Næring íþróttafólks
Hér á eftir er fræðsla um næringu íþróttafólks.
Mikilvægi næringar
Fyrir reglubundna og ánægjulega íþróttaiðkun og í kjölfarið góðan árangur á mælikvarða hvers og eins eru fjölmargir þættir sem koma við sögu. Í fyrsta lagi er það góð andleg og líkamleg heilsa, auk smá heppni, eins og gengur í öðru í lífinu. Í öðru lagi er það að gæta vel að næringunni, að borða nóg og það í samræmi við æfingarnar sem stunda þarf af samviskusemi. Næg hvíld kemur hér einnig við sögu þar sem líkami þess sem stundar íþróttir þarfnast hvíldar til að vinna úr æfingunum og viðbótar hvíldar eftir átökin. Þessir mikilvægu þættir vilja þó oft falla í skuggann af miklu æfingamagni þar sem kappið tekur yfirhöndina og sér í lagi gagnvart nægingunni sem ekki er alltaf sinnt nægjanlega vel.
Þarfir hvers íþróttamanns eru oft ekki nægjanlega skýrar, sem er eðlilegt þar sem hver og einn er einstakur og þarfirnar því ekki eftir einhverri einni staðlaðri forskrift. Það sem helst virðist vera ábótavant hér er að mæta orkuþörfinni en í tilfelli barna og unglinga þarf að hafa í huga að mæta þarf orkuþörf til að stunda æfingar en einnig til að mæta orkuþörf fyrir vöxt og þroska. Á hinn bóginn myndast stundum togstreita þegar kemur að orkuþörf íþróttamannsins; til að stunda íþrótt sína og koma í veg fyrir meiðsli og þess að þurfa að halda líkamsþyngdinni innan vissra marka, þ.e. að viðhalda léttum og sterkum, jafnvel vöðvastæltum líkama. Einnig virðist of mikil neysla á næringarsnauðum kolvetnum þar á meðal sykri vera vandamál. Of er tíminn of lítill þar með talinn of stutt hádegishlé í skólum svo og aðstaða til að útbúa og borða næringarríkan mat, t.d. Vegna skólagöngu, tíðra æfinga eða ferðalaga til og frá keppni.
Það er mikilvægt að fræða unga íþróttamenn, þjálfara þeirra og foreldra um það helsta sem hafa ber í huga varðandi næringu og mataræði íþróttafólks og tilgangurinn með pistlunum hér er að miðla fróðleik um þennan þátt samhliða öðrum sem koma að hreyfingu, heilsu og heilbrigði.
Hollt mataræði – alla ævi
Næringarrík fæða, reglubundnar máltíðir og hæfileg þjálfun sem samræmist getu og líkamsástandi hvers og eins er mikilvægt fyrir unga sem aldna og alla þar á milli. Rannsóknir hafa sýnt að hollt mataræði er mikilvægt fyrir líkamlega og andlega heilsu og þegar snýr að árangri í íþróttum er það lykilatrið til að sem bestur árangur náist og líkaminn sé fljótur að jafna sig eftir átökin.
Hollt mataræði er í grunninn mataræði sem inniheldur daglega, fjölbreytta fæðu úr öllum fæðuflokkunum, í reglubundnum máltíðum og í hæfilegu magni þannig að það samræmist orkuþörfinni. Að auki þarf að gæta að nægu vatni og öðrum hollum drykkjum sem ekki innihalda viðbættan sykur eða koffín eða önnur örvandi efni.
Fæðuflokkarnir:
• Ávextir, ber, hreinir ávaxta- og berjasafar
• Grænmeti, grænmetissafar
• Gróft brauð, kornmeti þar með taldir hafrar og bygg, baunir og linsubaunir
• Kartöflur, sætar kartöflur, hrísgrjón, pasta, kúskús
• Mjólk, mjólkurvörur, ostur
• Fiskur, kjöt, egg
• Fitugjafar; hnetur, möndlur, fræ, jurtaolíur, lýsi, önnur fita til dæmis mjúkt viðbit til að smyrja brauðið með
Máltíðir:
• Morgunverður, hádegisverður og kvöldverður eru lykil máltíðir dagsins, smærri máltíðir og millibitar koma til viðbótar þannig að 2-3 klst. líða á milli þess sem borðað er og um 1-2 klst. líða frá máltíð og fram að æfingu. Oft þarf að líða lengri tími frá máltíð fram að keppni og oft er miðað við 2-3 klst.
Bestu kveðjur
Fríða Rún Þórðardóttir , Næringarráðgjafi, Næringarfræðingur B.S.c, M.S.c