Fiskur er ríkur af próteinum, joði og seleni. Þessi næringarefni er þó auðvelt að fá úr öðrum matvörum og lítil hætta er á skorti ef fæðið er fjölbreytt. Kornmatur, egg, innmatur og kjöt gefa til dæmis vel af selen og mjólkurvörur eru joðríkar ásamt ýmsu grænmeti. Þá geta sumir með fiskofnæmi borðað skelfisk.
Fiskur hefur löngum verið talin holl matvara og er það bæði vegna þess hversu magur hann er en einnig gefur feitur fiskur góðar fitusýrur, svokallaðar omega-3 fitusýrur sem almennt skortir í fæði margra í dag. Þeir sem ekki þola fisk þola þó lýsi þar sem lýsi inniheldur ekki fiskiprótein. Ef vafi leikur á því hvort barn þolir lýsi má prófa það undir eftirliti læknis.
Hins vegar ef að einstaklingur þolir ekki lýsi af einhverjum ástæðum þarf aðra fæðu til að uppfylla D-vítamínþörf líkamans til dæmis D-vítamínbætta mjólk og olíur, eða með D-vítamín perlum.
Þegar við forðumst fisk má því segja að ákveðin hollusta hverfi úr fæðinu. Ekki er gott að borða alltaf kjöt í staðinn fyrir fisk þar sem mikil kjötneysla er ekki talin holl. Hins vegar má borða baunir og baunarétti í staðinn fyrir fisk- og fiskrétti. Baunir gefa vel af próteinum og trefjum og ýmsum mikilvægum vítamínum og steinefnum. Egg eru prótein- og næringarrík og eru því góður kostur af og til, til dæmis sem eggjakaka, í grænmetisrétti eða álegg ofan á brauð.
Skelfiskur:
Skelfiskur er matvara sem sumir hafa ofnæmi fyrir. Líkt og fiskurinn er skelfiskur hollur og næringarríkur og góð viðbót við aðra holla fæðu. Hins vegar þá getur önnur fæða hæglega komið í staðinn fyrir skelfiskinn sé ofnæmi til staðar og margir sem eru með ofnæmi fyrir skelfiski þola fisk og því fer hollusta úr sjávarfangi ekki algerlega út þó svo að skelfiskurinn sé ekki á matseðlinum.