Brauðbollur með sólblómafræjum
Hollar bollur eru líka sniðugar fyrir bolludaginn.
Þessar eru einstaklega góðar og hollar með sólblómafræjum.
Hráefni:
7 dl volg mjólk
2 tsk þurrger
1 tsk sykur
1 tsk salt
1 kg KORNAX heilhveiti
2 msk ljós olía
Ofan á:
1 egg
Fræ að eigin vali
Aðferð:
Hellið volgri mjólk í hrærivélaskálina, bætið þurrgeri og sykri saman við.
Setjið viskastykki yfir skálina og leyfið gerinu að vakna í rólegheitum. Þetta ferli tekur um það bil fimm mínútur, um leið og það byrjar að freyða í skálinni er gerblandan tilbúin.
Bætið þá saltinu, heilhveitinu og olíunni saman við og hnoðið í hrærivélinni í 8 – 10 mínútur.
Auðvitað er hægt að hnoða með höndunum líka – ég kýs að nota hnoðarann fyrst ég á hann til (of löt til þess að hnoða sjálf, haha)
Þegar deigið er orðið þétt og fínt takið það upp úr skálinni og hnoðið það smávegis með höndunum. Leggið þið aftur í hreina skál og leyfið því að hefast í um það bil klukkustund á heitum stað.
Skiptið deiginu í litla bita og mótið bollur. Leggið á pappírsklædda ofnplötu, leyfið bollunum að hefast í tíu mínútur til viðbótar.
Pískið eitt egg og penslið yfir. Sáldrið gjarnan fræjum yfir og bakið við 200°C í 12 – 15 mínútur, eða þar til bollurnar eru gullinbrúnar
Uppskrift frá Evu Laufey Kjaran