Rauðrófusafi er næsti sigurvegari á Ólympíuleikum
Rauðrófur eru hrein og klár næringarsprengja
Fyrir um ári síðan fjallaði ég, í næringarinnslagi í Íþrótta- og mannlífsþættinum 360 gráður sem sýndur er á RÚV, um ágæti rauðrófusafa en margir vilja meina að þarna sé komin matvara sem sé allra meina bót. Sumir tala jafnvel um rauðrófur og rauðrófusafa sem ofurfæði. Líkt og með flest annað grænmeti, þá eru rauðrófur stútfullar af næringarefnum eins og C-vítamíni, fólínsýru, járni, magnesíum, kopar, kalíum, mangan, fosfór, trefjum, andoxunarefnum og nítrötum, sem við skulum skoða aðeins betur.
En hvað er það í hráum rauðrófum og rauðrófusafa sem er svona ótrúlegt? Efnið sem er mjög áhugavert heitir nítrat og má finna í álitlegu magni í hráum rauðrófum. Í líkamanum fara fram efnaskipti sem breyta nitrati í nítrít. Þessu nítríti er svo breytt í mjög rokgjarnt efni, nituroxíð, sem hefur mörgum hlutverkum að gegna í líkamanum t.d. í blóðflæði, samdrætti vöðva, æðavíkkun og fleiri hlutverk. Þarna eru því þættir sem snerta beint heilsu almennings og einnig hversu miklum árangri íþróttamenn geta náð í úthaldsíþróttagreinum.
Neysla á hráum rauðrófum eða kald-pressuðum rauðrófusafa, getur nefnilega haft jákvæð áhrif á blóðþrýsting og blóðflæði með því að hafa æðaslakandi áhrif og veldur því mælanlegri lækkun á blóðþrýstingi. Ekki slæmt það í samfélagi þar sem óþarflega margir eru á blóðþrýstingslækkandi lyfjum, sérstaklega í hópi þeirra sem eru með vægan háþrýsting.
Niðurstöður frá allmörgum rannsóknum benda til þess að neysla á rauðrófusafa geti haft veruleg áhrif til lækkunar á blóðþrýstingi og fleiri rannsóknir eru í gangi sem eru að kanna áhrif neyslu á hóflegu magni rauðrófusafa á blóðþrýsting og blóðflæði. Enn sem komið er eru vísindamenn ekki alveg sammála hversu mikið er nauðsynlegt til að ná fram mælanlegum breytingum en margar rannsóknir hafa sýnt fram á að neysla á 500 ml. af rauðrófusafa hafi veruleg og mælanleg áhrif. Þessi mælanlegu áhrif hafa komið fram hvort sem rannsóknirnar voru gerðar á hinum venjulega borgara eða á íþróttamanni í topp formi.
Og það merkilega við þetta allt saman var að áhrif rauðrófusafaneyslunnar komu nánast strax fram.
Þetta eru sérstaklega góðar fréttir í ljósi þess að 25% af jarðarbúum þjást af háþrýstingi og gert er ráð fyrir að þessi tala hækki í 29% árið 2025. Háþrýstingurinn veldur um það bil 50% kransæðasjúkdóma og um það bil 75% heilablóðfalla. Einn vísindamannanna sem hafa rannsakað rauðrófusafa og áhrif hans á líkamann er dr. Amrita Ahluwalia, prófessor við William Harvey rannsóknarstofnunina í Bretlandi. Hún heldur fram að niðurstöður úr einni af rannsóknum sínum bendi til þess að „að neysla á rauðrófusafa eða öðru nítrat ríku grænmeti, geti verið einföld leið til að ná heilbrigðu hjarta- og æðakerfi.“
Enn einn prófessor, dr. Graham McGregor, lýsti niðurstöðum rannsókna dr. Ahluwalia sem „áhugaverðum“ og sagði: „Þetta sýnir að neysla á rauðrófusafa geti á mjög stuttum tíma komið vægum háþrýstingi í eðlilegt horf. Það sem við þurfum að sjá núna eru áhrif neyslu rauðrófusafa til lengri tíma.“
Og hugsanlegur ávinningur fyrir íþróttamenn eru ekki síður magnaður. Talið er að neysla á allt að 500 ml. daglega af rauðrófusafa geti orðið til þess að árangur aukist umtalsvert hjá íþróttamönnum sem stunda úthaldsíþróttagreinar þar sem álag á æfingum og í keppni er frá því að vera miðlungs og yfir í að vera mjög mikið (e. medium to severe intensity).
Ef þú ert hlaupari, stundar þríþraut, æfir sund, stundar keppnishjólreiðar eða tekur þátt í öðrum úthaldsíþróttum, vertu þá viss um að skjótast í Krónuna, eða aðra verslun sem selur rauðrófusafa, og kippa með þér þessari næringarsprengju.
Steinar B., næringarfræðingur
www.steinarb.net
Þessi pistill er eign höfundar og má hvorki afrita hann né nota efni hans án leyfis.
P.S. eins og með svo margt annað matarkyns þá er meira ekki endilega betra þegar kemur að rauðrófusafa. Einn skammtur af um það bil 500 ml. á dag ætti að nægja. Ávinningur fyrir hjarta- og æðakerfi kemur einungis í ljós þegar hrárra rauðrófa eða kald-pressaðs rauðrófusafa er neytt því nítratið skemmist við hitun.
Eins er gríðarlega mikilvægt að þeir sem eru með háþrýsting og taka inn lyf vegna þess prófi sig áfram með rauðrófusafann í samráði við lækni.
Heimildir
http://hyper.ahajournals.org/content/56/2/274
http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/23640589
http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/24089377
http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/20702806
http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/21071588
http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/19661447