Súkkulaði- og bananasnittur
Ég elska hrákökur og ég elska einfaldleika jafnvel enn meira. Best af öllu þykir mér að geta átt ljúffenga og næringarríka köku í frystinum sem er hægt að grípa í og borða frosna ef því er að skipta! Þessi kaka er t.d. afar ljúffeng beint úr frystinum og getur auðveldlega komið í staðinn fyrir ís eða hvaða nammi sem er. Það mætti jafnvel segja að þetta væri hinn eini sanni bragðarefur.
Mér finnst hrákökur reyndar stundum þungmeltar svo ég ákvað að gera tilraun með einfalda hnetu-, sýróps- og olíulausa köku sem samt væri hefðbundin í áferð og bragðgæðum. Ég hafði nokkrar dæmigerðar uppskriftir til hliðsjónar og gerði mína eigin útfærslu sem heppnaðist alveg ljómandi vel og er auðmelt, full af góðri næringu og trefjum. Hún er svo holl að ég hef meira að segja borðað hana í kvöldmat með alveg tandurhreina samvisku og þægilega magafylli.
Í þessa hráköku þarf ekkert nema alþekkt og mikið notuð hráefni sem fást í hvaða búð sem er. Ég mæli með því að apríkósurnar séu lífrænar, eða í það minnsta aukaefnalausar því sumir þurrkaðir ávextir innihalda súlfíð sem í besta falli gefur þeim vont bragð og í versta falli er skaðlegt líkamanum. Á hvorn veginn sem er lofa ég því að kremið verður bragðbetra með súlfíðlausum apríkósum.
Ef blandarinn eða matvinnsluvélin er ekki af kraftmeiri gerðinni getur þú látið apríkósurnar liggja í bleyti í nokkra klukkutíma og skorið þær niður með hníf fyrir blöndun eða bara sleppt þeim alfarið.
Hráefni
- Botninn:
- Kókosmjöl - 150 gr
- Mjúkar döðlur - 300 gr
- Hrákakó - 3 msk
- Kremið:
- Bananar, vel þroskaðir - 3 stk
- Hrákakó - 2 msk
- Hreint vanilluduft - 1 tsk
- Þurrkaðar apríkósur - 5 stk
Leiðbeiningar
- Til að gera botninn byrjar þú á að blanda öllu gróflega saman í matvinnsluvél og þjappa svo öllu saman í botn móts eða disks. Ég nota ferkantað glerfat sem er 15×25 cm og það passar fullkomlega.
- Geymdu botninn í frysti á meðan þú snýrð þér að kreminu.
- Kremgerðin er einföld, þú þarft bara að setja allt hráefnið í matvinnsluvél og láta hana ganga í dágóða stund þar til blandan er mjúk og þétt.
- Gott er að smakka kremið því þér gæti þótt þurfa dálitla sætu til viðbótar, t.d. stevíu eða hlynsýróp
- Kakan er svo sett í frysti í 2-3 tíma og ef hún klárast ekki strax í fyrstu atrennu geymist afgangurinn best í frystinum.
Ég er óð í bláber svo ég helli um hálfum poka af frosnum bláberjum yfir botninn áður en kremið fór á, en það má setja á kökuna hvaða ávexti sem er eða sleppa þeim alveg.
Uppskrift fengin af hugmyndiradhollustu.is