Þau eru nokkuð komin til ára sinna en segja í hnitmiðuðu máli allt sem segja þarf um regluna góðu, að hafi menn smakkað vín eiga þeir ekki að aka. Mér var ljóst áður en ég lét þessi orð frá mér fara í fyrsta skipti að auðvelt væri að snúa út úr þeim og hvort sem menn trúa því eða ekki var það ég sjálfur sem fyrstur viðhafði útúrsnúninginn „eftir tvo – aktu svo“, þótt ekki segði ég það á opinberum vettvangi. Málið er það að ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að ef menn gantast með eitthvað sem gert er, eða ef menn nenna að gera grín að mönnum, þá eru umræddir einfaldlega að gera eitthvað sem skiptir máli. Sem dæmi um þetta get ég nefnt að í grínþáttum í útvarpi og sjónvarpi hef ég a.m.k. þrisvar eða fjórum sinnum verið ekinn niður og þá í gervi einhvers fáránlegs spyrils frá Umferðarráði. Þetta hefur aldrei haft hin minnstu áhrif á mig, m.a. af framansögðu, en ég viðurkenni að börnin mín áttu stundum bágt hér áður fyrr þegar sífellt var verið að drepa pabba þeirra. En þau uxu nú upp úr því blessuð.
Það er staðreynd að Íslendingar neyta meira áfengis í desembermánuði en í nokkrum öðrum mánuði ársins. Neysluvenjur hafa breyst og sem dæmi þar um má nefna að fyrir nokkrum árum tóku margir upp þann sið að hafa á boðstólum svokallað jólaglögg (sem ég hef alltaf talað um í hvorugkyni). Íslendingar þurftu auðvitað að auka áhrif mjaðarins með íblöndun brenndra drykkja og á tímabili voru menn í stórum stíl að aka stútfullir eftir neyslu þessa görótta drykkjar. Sem betur fer urðu menn brátt leiðir á þessu, enda drykkurinn langt frá því að vera góður, að sögn kunnugra manna. Í kjölfar þessa urðu jólahlaðborðin vinsælli en nokkru sinni fyrr og þeim fylgir víst oft að menn fá sér einn, tvo eða fleiri snafsa, auk borðvína eða bjórs. Sumir aka eftir þetta allt saman, sjálfum sér, fjölskyldu og samferðamönnum til stórhættu.
Ég býst við að ekki fari framhjá neinum að lögreglan gerir allt sem í hennar valdi stendur til þess að koma í veg fyrir að menn aki undir áhrifum áfengis og það gerir hún allan ársins hring, þótt aukin áhersla sé lögð á eftirlit með ölvunarakstri þegar jólahlaðborðin og jólaboðin komast í algleyming. Lögregla hefur fengið ný tæki í baráttunni gegn ölvunarakstri, svokallaða öndunarsýnamæla. Þeir hafa reynst vel og geri ég ráð fyrir að brotlegum ökumönnum þyki skárra að blása í öndunarmæli í lögreglubifreið eða á lögreglustöð, í stað þess að fara til læknis eða á sjúkrahús í blóðprufu með viðeigandi nálarstungum. Með tilliti til þess að menn vita að lögregla fylgist náið með ástandi ökumanna, m.a. fyrir utan samkomustaði jólaboða eða hlaðborða, þá skil ég raunverulega ekki hve margir ökumenn hafa verið teknir, fullir undir stýri undanfarna daga og vikur. En skýringin er auðvitað sú að eins og margoft hefur komið fram þá skerðist dómgreind manna við áfengisneyslu og þeir halda sennilega að þeim sé óhætt að aka þótt drukknir séu, svona góðir ökumenn eins og þeir eru. Og svo er það þessi gamla bábilja, ekkert kemur fyrir mig, einhverjir allt aðrir lenda í því að valda umferðarslysi ölvaðir og allir aðrir en þeir lenda í því að lögregla stoppar þá í eftirlitsskyni.
Vel fer á því á þessum vettvangi að koma lítillega inn á hvaða áhrif áfengi hefur á mannslíkamann. Ekki verður um tæmandi upptalningu að ræða en nefna má, eins og fyrr er getið að dómgreind skerðist og það í réttu hlutfalli við það áfengismagn sem innbyrt er. Möguleikar á að meta aðstæður rétt, fjarlægðir, hraða aðvífandi ökutækja o.s.frv. minnka til mikilla muna og öll nákvæmni í akstri fer veg allrar veraldar. Við bætist að sjónsvið þrengist og sjón í myrkri versnar og minnkandi sjón og athyglisgáfa verða m.a. til þess að menn taka ekki eftir lögreglubíl sem í sitja lögreglumenn sem eru sérfræðingar í að meta aksturslag með tilliti til þess hvort líkur eru á að ökumaður sé drukkinn. Til fróðleiks fylgir hér á eftir tafla um meint áhrif áfengis á atferli og aksturshæfni og bið ég menn að hugleiða þar sem þar stendur.