Drekktu af þér aukakílóin – með vatni
Hálfur lítri af vatni á dag getur orðið til þess að aukakílóin bókstaflega leki af þér.
Samkvæmt rannsókn vísindafólks við Háskólann í Birmingham á Englandi léttist fólk sem fær sér hressilega að drekka af vatni fyrir hverja máltíð miklum mun hraðar en þeir sem gera það ekki.
Rannsóknin var gerð í tólf vikur á 84 manneskjum í yfirvigt. Þeim voru gefin ráð um hvernig þau gætu breytt lífsstíl sínum með bættu mataræði og hreyfingu. Um helmingi þátttakenda var síðan uppálagt að drekka hálfan lítra af vatni fyrir hverja máltíð en þeim 43 sem eftir voru var sagt að ímynda sér að þeir væru saddir áður en þeir settust að matarborðinu.
Þau sem drukku vatn fyrir þrjár helstu máltíðir dagsins léttust að meðaltali um 4,3 kíló á þessum tólf vikum á meðan þau sem drukku aðeins vatn fyrir eina máltíð, eða bara alls ekki, misstu ekki nema 0,8 kíló að meðaltali. Árangurinn af vatnsdrykkjunni þykir því augljós.
Dr. Helen Paretti, sem starfar við háskólann, segir að fegurð þessarar niðurstöðu sé fólgin í einfaldleikanum, að það sé hægt að létta sig verulega með því einu að drekka 500 ml af vatni fyrir hverja af þremur helstu máltíðum dagsins.
Hún segir að með stuttum leiðbeiningum um bætt mataræði og aukna hreyfingu, að viðbættri vatnsdrykkjunni, megi hjálpa fólki að fækka aukakílóunum á eðlilegum hraða. “Þetta er ekki eitthvað sem flókið er að flétta saman við stressað hversdagslífið.”