Ríkasta uppspretta D-vítamíns er sólarljósið, en við ákveðna bylgjulengd myndast D-vítamín í húðinni. Við sem búum á norðlægum slóðum erum hins vegar í mun meiri hættu á því að þróa með okkur skort á D-vítamíni en þeir sem búa nær miðbaug. Ástæðan er sú að ekkert D-vítamín myndast í húðinni frá október og fram í mars, því sólin er of lágt á lofti. Því stendur og fellur D-vítamínbúskapurinn með þeim birgðum sem við náum að safna úr sólinni yfir sumartímann og því D-vítamíni sem við fáum úr fæðunni og fæðubótarefnum.
D-vítamín finnst hins vegar í mjög fáum fæðutegundum. Helst ber að nefna feitan fisk og lýsi. Einnig er minna magn að fá úr eggjarauðum og D-vítamínbættum matvælum eins og mjólk.
Ráðlögð neysla á D-vítamíni fyrir börn upp að 10 ára aldri eru 10 míkrógrömm á dag, sem samsvarar einum skammti af feitum fiski eða teskeið af lýsi daglega. Fyrir fullorðna er ráðleggingin 15-20 míkrógrömm á dag.
Íslenskar rannsóknir hafa hinsvegar löngum sýnt að ráðlagðri D-vítamínneyslu er illa fylgt á Íslandi. Neysla D-vítamíns er langt undir ráðleggingum hjá þeim sem ekki taka lýsi eða aðra D-vítamín fæðubót, jafnvel hjá þeim sem borða fisk reglulega. Það á bæði við um börn og fullorðna. Þá hafa rannsóknir á D-vítamínbúskap einnig sýnt að meirihluti þátttakenda í rannsóknum hafa D-vítamíngildi sem teljast lægri en æskilegt er.
Meistaraverkefnið mitt fjallaði um D-vítamínbúskap og D-vítamíninntöku 7 ára skólabarna að hausti árið 2006. Helstu niðurstöður voru birtar í vísindatímaritinu Public Health Nutrition í febrúar 2015.
Gögnin sem unnið var með voru þriggja daga skráningar á mataræði 7 ára barna á höfuðborgarsvæðinu (tvo virka daga og einn helgardag) frá september og þar til í nóvember. Einnig voru tekin blóðsýni og magn D-vítamíns greint. Fjöldi barna sem skiluðu bæði fæðuinntöku og blóðsýnum voru 120.
Niðurstöðurnar sýndu greinilega að D-vítamínbúskapur lækkar hratt að hausti hjá þeim sem ekki taka inn nægjanlegt magn D-vítamíns að staðaldri.
Þau börn sem ekki tóku lýsi eða D-vítamínfæðubót neyttu að meðaltali aðeins 2-3 míkrógramma af D-vítamíni daglega, á meðan þau börn sem tóku lýsi náðu ráðlagðri inntöku (10 míkrógrömm).
Hinsvegar var það mikill minnihluti barnanna sem tóku lýsi eða aðra D-vítamínfæðubót, og því voru aðeins um 22% barnanna sem náðu ráðlagðri inntöku á D-vítamíni. Þar að auki höfðu ríflega 65% barnanna ófullnægjandi D-vítamínbúskap í blóði og 3% barnanna greindust með gildi sem teljast til D-vítamínskorts.
Þar sem við getum ekki stólað á myndun D-vítamíns í húðinni allan ársins hring, þá er mjög mikilvægt að tryggja næga útiveru yfir sumartímann. Einnig er mjög mikilvægt að tryggja að börnin okkar fái lýsi eða aðra D-vítamín fæðubót daglega, sérstaklega að hausti og vetri.
Nauðsynlegt er þó að nefna að ekki er ráðlagt að taka inn stóra skammta af D-vítamíni þar sem það getur safnast fyrir í fituvef og valdið óæskilegum einkennum. Efri mörk skaðlausrar inntöku eru 50 míkrógrömm á dag, en 25 míkrógrömm fyrir börn undir eins árs.
Við Íslendingar erum fiskveiðiþjóð, og ein af fáum þjóðum í heiminum þar sem lýsisinntaka er hluti af fæðutengdum ráðleggingum. Því er sorglegt að sjá að neysla á D-vítamínríkum fiski, fiskiafurðum og lýsi sé eins lítil og rannsóknir hafa sýnt.
Verum meðvituð um D-vítamín inntöku barnanna okkar og tryggjum að þau fái næga útiveru yfir sumartímann. Með því móti getum við stuðlað að bættu heilbrigði og bjartari framtíð.
Höfundur: Adda Bjarnadóttir
Höfundur er næringarfræðingur og greinahöfundur hjá vefsíðunni www.authoritynutrition.com