bbq salat með chilli-sesam kjúkling - frá Eldhúsperlum
Hlutföllin í þessu salati eru alls ekki heilög eins og svo oft í svona matargerð og um að gera að nota það sem manni þykir gott. Svona þykir mér salatið best.
Þessi réttur slær í gegn þar sem hann er borinn fram og alveg upplagður í saumaklúbba.
bbq salat með chilli-sesam kjúkling (fyrir fjóra):
- 3-4 góðar handfyllir grænt salat (ég nota ferskt spínat og lambhagasalat)
- 1/2 agúrka
- 1 lítil rauð paprika
- 1/2 rauðlaukur
- 1 askja kirsuberjatómatar
- 5-6 msk fetaostur í olíu
- 3 kjúklingabringur
- Olífuolía, salt og pipar
- 2 dl bbq sósa (ég nota alltaf Hunts hickory brown sugar)
- 1 tsk sambal oelek chillimauk (má sleppa ef maður vill ekki hitann)
- 3 msk sesamfræ
- Ofaná (ef vill):
- Svartar Doritos flögur, muldar
- 1 dós sýrður rjómi með 2 msk bbq sósu pískað saman við
Aðferð:
Rífið salatið gróflega niður og leggið í botninn á fati eða stórum diski.
Skerið grænmetið frekar smátt og dreifið ofan á.
Skerið kjúklinginn í litla bita, kryddið með salti og pipar og steikið á pönnu uppúr smá olíu þar til hann hefur lokast á öllum hliðum.
Hellið þá bbq sósunnu út á pönnuna ásamt chillimaukinu og látið þetta krauma saman við meðal-háan hita í um 5 mínútur eða þar til sósan hefur þykknað og kjúklingurinn eldaður í gegn.
Stráið þá sesamfræjunum yfir hrærið saman og takið af hitanum.
Leyfið hitanum aðeins að rjúka úr kjúklingnum 5-10 mínútur og hellið honum svo yfir salatið.
Skreytið með smá grænmeti og e.t.v. meiri bbq sósu og drefið svo fetaosti yfir allt saman.
Berið fram með flögunum og kaldri sósu.
Uppskrift af vef eldhusperlur.com