Fara í efni

VIÐTALIÐ: Sabína Steinunn hjá UMFÍ segir frá sjálfri sér og Landsmóti sem er dagana 12-15 júlí

Ætlar þú á landsmótið? Kíktu á þetta viðtal.
VIÐTALIÐ: Sabína Steinunn hjá UMFÍ segir frá sjálfri sér og Landsmóti sem er dagana 12-15 júlí

UMFÍ og Heilsutorg eru komin í formlegt samstarf um deilingu efnis og vilja báðir aðilar hvetja til heilsusamlegra lífshátta og stuðla að því að fólk finni sér heilsutengda tómstund við hæfi og rækti þannig andlega og líkamlega heilsu alla ævi.

Hér ber að líta á okkar viðtal við hana Sabínu Steinunni.

 

Fullt nafn:

Sabína Steinunn Halldórsdóttir

Segðu okkur aðeins frá sjálfri þér og hvaðan ert þú?

Ég er fædd og uppalin á Laugarvatni og lauk þar meistargráðu í íþrótta- og heilsufræðum 2010 með áherslu á hreyfifærni barna.

Hver eru þín helstu áhugamál? Þau eru öll teng lýðheilsu á einn eða anna hátt – Íþróttir, útivist, útivera, mannrækt og heilsa almennt. Undanfarin ár hefur félagsleg heilsa verið mér hugleikin. Síðan ferðast ég mikið og nýt þess að heimsækja nýjar slóðir, tek mikið af ljósmyndum og alltaf haft áhuga á landafræði.

Átt þú bakgrunn í íþróttum?  

Já á mínum yngri árum stundaði ég allar þær íþróttir sem voru í boði á Laugarvatni, glíma, frjálsar íþróttir og blak. Í dag stunda ég allskonar hreyfingu mér til heilsubótar og til að fá andlegt fóður. Æfi blak með Aftureldingu, hjóla, geng, mæti í ræktina og á veturna eru það skíðin sem eiga vinninginn.

Hvað er skemmtilegast við það að vinna hjá UMFÍ?

Fjölbreytileikinn, verkefnin eru mörg og ólík en öll miða að almennri lýðheilsu allra aldurshópa. Við erum í samstarfi við allskonar sambærileg samtök sem er frábært því við erum alltaf sterkari rödd saman. Það eru engir tveir dagar eins og það að vera í góðum tengslum við fólkið í hreyfingunni er frábært.

Hafa gildi UMFÍ breyst síðan það var stofnað árið 1907 og hver er helsta breytingin ?

Gildin hafa ekki breyst en aðferðirnar og framsetningin hefur tekið breytingum eins og til dæmis Landsmótið á Sauðárkróki ber með sér.

Nú er deiling efnis til fólks með öðrum hætti en var, Skinfaxi, blað UMFÍ var kannski einn helsti miðillinn hér áður en hvaða aðra miðla notið þið í dag til að ná til fólks og eru markhóparnir breytilegir háð aldri og kyni?

Við nýtum marga mismunandi miðla, við erum með öfluga heimasíðu, nýtum alla helstu samfélagsmiðla og síðan sendum við reglulega út rafrænt fréttabréf. Við höfum verið að hlera raddir ungs fólks í allskonar verkefnum og meðal annars spurt þau hvernig best sé að ná til þeirra. Í dag virðist Instagram vera heitasti staðurinn meðal ungs fólks. Sambandsaðilar okkar eru einnig duglegir að miðla efni á sínum fréttaveitum sem nýtist mjög vel. Fyrir eldri aldurshópana þá er það auðvitað maður á mann nálgun sem virkar oft hvað best.

Er hægt að vera í áskrift á Skinfaxa og hvað kemur blaðið oft út á ár?

Blaðið kemur út fjórum sinnum á ári og það geta allir verið áskrifandi ekki spurning. Skinfaxi er elsta tímarit landsins sem leggur áherslu á íþróttir.

Landsmót UMFÍ, það hefur breyst töluvert síðan það var fyrst haldið árið 1909 og nú eru reyndar haldi þrennskonar landsmót. Landsmót UMFÍ eins og haldið er í ár en annars á þriggja ára fresti, Landsmót 50+ sem haldið er árlega síðan 2011 og Unglingalandsmót sem haldið er um hverja Verslunnarmanna helgi síðan 2000 og er ætluð 11-18 ára börnum. Hafa allir þessir viðburðir sitt gildi og hvernig getið þið hjá UMFÍ lýst hverju landsmóti fyrir sig?

Mótin öll hafa umtalsvert gildi. Þegar UMFÍ ákvað að hafa unglingalandsmótin árlegan viðburð og það um verlsunarmennahelgina fannst mörgum hreyfingin djörf. Mótið hefur heldur bestur sannað gildi sitt og sýnt að UMFÍ eru öflug samtök þegar kemur að forvörnum. Unglingalandsmótið er ávallt vel sótt og margar fjölskyldur sem koma ár eftir ár og taka þátt af fullum krafti. Þar fá börn og unglingar líka tækifæri til að reyna sig í fjölbreyttum íþróttagreinum og afþreyingu. UMFÍ hefur lagt metnað sinn í að á mótinu geti allir fundið eitthvað við hæfi líka þeir sem hafa ekki brennandi áhuga á íþróttum en vilja taka þátt. Í Þorlákshöfn verður auk hefðbundinna íþróttagreina keppt í kökuskreytingum, dorgi og sandkastalagerð svo eitthvað sé nefnt.

Landsmót 50+ er mót sem er í örum vexti. Þjóðin er að eldast og það eru sífellt fleiri sem hreyfa sig reglulega í eldri aldushópum. Mótið er blanda af hreyfingu og skemmtun þar sem maður er manns gaman. Keppendur slá samt ekkert slöku við heldur hafa markmið og vilja gera betur en á síðasta móti. Á þessu móti er sjón sögu ríkari því við eigum svo mikinn fjölda af flottum heldri borgurum sem eru fílhraustir.

Landsmótið sem hefur verið haldið síðan 1909 hefur tekið breytingum og framsetningin önnur en áður var. Við leggjum áherslu á lýðheilsu og skapa stemmingu þar sem allir geta fundið sér eitthvað við hæfi, tekið þátt á eigin forsendum, keppt, látið vaða í eitthvað nýtt, lært nýjar íþróttar greinar og síðast en ekki síst notið og skemmt sér. Það geta allir tekið þátt óháð aldri, kyni og íþróttafélagi. Landsmótið er fyrir alla.

Landsmót UMFÍ 2018 á Sauðárkróki hefst eftir 10 daga, nú er þetta algert tímamóta landsmót hvernig hefur gengið að „selja“ hugmyndina og fá fólk í lið með ykkur í að halda svona breytt landsmót. Hafið þið einhverja hugmynd um hver þátttakan er?

Nýjungar þarf að kynna vel og breytingar eru af hinu góða. Við höfum verið dugleg að fara um landið, verið sýnileg í fjölmiðlum og kynnt mótið ötullega. Eitthvað nýtt er spennandi og fólk er mjög áhugasamt enda hefur vantað svona vettvang – vettvang fyrir fólk sem vill njóta sín í hreyfingu og keppa en ekki endilega vera að æfa íþróttina eins og atvinnumenn. Við rennum enn blint í sjóinn með fjölda þátttakenda en það er klárt mál að Sauðárkrókur verður heitasti staðurinn helgina 12. - 15.júlí nk.

Hvernig er dagskráin hugsuð og er hægt að nálgast nákvæma dagaskrá einhverstaðar svo fjölskyldur geti planað daga sína þessa helgina þannig að allir, hvort heldur þeir sem eru harðir keppnismenn í íþróttum, götuhlaupum eða utanvegahlaupum, þeir sem vilja prófa eitthvað nýtt og svo þeir sem vilja taka þátt í hinum hefðbundnu starfsíþróttum geti allir tekið þátt, fengið sitt „endorfín“ og haft gaman með fjölskyldunni?

Öll dagskrá mótsins er aðgengileg á heimasíðu mótsins landsmotid.is eins erum við með öflugt app þar sem má sjá alla dagskrá mótsins. Mótið er byggt upp í fjórum liðum, gulur, rauður, grænn og blár. Gulur flokkur er fyrir keppnisgreinar og mótsgestir geta valið úr yfir 30 ólíkra keppnisgreina. Úrvalið er fjölbreytt og því ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Rauður flokkur – láttu vaða, þá geta mótsgestir komið og prófað alls konar íþróttagreinar og hreyfingu - eða með öðrum orðum komið og látið vaða! Boðið er upp á kennslu, opna tíma og kynningar.

Grænn flottur – Leiktu þér, geta mótsgestir nýtt svæði og velli sem verða opin öllum þegar ekki fer fram keppni, kennsla eða kynning.

Blár flokkur - mótsgestum til boða allskonar viðburðir, sýningar, skemmtanir og afþreying. Þátttakendur fá auk þess afslátt á ýmsum stöðum, t.d. í sund, á söfn, á ball o.fl.

Hugmyndin er sú að hver og einn getur sniðið sína dagskrá útbúið sér veislu út frá hlaðborðinu sem er í boði. Keppt í einhverju, kynnt sér nýjar íþróttagreinar eins og t.d. Biathlon, Amerískan Fótbolta, Krolf og Petanque og síðast en ekki síst skemmt sér á kvöldin í góðra vina hópi.

Hvernig er veðurspáin?  

Hún er alltaf góð – við klæðum okkur bara eftir veðri.

Nefndu þrennt sem þú átt sjálf alltaf til í ísskápnum?

Ég á alltaf sódavatn, sultu og rjómaost.

Hver er þinn uppáhalds matur & matsölustaður?

Ég elska mat og erfitt að gera upp á milli sushi og nautakjöts, síðan er þorsksteik alltaf góð. Við eigum svo marga góða matsölustaði á Íslandi ég get ekki gert upp á milli þeirra.

Ef þú ætlar að „tríta“ þig sérlega vel hvað gerir þú?

Tek heilan dag í gæðastund, sef út, stunda útivera, samvera yfir góðu kaffi og andlegt fóður. Litlu hlutirnir skipa mig máli.

Hvað segir þú við sjálfa þig þegar þú þarft að takast á við stórt/erfitt verkefni?

Þetta reddast er besta orðið.

Hvar sérð þú sjálfa þig fyrir þér eftir 5 ár?

Ég verð enn að fást við lýðheilsutend verkefni án efa.