Fara í efni

Vissi ekki að maður ætti ekki að vera með hnút í maganum - Viðtal

Grímur Atlason er framkvæmdastjóri Iceland Airwaves, fyrrverandi bæjarstjóri í tveimur sveitarfélögum, tónleikahaldari og þroskaþjálfi. Hann drakk sig út úr menntaskóla og fór í þrjár heilar meðferðir og nokkrar innlagnir áður en hann varð edrú 24 ára gamall.
Mynd: Spessi
Mynd: Spessi

Grímur Atlason er framkvæmdastjóri Iceland Airwaves, fyrrverandi bæjarstjóri í tveimur sveitarfélögum, tónleikahaldari og þroskaþjálfi. Hann drakk sig út úr menntaskóla og fór í þrjár heilar meðferðir og nokkrar innlagnir áður en hann varð edrú 24 ára gamall. Hann rakti sögu sína í viðtali við SÁÁ blaðið:

„Ég fattaði það ekki fyrr en ég drakk fyrst brennivín að maður ætti ekki alltaf að vera með hnút í maganum. Fólkið mitt er mjög gott fólk en það er plagað af alkóhólisma. Ég ólst upp í þannig umhverfi að ég var alltaf stressaður. Æskan var full af árekstrum og það var ekki fyrr en ég kynntist vini mínum, áfenginu, að ég fékk ró í lífið. Þá var ég á tólfta ári. Allt í einu kom yfir mig þessi hugsun: ‚Ég verð að drekka‘. Ég hafði ekkert ætlað mér að drekka því ég hafði séð að áfengi gerði ekki góða hluti við fólk, en svona var þetta og ég drakk og ég fann áður óþekkta ró. Ég sótti strax mikið í þessa ró og fyrstu skiptin leið mér vel þegar ég drakk; varð rólegur og yfirvegaður, gat talað við fólk og verið hrókur alls fagnaðar. En það entist ekki lengi og fljótlega komu aukaverkanir áfengisins til sögunnar. Ég var efnilegur ungur maður en varð fljótt mikill drykkjumaður og drakk mig í minnisleysi, varð túrast rákur og fór að nota hvaða efni sem er. Ástandið varð fljótt hörmulegt.“

Vaknaði upp inni á Vogi

„Ég fór til geðlækna að leita svara við því hvað væri að mér en það var víst flókið; ég var svo ungur. Svo rann upp 11. apríl 1990. Það var nýbúið að reka mig úr menntaskóla. Ég var nítján ára og þegar maður er 19 ára á maður ekki að vera fullur í margar vikur. Þennan dag vaknaði ég á Vogi eftir nokkurra vikna rall. Þá hafði gott fólk, sem hafði miklar áhyggjur af mér, farið með mig til læknis. Læknirinn lét ekki flækjast fyrir sér hvað ég var ungur og sagði við mig: ‚Þú ert alkóhólisti‘. Strax þetta kvöld var ég sendur í meðferð. Það var ótrúlegur léttir. Ég vaknað upp inni á Vogi. Sat fyrirlestur þar sem talað var um alkó- hólisma og alkóhólista og þá slaknaði aftur á mér, ég fann ró og leið vel. Mér fannst ég hafa fengið eitthvert svar við því hvað var að og ég fann að ég var ekki búinn að vera; þetta var ekki glötun heldur var til lausn. Það var mikið svar fyrir mig að fá að vita að ég væri alkóhólisti. Í framhaldinu af Vogi fór ég í meðferð á Sogni“

Rauf hringrásina

„Eftir meðferðina fór ég að ná betri tökum á lífinu en það tók nokkur ár að verða alveg edrú. Það gerðist þannig að eftir drykkju í febrúar 1995 bauðst mér að ljúka við víkingameðferð hjá SÁÁ. Þegar ég kláraði víkingameðferðina eftir að hafa mætt á göngudeildina í Síðumúla í hverri viku í eitt ár varð ég mjög glaður. Fram að því hafði ég ekki klárað margt en þetta tókst mér. Ég hafði farið í skóla og dottið úr skóla, farið í vinnu og dottið úr vinnu, en ég kláraði víkingameðferðina. Skömmu seinna kláraði ég skólann, varð þroskaþjálfi og í ágúst sama ár kláraði ég það að eignast barn án þess að vera fullur. Þetta gerðist allt árið 1995.

Meðferðin bjargaði mér en síðan hef ég þurft að byggja mig upp í anda þessarar meðferðar sem ég fór í og ég hef gert það með mikilli vinnu. Þessi króníski sjúkdómur, alkóhólismi, eyðileggur mikið og mikil vinna þarf að eiga sér stað. En hún hefur gefið mér það að í dag á ég þrjú börn, stjúpdóttur og barnabarn og ekkert af því fólki þekkir Grím Atlason drukkinn. Það finnst mér mikils virði. Þau hafa sterkara net í kringum sig heldur en ég átti og það eru betri líkur á að líf þeirra verði öðruvísi og betra en mitt líf var á þeirra aldri. Vegna þess að mér tókst að hætta að drekka rauf ég þessa hringrás sem hafði verið í gangi mann fram af manni. Ég er mjög þakklátur fyrir það.“

Heppinn að hafa fæðst á Íslandi

„Ég var búinn að vera mjög dómharður við fólkið mitt meðan ég var í neyslu. Reynslan segir mér að maður er oft skilningsríkur gagnvart sjúkdómnum hjá ókunnugum en dómharður við fólkið sitt. Þannig var ég. En ég er sjálfur alveg eins og þau og þarna var ég að fara að setja af stað annan svona hring. Það þótti mér skelfileg hugmynd og svo glötuð tilhugsun.

Þess vegna gafst ég upp á þessu ástandi og fór að mæta og helga mig hlutum. Það þarf maður að gera ef maður er með þennan sjúkdóm og ætlar að taka ábyrgð á lífi sínu.

Í hvert skipti sem ég horfi til baka þakka ég líka fyrir hvað ég er heppinn að hafa fæðst á Íslandi en ekki í landi þar sem lítill sem enginn skilningur er á alkóhólisma.

Þótt umhverfið á Íslandi sé ekki fullkomið er það allt annað og betra en víða. Á Íslandi er almennt umburðarlyndi og skilningur gagnvart þessum sjúkdómi og þess vegna umburðarlyndi gagnvart fólki sem tekur sig á. Fyrir það er ég þakklátur.“

-pg

Viðtalið við Grím birtist fyrst í SÁÁ blaðinu sem dreift var með Fréttatímanum 1. maí.

Viðtal þetta er fengið af síðu saa.is