Súkkulaði-chilli smákökur
Smá suðrænt og seiðandi fyrir jólin
Þessar smákökur draga það besta fram í súkkulaðinu. Sirius Konsum suðusúkkulaði nær nýjum hæðum þar sem chilli-ið rífur aðeins í bragðlaukana með súkkulaði-chilli bragðinu. Hér er notast við ½ teskeið af chilli en þeir sem þora geta farið í ¾ hluta úr teskeið. Hér er hollustan í fyrirrúmi, smjör, sjávarsalt, hrásykur, 56% sírius suðusúkkulaði, úrvals KORNAX hveiti og chilli. Chilli er bráðholt og ekki skemmir að það er grennandi J Þessar kökur myndu sóma sér vel með Kampavíni í saumaklúbbnum.
125 gr. KORNAX hveiti
100 gr. Sirius Konsum suðusúkkulaði 56% (saxað)
125 gr. haframjöl
125 gr. smjör
125 gr. hrásykur
4 msk. kakó
2 stk. egg
1 tsk. vanilludropar
½ tsk. matarsódi
½ tsk. sjávarsalt
½ tsk. chilliflögur (þurrkaðar chilliflögur saxaðar smærra)
Hrásykur, smjör og egg hrærð vel saman, vanilludropum bætt við. Þurrefnum blandað saman í skál og smátt söxuðum chilliflögunum bætt við. Þurrefnin sett út í hræruna og blandað saman við, í lokin er Sirius Konsum suðusúkkulaði blandað við.
Sett með teskeið á plötu og bakað í 8 mínútur við 170˚C
Verði ykkur að góðu !!
Höfundur er Guðrún Þórðardóttir sem tók þátt í smákökusamkeppni KORNAX og Gestgjafans.