
Ég á og rek fyrirtæki sem heitir Björkin ljósmæður. Í Björkinni bjóðum við uppá samfellda þjónustu á meðgöngu, í fæðingu og fyrstu dagana eftir fæðingu. Björkin er með fæðingarheimili í Síðumúla 10 og svo sinnum við líka heimafæðingum auk þess erum við með námskeið fyrir verðandi foreldra.
Hver er þín helsta hreyfing?
Ég stunda fjallgöngur og útihlaup allan ársins hring. Göngur og hlaup út í náttúrinni finnst mér langbesta og skemmtilegasta hreyfingin og alveg nauðsynlegt bæði fyrir líkama og sál.
Ertu dugleg að ferðast og áttu þér uppáhalds áfangastað?
Mér finnst mjög gaman að ferðast bæði erlendis og hér heima á Íslandi. Mér finnst sérstaklega gaman að fara á nýjar slóðir. Lónsöræfi eru minn uppáhaldsstaður á Íslandi enn sem komið er en ég á margt eftir óséð ennþá. Ég á ekki sérstakan áfangastað erlendis enda finnst mér lang skemmtilegast að ferðast þar sem ég hef ekki komið áður.
Hver er þinn uppáhalds matur?
Mér finnst mjög gaman að borða góðan mat sem ber þess merki að sá sem eldaði hann lagði sig allan fram við að framkalla góða máltíð. Ég er mjög lítill kokkur sjálf en maðurinn minn er algjör snillingur og ég elska að borða góðan mat sem hann hefur eldað fyrir mig. Svo finnst mér sérstaklega gaman að fara út að borða og fá smakkmatseðil og prufa allskonar rétti.
Er eitthvað sem þú átt alltaf til fyrir eldamennskuna?
Ekkert sem ég man eftir í fljótu enda sér eiginmaðurinn helst um eldamennskuna en ég passa að eiga alltaf kaffi ( eða réttara sagt hann passar uppá að ég eigi kaffi :))
Áttu þér uppáhalds veitingahús?
Mér finnst sérstaklega gaman að fara á veitingastaði sem bjóða uppá allskonar smárétti, Sumac, Kol, Rok og Puplic koma fyrst upp í hugann.
Ert þú að lesa eitthvað þessa dagana og áttu þér uppáhalds bók?
Akkúrat núna er ég að lesa Snertingu eftir Ólaf Jóhann. Þar á undan las ég frábæra nýútkomna ljóðabók sem heitir Menn sem elska menn eftir Hauk Ingvarsson og það var frábær lesning. Annars les ég alls konar bækur og í raun engin í sérstöku uppáhaldi, það breytist dag frá degi í rauninni.
Á hvað ertu að hlusta þessa dagana?
Ég hlusta gjarnan á alls konar tónlist þegar ég er úti að hlaupa en ég hef ekki verið mjög dugleg að hlusta á podcöst en er að komast uppá lag með það og var um daginn að hlusta á þætti Veru Illugadóttur, Í ljósi sögunnar sem eru alveg frábærir.
Hver eru áhugamálin þín?
Útivera og fjallgöngur eru mín helstu áhugamál í dag. Samvera með fjölskyldunni er líka stór þáttur því það er aðeins flóknara að ná að gera eitthvað öll saman nú orðið heldur en þegar þau voru yngri en við reynum þó reglulega að eiga góðar stundir öll saman hvort sem er að borða góðan mat, horfa á eitthvað skemmtilegt saman eða skreppa eitthvað út úr bænum.
Þú ætlar að „tríta“ þig sérlega vel hvað gerir þú?
Ef ég á dag fyrir mig, þá finnst mér æðislegt að byrja daginn á skemmtilegri hreyfingu, t.d. að fara uppá Helgafell eða einhvern skemmtilegan hlaupahring á svæðinu þar í kring, fara svo heim og slaka á í heita og kalda pottinum, halla mér svo aðeins upp í sófa með góða bók. Síðan finnst mér æðislegt að enda daginn á því að fara út að borða með manninum mínum og ekki verra að gista jafnvel á hóteli eftir það, vakna svo úthvíld og fá góðan morgunmat áður en haldið er heim.
Hvað segir þú við sjálfann þig þegar þú þarft að takast á við stórt eða erfitt verkefni?
Þú veist þú getur þetta, sem er setning sem við ljósmæðurnar notum lika gjarnan þegar við
erum að styðja konu í gegnum erfiða kafla í fæðingu.
Hvar sérð þú sjálfa þig fyrir þér eftir 5 ár?
Ég sé mig áfram í Björkinni, ég hef verið í Björkinni frá upphafi en hún er orðin 12 ára gömul. Á þessum árum hefur starfsemin vaxið og dafnað og það hefur verið ótrúlega gaman að eiga þátt í því og ég hlakka til þess sem framundan er. Ég og maðurinn minn verðum bæði komin yfir fimmtugt eftir 5 ár og börnin öll orðin fullorðin svo ég sé okkur tvö fyrir mér njóta lífsins, ferðast og gera alls konar skemmtilegt við allan tímann sem við munum hafa :)