Fara í efni

Kerrupúl er hreyfing, útivist og félagsskapur fyrir nýbakaðar mæður

Nýfætt ungbarn, sofandi værðarlega eða skríkjandi af gleði og vellíðan eftir góða stund með móður sinni er eitthvað sem margar nýbakaðar mæður kannast við. Þetta er gæðatíminn sem við viljum eiga sem allra mest af en lífið er ekki alltaf dans á rósum. Sumir dagar geta svo sannarlega verið erfiðari og þyngri en aðrir - bæði fyrir móður og barn - Oftast má um kenna, magakveisu, vökunóttum og gráti sem erfitt er að hugga.
Kerrupúl
Kerrupúl

Kerrupúl er hreyfing, útivist og félagsskapur fyrir nýbakaðar mæður

 

Nýfætt ungbarn, sofandi værðarlega eða skríkjandi af gleði og vellíðan eftir góða stund með móður sinni er eitthvað sem margar nýbakaðar mæður kannast við. Þetta er gæðatíminn sem við viljum eiga sem allra mest af en lífið er ekki alltaf dans á rósum. Sumir dagar geta svo sannarlega verið erfiðari og þyngri en aðrir - bæði fyrir móður og barn - Oftast má um kenna, magakveisu, vökunóttum og gráti sem erfitt er að hugga.

Sem móðir þekki ég það af eigin reynslu að þurfa styrk til að takast á við móðurhlutverkið. Það þarf styrk til að þola ósamfelldan svefn í margar nætur og samt að vakna með fulla orku daginn eftir. Það þarf styrk til að vera á tánum allan sólarhringinn og til að skipta á 100 bleyjum á viku. Það þarf líka styrk og skýra hugsun til að takst á við vandamál sem að steðja og taka réttar ákvarðanir á hverjum tíma.

Hreyfing, útivist og félagsskapur er það sem talið er geta aukið vellíðan hjá nýbakaðri móður. Til eru rannsóknir sem sanna að þessi atriði geta einnig virkað eins og vítamínbomba fyrir mæður sem eiga við vægt fæðingarþunglyndi að stríða. Með slíku er mikið áunnið. Á hverjum árstíma skiptir hreyfingin máli en sannarlega þegar skammdegið skellur á og daginn tekur að stytta er enn mikilvægara að huga að þessu þrennu.

Það að stunda markvissa hreyfingu hefur marga góða kosti í för með sér: Það getur bætt gæði  svefns, auðveldað stjórnun á streitu, bætt meltinguna, aukið mótstöðuafl gegn sjúkdómum, gefið aukna orku, aukið hlutfall vöðva í líkamanum, styrkt sjálfstraust, styrkt hjartað, lækkað blóðþrýsting og hvíldarpúls, aukið liðleika, styrk og þol, bætt líkamsstöðuna, aukið hraða efnaskipta, , leiðrétt hlutfall kólesteróls í blóði, minnkað depurð og þunglyndi, minnkað líkurnar á að fá beinþynningu, bætt hugarstyrk, aukið líkurnar á langlífi, bætt kynlífið, aukið magn endorfínefna í líkamanum (efni sem líkaminn framleiðir og eykur vellíðunartilfinningu og léttir lund) svo fátt eitt sé nefnt!

Ég tala oft um súrefni sem „eitt af“ næringarefnunum, þó svo að það gefi hvorki orku né næri líkamann á sama hátt og inntaka á hinum eiginlegu næringarefnum (kolvetni, prótein, fitu, vítamínum, steinefnum og vatni). Súrefnið er okkur lífsnauðsynlegt og veitir okkur í raun vellíðan og orku, bara á annan hátt. Hvaða móðir í fæðingarorlofi kannast ekki við það að hafa vaknað dauðþreytt um morguninn eftir erfiða nótt og hugsað með sér að leggja sig síðar um daginn, fer svo út í göngutúr með vagninn og getur ómögulega lagt sig þegar inn er komið því hún hefur fengið sinn súrefnisskammt og endurheimt orkuna.

Félagslegi þátturinn er gríðarlega mikilvægur þegar móðir er í fæðingarorlofi. Það er einnig nauðsynlegt að vera í góðu jafnvægi með því að rækta líkama og sál. Að vera í samskiptum við fólk er hluti af því að næra andann. Það er ómetanlegt að vera í sterku sambandi og í stuðningsneti með öðrum mæðrum sem eru eins þenkjandi og með svipaðar áherslur í lífinu.

Það að lifa líðandi stund, axla þá ábyrgð gagnvart sjálfum sér og beita þeim ráðum er stuðlað geta að aukinni vellíðan og lífsfyllingu, er gríðarlega mikilvægt . Ef við spyrjum hver sé hæfastur til að stuðla að þroska okkar og sjálfsöryggi hlýtur svarið að verða á eina lund: Við sjálf.

Í kerrupúli gefst mæðrum tækifæri til að sameina hreyfingu, útivist og félagskap með börnum sínum og fá þannig aukna andlega og líkamlega orku.
 
Höfundur er Melkorka Árný Kvaran íþróttakennari og matvælafræðingur, annar eigandi Kerrupúls sf. og þriggja barna móðir.