Fara í efni

Lágkolvetnamataræði á Íslandi

Vinsældir megrunarkúra sem leggja sérstaka áherslu á að draga úr kolvetnum í mataræðinu og borða meira af fitu og próteinum hafa notið vaxandi vinsælda síðustu 30-40 ár.
Lágkolvetnamataræði á Íslandi

Vinsældir megrunarkúra sem leggja sérstaka áherslu á að draga úr kolvetnum í mataræðinu og borða meira af fitu og próteinum hafa notið vaxandi vinsælda síðustu 30-40 ár.

Til eru margir þekktir megrunarkúrar sem byggja á hugmyndafræði lágkolvetnamataræðis en sá frægasti í þeirri deild er eflaust Atkins kúrinn sem var fyrst kynntur til sögunar árið 1972 af Dr. Robert Atkins. Hann lagði megináherslu á að draga úr neyslu kolvetna á sama tíma og hann hvatti til aukinnar neyslu á fitu.

Afhverju lágkolvetnamataræði ?

Í gegnum tíðina hefur lágkolvetnamataræði verið hugsað sem megrunarkúr og/eða meðferð við ýmsum sjúkdómum. Það hefur lengi verið notað til að meðhöndla flogaveiki og hefur talist sem ákveðið hjálpartæki fyrir einstaklinga sem eiga í baráttu við offitu, sykursýki af tegund 2, forstig hennar eða efnaskiptavillu. Þrátt fyrir að vísindin hafi sýnt fram á þessa nálgun gegn ofangreindum sjúkdómum, hefur mataræðið notið vaxandi vinsælda á norðurlöndunum og víðar meðal einstaklinga sem vilja tileinka sér heilbrigðan lífstíl og bætta heilsu.

Lágkolvetnamataræði rannsakað á Íslandi

Síðastliðið haust fór fram rannsókn á vegum Rannsóknarstofu í næringarfræði sem bar heitið „ Fæðuneysla og áhættuþættir hjarta – og æðasjúkdóma hjá Íslendingum á lágkolvetnamataræði“.

Skilgreiningar á lágkolvetnamataræði eru bæði margar og ólíkar. Engin ákveðin skilgreining á lágkolvetnamataræði hefur verið sett fram, og í grunninn hafa upplýsingar um lágkolvetnamataræði varðandi næringargildi og þýðingu þess fyrir ólíka hópa ekki legið fyrir í rannsóknum. Markmið rannsóknarinnar  var því að kanna fæðuval, næringargildi fæðunnar og heilsufar einstaklinga sem fylgja lágkolvetnamataræði.

Þátttakendur skráðu niður fæðuneyslu í þrjá samfellda daga. Næringargildi fæðunnar var metið út frá þeirri skráningu með gagnagrunni ÍSGEM. Vegna skorts á endurnýjun gagnagrunna og reikniforritum var notast við næringargildi á umbúðum þrjátíu matvæla sem mögulega dró úr nákvæmni gagnanna að einhverju leyti.

Gæði og hollustugildi lágkolvetnamataræðis

Til að tryggja fullnægjandi næringu er mikilvægt að leggja megináherslu á hollar matarvenjur og gott fæðuval. Hollusta matvæla er ekki aðeins fólgin í magni eða hlutfalli einstakra næringarefna, heldur hafa gæði matvæla mikið að segja. Á lágkolvetnamataræði er megináhersla lögð á hlutfall orkuefna og yfirleitt eru ekki gerðar kröfur um gæði. Mataræðið gengur gjarnan undir nafninu lágkolvetna-háfitufæði sem gerir ráð fyrir mikilli, og jafnvel ótakmarkaðri neyslu á bæði heildar – og mettaðri fitu en takmarkaðri neyslu á kolvetnum.

Veruleg takmörkun á kolvetnum leiðir til þess að fólk þarf að sneiða hjá ýmsum fæðuflokkum og má þar helst nefna allar kornvörur og afurðir úr þeim, ýmsar mjólkurvörur, baunir, linsur, rótargrænmeti og ávexti, ásamt því að fólk þarf að sniðganga öll möguleg sætindi, s.s. sælgæti, ís og sæta drykki. Vegna skorts á mikilvægum fæðuflokkum og fjölbreyttu fæðuvali getur mataræðið, þegar horft er til lengri tíma, haft í för með sér að fólk fái ekki nóg af nauðsynlegum næringarefnum. Þar á meðal trefjaefnum, mikilvægum vítamínum og steinefnum og öðrum hollefnum sem eru nauðsynleg fyrir heilsuna. Sé mataræðið verulega einhæft getur auk þess verið hætt við of miklu magni einstakra næringarefna.

Þegar mörgum fæðuflokkum er sleppt liggur það í augum uppi að slíkt mataræði felur í sér ýmsar sérvörur, auk þess að breyta þurfi uppskriftum fyrir almennt fæði í sérfæði. Til þess að hægt sé að skoða nákvæmari næringarefnasamsetningu hjá þeim sem kjósa þessa leið að bættri heilsu er brýn þörf á að endurskipuleggja ISGEM gagnagrunninn um efnainnihald matvæla ásamt stöðugri uppfærslu á nýjum og fullnægjandi reikniforritum.

 

Höfundur greinar er Aníta Sif Elísdóttir, næringarfræðingur og starfar á Heilbrigðisstofnun Vesturlands.