Hásinarslit (Achilles tendon rupture)
Hásinin (Achilles tendon) er sterkasta og sverasta sin líkamans og liggur aftanvert á leggnum. Hún myndar tengsl milli hælbeins og kálfavöðva (m.gastrocnemius et m. soleus).
Vandamál í hásin eru algeng samanborið við aðrar sinar líkamans en slit á hásin er hins vegar sjaldgæfara. Slit á hásin er algengara hjá körlum en konum.
Orsakir
Algengast er að hásinin verði fyrir skaða við skyndilega réttu um ökklann (plantarflexion) eða við skyndilega kreppu (dorsiflexion) eða jafnvel þvingaða kreppu þannig að mikið tog komi á sinina. Einnig getur hásinin orðið fyrir skaða við beina áverka.
Ákveðin lyf og sjúkdómar sem veikja sinar og bandvef geta aukið líkur á hásinarsliti.
Greining
Í flestum tilvikum nægir saga þess sem slítur hásin til þess að átta sig á vandamálinu. Þegar sinin slitnar upplifa margir það eins og það sé sparkað aftanvert á kálfann. Við slit rofnar tenging kálfavöðva við hælbein og það má greina með einföldum prófum.
Meðferð
Meðferð við hásinarsliti er margra mánaða ferli. Hvort sem um er að ræða það að einstaklingurinn fari í aðgerð eða sé meðhöndlað án aðgerðar. Hvort sem aðgerð er valin eða ekki þá er meðferðin í framhaldinu áþekk.
Hún miðar að því að festa ökklann í réttu (plantarflexion) þannig að sinaendarnir sitt hvoru megin við slitstaðinn mætist, nái saman og grói saman. Því fer fólk ýmist í gifs í 2-3 vikur og í sérhannaða spelku í framhaldinu. Heildartími þessarar meðferðar er 8-9 vikur. Á meðferðatímanum er smám saman dregið úr réttunni um öklann með því að fjarlægja hækkanir sem settar eru undir hælinn. Þannig má segja að sininn/vöðvarnir lengist á nýjan leik.
Meðferð sjúkraþjálfara
Mikilvægt er að leita ráðgjafar sjúkraþjálfara á meðan einstaklingurinn er enn í spelkunni. Hlutverk sjúkraþjálfara á þessum tíma meðferðar er fyrst og fremst að leiðbeina fólki með það sem einstaklingurinn getur gert til þess að örva blóðflæði til sinarinnar en það er forsenda fyrir góðum gróanda. Til þess að hásin grói vel og á heilbrigðan hátt þarf að leggja á hana ákveðið álag en það örvar nýmyndun og styrk bandvefs í sininni. Ef of mikið álag er lagt á hana er hættan sú að hún slitni á nýjan leik.
Rannsóknir benda til þess að 5-15% slíti hásin aftur á meðan meðferð stendur og er hættan mest á endursliti eftir að komið er úr spelku og fram að 4. - 6. mánuði.
Eftir að úr spelku er komið þarf að fara varlega af stað en gæta þess þó að gera ekki of lítið. Mikilvægt er að stígandi sé í endurhæfingunni og hún sé unnin stig af stigi. Alla jafna þekkir fólk ekki hvernig fást á við endurhæfingu eftir hásinarslit og því mikilvægt að njóta leiðsagnar og ráðgjafar sjúkraþjálfara. Sérstaklega þarf að huga að hreyfanleika og styrk.
Valgeir Sigurðarson, Sjúkraþjálfari, Vinnuvernd