Fara í efni

Rótsterkur flensubani: Túrmerik, engifer og cayenne-pipardrykkur með hunangsdreitli

Árstíð vasaklúta, flensu og lasleika er runnin upp í sínu fínasta veldi. Einhverjir leita á náðir læknisfræðinnar, aðrir hafa ráð undir rifi hverju og svo eru það þeir sem enn eru að safna í uppskriftabókina í þeirri von að koma höndum yfir formúlu sem virkar.
Rótsterkur flensubani: Túrmerik, engifer og cayenne-pipardrykkur með hunangsdreitli

Árstíð vasaklúta, flensu og lasleika er runnin upp í sínu fínasta veldi.

Einhverjir leita á náðir læknisfræðinnar, aðrir hafa ráð undir rifi hverju og svo eru það þeir sem enn eru að safna í uppskriftabókina í þeirri von að koma höndum yfir formúlu sem virkar.

Hér fer uppskrift að einum slíkum drykk, sannkallaðri galdraformúlu sem getur bægt kvefi, hósta og þyngslum fyrir öndunarfærum á brott í einni hendingu. Í uppskriftina fer fersk túrmerikrót og fersk engiferrót, en ef erfitt er að koma höndum yfir ferska túrmerikrót má notast við malað túrmerik líka, þó ávallt sé best að notast við náttúruleg hráefni.

U P P S K R I F T:

5 cm bútur fersk túrmerikrót – afhýdd

5 cm bútur fersk engiferrót – afhýdd

½ sítróna

2 matskeiðar eplaedik

Sódavatn (til að bera fram með drykknum)

Hnífsoddur af cayenne-pipar

2 matskeiðar hunang (valkvætt; má sleppa)

Matvinnsluvél / Töfrasproti / Grænmetiskvörn:

Byrjið á því að saxa engifer- og túrmerikrótina í smátt og bætið í matvinnsluvélina ásamt 2 matskeiðum af ferskum sítrónusafa, ½ dl af vatni og hunangi (valkvætt). Blandið saman þar til rótin er orðin að drykkjarhæfu mauki. Sigtið og hellið í glas, bætið svo við eplaedik og sódavatni og hrærið til að jafna blönduna.

Safavél / Blandari:

Setjið engifer, túrmerik og ½ sítrónu (með berkinum) í djúsvélina (afhýðið ef sítrónan fer í blandara). Hellið gegnum sigti, látið renna í glas og hrærið eplaediki og sódavatni saman við. Bætið að lokum hunangi í blönduna (valkvætt). Hrærið vel saman.

Njótið!

Dásamleg uppskrift af vef sykur.is