Fitulítið mataræði áhrifaríkara en kolvetnissnautt
Það er áhrifaríkari leið til að léttast að borða fitulítið fæði en að skera kolvetnin niður. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar rannsóknar. Báðar leiðir gagnast til að léttast að sögn vísindamanna en það er árangursmeira að borða minni fitu en kolvetni.
Bandaríska lýðheilsustofnunin, National Institute of Health, segir að rannsóknir hafi sýnt að þeir sem skáru fitumagnið niður í fæðu sinni náðu betri árangri við að léttast en þeir sem skáru kolvetnin niður. Sérfræðingar leggja þó áherslu á að áhrifaríkasta megrunin sé sú sem fólk getur haldið sig við og fylgt eftir.
Kenningar hafa verið uppi um að kolvetnissnautt mataræði lækki magn insúlíns í blóði sem valdi því síðan að líkaminn gangi á fitubirgðir líkamans. Dr Kevin Hall, einn rannsakendanna, segir að þetta sé rétt og þetta gerist þegar fólk sker kolvetnisneysluna niður en þó ekki eins mikið og þegar fólk sker fituneysluna niður.
Í rannsókninni voru 19 manns látnir innbyrða 2.700 hitaeiningar á dag til að byrja með. Á tveggja vikna tímabili var hitaeiningafjöldinn síðan minnkaður um þriðjung, annað hvort með því að skera niður fituneysluna eða kolvetnin. Vísindamenn mældu magn súrefnis og koltvísýrings í útöndun fólksins og magn köfnunarefnis í þvagi til að reikna nákvæmlega út hvaða ferli væri í gangi í líkama fólksins.
Í niðurstöðunum, sem hafa verið birtar í tímaritinu Cell Metabolism, kemur fram að eftir sex daga á hvoru mataræði þá höfðu þeir sem skáru fitumagnið niður að meðaltali misst 463 grömm af líkamsfitu, 80 prósent meira en þeir sem skáru niður kolvetnaneysluna en þeir höfðu að meðaltali mistt 245 grömm af fitu.
Hall segir að það séu engar efnaskiptalegar ástæður fyrir að velja kolvetnissnautt mataræði frekar en eitthvað annað.
Niðurstöður annarra rannsókna benda til að í hinu raunverulega lífi, þar sem fólk er ekki undir ströngu eftirliti vísindamanna, þá geti það reynst fólki auðveldara að halda sig við kolvetnissnautt mataræði en annað.
Hall sagði í samtali við BBC að ef fólki fyndist auðveldara að halda sig við eitt mataræði frekar en annað þá ætti það að halda sig við það og undir það tóku fleiri vísindamenn sem BBC ræddi við.