Detox er lygasaga og virkar ekki, segja breskir vísindamenn
„Sú hugmynd að maður geti skolað öllum óhreinindum úr líkamanum og gert líffærin skínandi hrein er svindl. Þetta eru gervivísindi, sköpuð til að selja þér og hafa af þér fé", segja breskir vísindamenn sem fara hörðum orðum um Detox-aðferðina sem hefur verið vinsæl víða um hinn vestræna heim, meðal annars á Íslandi.
Þetta kemur fram í grein á vef breska blaðsins Guardian. Edzard Ernst, prófessor í lyflækningum við Háskólann í Exeter, segir:
Gerum okkur grein fyrir því að það eru til tvær tegundir af Detox. Önnur er heiðarleg og virðingarverð en hin er það ekki. Sú heiðarlega er læknismeðferð fólks sem haldið er lífshættulegri eiturlyfjafíkn. Hin er brölt frumkvöðla, skottulækna og svindlara sem selja fólki gervimeðferðir sem eiga að hreinsa líkamann af öllum eiturefnum sem þú átt að hafa innbyrt.
En ef eiturefni myndu hlaðast upp með þeim hætti sem sölumenn Detox halda fram þá værum við öll dauð eða alvarlega veik, segir Ernst. Heilbrigð líffæri sjái sjálf um að hreinsa sig.
Hér á Íslandi er Jónína Benediktsdóttir hvað þekktust fyrir Detox-meðferðir en hún hefur boðið upp á ferðir í Detox-meðferðarstöð í Póllandi og hefur verið gerður góður rómur að þeim.
Þungamiðjan í Detox er ristilskolun þar sem eiturefnum er skolað úr ristlinum. En bresku vísindamennirnir halda því fram að aldrei hafi þeir séð þessi hættulegu eiturefni í ristli manna.
Þetta er hneyksli,
segir Ernst, ómyrkur í máli:
Hérna er verið að féfletta trúgjarnan almenning á glæpsamlegan hátt enda er hér lofað lausn sem höfðar til okkar flestra: neyslusyndir okkar eru hreinsaðar út í einu vetfangi.
Grein fegin af vef pressan.is