Gott fyrir konur að borða feitan fisk.
Konur sem leggja sér feitan fisk til munns einu sinni eða tvisvar í viku draga all nokkuð úr líkum á því að þær fái brjóstkrabbamein.
Sérfræðingar sem hafa bækistöðvar í Kína komust að þessu eftir mikla rannsókn, en sagt er frá niðurstöðu hennar í nýju tölublaði læknaritsins British Medical Journal.
Í feitum fiski; til að mynda lúðu, laxi, túnfiski og sardínum eru n-3 fjölómettaðar fitusýrur sem orka á ónæmiskerfið, æðakerfið og taugalífræðileg efnaboðskipti í heilanum.
Þessar fitusýrur skiptast í fjóra undirhópa; EPA, DPA og DHA sem eru í feitum fiski, og ALA sem eru í hnetum, fræjum, salatblöðum og grænu káli.
Sérfræðingarnir sýndu fram á að neyti konur n-3 fjölómettaðrar fitusýru eru fjórtán prósentum minni líkur á því að þær fái brjóstkrabba en ella.
En fitusýran verður að koma úr fiski. Fjölómettuð fitusýra úr hnetum og grænmeti hefur ekki sömu áhrif.
Sérfræðingarnir í Kína fóru ofan í saumana á 26 rannsóknum þar sem er skráðar matarvenjur og sjúkrasaga 800 þúsund sjálfboðaliða í Evrópu, Bandaríkjunum og Asíu.