Að sjóða quinoa
Það er frábært að nota quinoa í staðinn fyrir pasta og hrísgrjón.
Quinoa fæst hvítt á litinn, rautt og svart.
Það er frábært að nota quinoa í staðinn fyrir pasta og hrísgrjón. Það er í raun og veru fræ en ekki korn. Það er mjög próteinríkt, er trefjaríkt, inniheldur magnesíum og járn. Quinoa fæst hvítt á litinn, rautt og svart.
Að elda quinoa:
- 1 dl af quinoa gerir ca. 3 dl þegar búið er að sjóða það.
- Notið helmingi meira af vatni en korninu þegar þið sjóðið (1dl quinoa á móti 2dl vökvi).
- Það tekur uþb. 20 mínútur að sjóða það og ca. 10 mínútur ef það hefur legið í bleyti.
- Quinoa er beiskt á bragðið en með því að skola það vel undir rennandi köldu vatni í sigti losnið þið við beiska bragðið. Best er að skola vel eða í amk. 2 mínútur og notið hendurnar til að velta korninu undir vatninu.
- Látið vatnið renna af því.
- Þið getið sett það beint í pott eftir að búið er að skola það og sjóða.
- Ég nota yfirleitt tamarisósu út í vatnið þegar ég sýð quinoa en það er líka gott að nota hollan kjúklinga- eða grænmetistening til að fá smá bragð.
En til að gera quinoa svo miklu, miklu betra:
- Hitið smá olífuolíu í potti við meðalhita, bætið svo grjónunum út í og hitið í 1 mínútu í pottinum. Hrærið í á meðan og látið vatnið gufa upp.
- Síðan bætiði vökvanum í til að sjóða quinoað út í pottinn ásamt kryddi og látið suðuna koma upp.
- Mér hefur reynst betra að nota ekki helmingi meira vatn heldur þannig að það rétt fljóti yfir.
- Stillið á lægsta hita þegar súdan er komin upp og sjóðið með loki í 15 mín.
- Takið pottinn af plötunni eftir 15 mínútur og látið standa í 5 mínútur með lokinu yfir.
- Hrærið aðeins í með gafli og njótið.
Með þessari aðferð verður quinoað einhvern veginn mýkra, léttara og bara svo miklu betra. Allir í fjölskyldunni fundu muninn :O)
Uppskrift og myndir: Valdís Sigurgeirsdóttir, www.ljomandi.is
Ef þú vilt hafa samband við mig er netfangið mitt: valdis@ljomandi.is