Guðmundur Hafþórsson, sundkappi og einkaþjálfari, hyggst þreyta 24 klukkustunda sund í sumar til að safna peningum fyrir Barnaspítala Hringsins. Astma- og ofnæmisfélag Íslands styður Guðmund á deginum sjálfum fyrir tilstuðlan Fríðu Rúnar Þórðardóttur, formanns AO, sem er honum innan handar sem næringarfræðingur með ráðgjöf um næringu á meðan á æfingasundunum og sundinu sjálfu stendur. Heilsutorg.is og Líf styrktarfélag eru aðrir styrktaraðilar sundsins og munu flytja fréttir af gangi mála auk þess að standa þétt við bak Guðmundar.
„Þetta verður mjög krefjandi sund og veitir mér ekki af því að hafa jafn mikinn snilling og Fríðu Rún mér við hlið varðandi það hvernig ég á að næra mig þegar svona langt verkefni er fyrir höndum,“ segir Guðmundur. „Þá hefur Kári Jónsson, íþróttafulltrúi Garðabæjar, verið svo vænn að veita okkur aðgang í sundlaugina í Garðabæ til að þessi dagur geti gengið smurðulaust fyrir sig.“
„Hugmyndin að áheitasundinu kemur í kjölfar þess að ég höfuðkúpubrotnaði. Ég var kominn á núll punkt í líkamsástandi og þurfti mikla endurhæfingu enda þótt ég hafi verið í góðu formi áður en ég varð fyrir áfallinu. Læknar sögðu við mig að ég yrði að taka því rólega og ég þyrfti að æfa skynsamlega því líkaminn hefði í raun byrjað upp á nýtt hvað varðar þol og styrk.“
Allir geta tekið þátt í sundinu
„Sundið hefst kl. 11 að morgni 27. júní í Sundlaug Garðabæjar í Ásgarði og mun ég vera þar með mína eigin braut til að synda á. Ég mun alltaf fá fimm mínútur á hverjum klukkutíma til að næra mig og fara á klósettið en annars syndi ég alltaf í 55 mínútur á þess að stoppa.“
„Stefnan er að hafa þetta stóran dag og bjóða fólki að taka þátt í sundinu sjálfu og er hugmyndin sem stendur sú að hver og einn getur skráð sig til leiks í hálftíma í senn og greiða fyrir það skráningargjald. Sá hinn sami getur að auki safnað áheitum á sundið sitt og á þann hátt fengið fólk til að styrkja virkilega gott málefni sem stendur okkur öllum nær á einhvern hátt.“
„Eins mun fólk geta lagt beint inn á reikning og styrkja þannig málefnið. Þá mun væntanlega fara fram einhvers skonar sölumennska í Ásgarði þar sem fólk getur keypt sér kaffi og kleinu á meðan það fylgist með sundinu.“
„Líf Styrktarfélag og fleira gott fólk er að setja saman frábæra dagskrá fyrir þennan dag og verður þetta góður fjölskyldudagur sem allir ættu að geta notið. Eins er möguleikinn fyrir hendi að synt verði í fleiri laugum á landinu. Þannig að allir ættu að geta tekið þátt í að safna fyrir þennan frábæra málstað. Þetta verður fyrst og fremst skemmtilegt og ég hvet fólk til að leggja málefninu lið,“ segir Guðmundur.
Hægt verður að fylgjast með dagskránni fram að 27. júní hér á Heilsutorg.is en nú þegar er planið að Gummi syndi 3 klst. þann 10. maí, 5 klst. 17. maí og í 10 klst. þann 24. maí en formlegt start á verkefninu verður 21. maí nk.