Fara í efni

Linsubauna „taco“ frá Heilsumömmunni

Þá líður að mánaðarmótum sem þýðar að Veganúar fer að klárast. Ég sem ætlaði að setja inn svo margar vegan uppskriftir í mánuðinum.
Linsubauna „taco“ frá Heilsumömmunni

Þá líður að mánaðarmótum sem þýðar að Veganúar fer að klárast.  

Ég sem ætlaði að setja inn svo margar vegan uppskriftir í mánuðinum.  Ef ég á að velja eina uppáhalds þá held ég að það sé þessi.  Ég var mjög yfirlýsingaglöð að ég myndi að þessu sinni verða 100 % vegan í 3 vikur en til að vera hreinskilin þá tókst það ekki alveg allann tímann.  Íslensk kjötsúpa, kjúklingasúpa og kjúklingasalat slæddust með.  En það að geta talið kjötréttina á annari hendi er nú bara afrek út af fyrir sig og ég er bara ótrúlega ánægð með mánuðinn.  

Það er gott innlegg í umræðuna hversu mikill mengunarvaldur kjöt og mjólkurframleiðslan í heiminum fyrir utan auðvitað athyglina á meðferð dýra í verskmiðjubúskap sem er nauðsynleg umræða.

Hér kemur uppskrift af virkilega góðum grænmetisrétt.

(Uppskrift handa 4-5)

Hráefni:

  • 1 laukur
  • 3 hvítlauksrif
  • 2-3 stórar gulrætur eða fleiri litlar
  • 1-2 sellerístönglar
  • 2 dl brúnar linsur (ósoðnar)
  • 1 dós maukaðir tómatar
  • 1-2 dl vatn
  • 2 msk tómatpuré
  • 1 msk mexíkó krydd
  • 1 msk paprikukrydd
  • 1 tsk cumin
  • 1 msk grænmetiskraftur
  • salt og pipar
  • væn lúka fersk steinselja

Gott er að bera réttinn fram með góðu salati og að mylja nokkrar lífrænar nachosflögur yfir réttinn setur aldeilis punktinn yfir i-ið.  Það er líka gott að hafa guacamole með eða kúreka ýdífu eins og hún er stundum kölluð hér.(sjá uppskrift hér að neðan)

Aðferð:

  1. Leggjið linsubaunirnar í bleyti í amk. 2 klst en má alveg vera yfir nótt líka.  Hellið vatninu af þeim, setjið í nýtt vatn og sjóðið í 20-30 mín. (Hér getið þið líka notað tilbúnar baunir í dós)
  2. Hitið pönnu og mýkjið lauk í smá olíu, bætið gulrótum og sellerí við og leyfið því að mýkjast vel.
  3. Bætið tómatmaukinu, kryddinu, vatninu og kraftinum á pönnuna og leyfið réttinum að malla við lágan hita í nokkrar mínútur.
  4. Bætið linsunum við í lokin, kryddið með salt og pipar og bætið steinseljunni við í lokin.

Það má alveg nota aðrar baunir í þennan rétt, ef þið eigið til í frysti eða eigið í dósum.  Ég hef til dæmis notað svartar baunir, pinto baunir og adukibaunir.  Þær passa allar mjög vel í allan mexíkanskan mat. 

Hér er einföld uppskrift af Kúreka ýdífu sem smell passar með réttinum:

Kúrekaídýfa

  • 1 þroskað avakadó
  • safi úr lime, uþb. 1 msk (má líka nota sítrónu)
  • 1 hvítlauksrif
  • 1/2 tsk cumin
  • salt og pipar

Maukið avakadó með töfrasprota eða stappið með gafli, kreystið lime safann yfir, bragðbætið með hvítlauk, salti og cumin.

Uppskrift frá heilsumamman.com