Misnotkun stera hefur um langan tíma verið áhyggjuefni hér á Íslandi sem annars staðar. Framan af var þessi misnotkun svo til eingöngu bundin við íþróttamenn í fremstu röð.
Misnotkun stera
Misnotkun stera hefur um langan tíma verið áhyggjuefni hér á Íslandi sem annars staðar. Framan af var þessi misnotkun svo til eingöngu bundin við íþróttamenn í fremstu röð. Misnotkunin virðist lítið hafa breyst í þeim hóp og er stöðugt verið að reyna að finna ný afbrigði og leiðir til að leyna neyslunni. Varla líður þó sú vikan, að ekki komist upp um slíka notkun oft meðal fremstu íþróttamanna veraldar.
Á Íslandi eru karlhormónar og sterar misnotaðir fyrst og fremst í sambandi við kraftíþróttir, lyftingar, vaxtarækt ofl. en einnig er orðið áberandi að ungir menn eru farnir að nota stera til að verða stærri, sterkari og fallegri. Undanfarin ár hefur nýr hópur steramisnotenda orðið nokkuð áberandi, en það eru þeir sem misnota sterana til að ná betri árangri í starfi. Þarna eru á ferðinni dyraverðir, lögreglumenn og þeir sem sinna öryggisgæslu. Einnig er það vel þekkt að fíkniefnasalar misnota stera til að auka sér kjark og kraft til að ná lengra í sínu starfi.
Þeir sem misnota stera, fara yfirleitt mjög leynt með þessa neyslu og er hún jafnvel meira feimnismál en misnotkun ólöglegra fíkniefna. Þessir neytendur eru í mikilli afneitun á þær hættur sem steraneyslan hefur í för með sér, og reyna oft að réttlæta neysluna með því, að þeir noti sterana tímabundið og geri hlé á milli til að líkaminn jafni sig. Flestir telja sér trú um að þeir noti skammta sem eru undir hættumörkum. Sannleikurinn er sá, að flestir eru að nota þessi efni í jafnvel hundraðföldum þeim skömmtum sem líkaminn getur þolað og aukaverkanir eru margar mjög alvarlegar.
Hjartasjúkdómar, lifrar- og lungnasjúkdómar eru vel þekktir fylgikvillar og hefur leitt fólk til dauða hér á landi sem annars staðar. Neytendur eru að slíta vöðvafestur, eistun verða eins og baunir eins og þekktur íslenskur læknir orðaði það. Þær aukaverkanir sem eru þó mest áberandi hjá þeim sjúklingum sem við hjá S.Á.Á. sjáum, eru þær persónuleikabreytingar sem verða hjá þessum misnotendum.
Það hefur lengi verið áberandi á sjúkrahúsinu Vogi, að þeir sjúklingar sem misnota anabóla stera skera sig úr sjúklingahópnum. Í fyrsta lagi eru þessir ungu menn meiri misnotendur ólöglegra vímuefna en gengur og gerist meðal annarra sjúklinga okkar á sama aldri. Einnig er ljóst að þessi hópur er bráðari í hugsun og verkum, stundum árásargjarnari og framkvæma oft hlutina áður en þeir eru búnir að hugsa þá til enda, stundum með alvarlegum afleiðingum. Margir verða mjög fastir í steraneyslunni, má jafnvel tala um fíkn, þó ekki sé hér raunverulegt vímuefni á ferðinni. Það er þó athyglisvert, að menn fara í fráhvörf eftir langvarandi steranotkun, svefntruflanir, hjartslátur, þunglyndishugsanir ofl., allt fráhvarfseinkenni sem eru vel þekkt eftir misnotkun vímuefna. Það er alveg ljóst, að óvirkir alkóhólistar verða að setja slíka stera á sinn bannlista ef þeir ætla að halda bata sínum.
Til að vita með vissu hve margir af þeim einstaklingum sem innritast á Vog eru að misnota þessar sterategundir, var gerð könnun, sem náði til allra sem innrituðust á Vog árið 1993 og síðan endurtekin árið 1997. Rannsókn þessi var gerð af læknum sjúkrahússins ásamt Pétri Péturssyni heilsugæslulækni á Akureyri.
Helstu niðurstöður voru eftirfarandi
Árið 1993 misnotuðu 2,4 % einstaklinga sem innrituðust á Vog stera, allt karlar nema ein kona. Árið 1997 misnotuðu 4,8 % sjúklinganna anabóla stera, 55 karlar og tvær konur. Meðalaldur þessa fólks er um 25 ár. Þarna er töluverð aukning á ferðinni. 78 % þessara sjúklinga misnotuðu ólögleg vímuefni og var amfetamín neysla mest áberandi.
Meðan á steranotkunn stóð, lýstu þessir einstaklingar ýmsum breytingum á skapferli og geði, m.a. fljótfærni, bræði, oftrú á eigin getu og aukinni kynhvöt sem gat komið þeim í vandræði. Þegar steraneyslunni var hætt lýstu þeir eftirfarandi sem dæmigerðu: þreyta, svartsýni, gleðileysi, minnkuð kynhvöt og aukin löngun í stera og vímuefni almennt, aukin fíkn. Ýmsar ástæður voru gefnar upp, hvers vegna steramisnotkun hófst. Það var m.a. von um betri árangur í íþróttum, aðallega lyftingum og vaxtarrækt. Einnig var talað um forvitni og fordæmi félaganna og margir nefndu að þeir vildu verða flottari.
Það var greinilega auðvelt að nálgast sterana. Flestir keyptu stera í tengslum við líkamsrækt, hjá vinum eða sölumönnum úti í bæ, en það var einnig mjög áberandi hve margir höfðu haft aðgang að anabólum sterum í fangelsum á Íslandi. Margir þessara manna höfðu fengið fangelsisdóma fyrir ofbeldisbrot og voru þekktir amfetamínneytendur. Það getur varla talist heillavænleg endurhæfing að sleppa þeim aftur á götuna útblásna af sterum. Varla er hægt að hugsa sér verri samsetningu fyrir ofbeldisfulla einstaklinga en anabóla stera og amfetamín.
Það er tekið á þessari steramisnotkun í meðferð hjá S.Á.Á. Íslendingar eru mjög ginkeyptir fyrir patentlausnum og margir tilbúnir að reyna það sem boðið er á götum eða í heimahúsum. Alls konar töframeðul eru í boði, sem eiga að bæta allt milli himins og jarðar, og er óþarfi að nefna hér margt af því rusli sem finnst á markaðnum í dag og fólk greiðir stórfé fyrir. Flest af þessu er reyndar vita gagnslaus og oftast meinlaust í sjálfu sér, en stundum eru þessi efni skaðleg og geta jafnvel verið, eins og sterarnir, stór hættuleg. Það er lögð mikil áhersla á það í meðferð hjá S.Á.Á. að vera ekki að fikta við efni eða gera tilraunir á sjálfum sér með efni eða lyf, sem eru lítið rannsökuð og lítið er vitað um.
Það er ekki deilt um skaðsemi anabóla stera í stórum skömmtum, en því ber að fagna, að Lyfjaeftirlit Ríkisins ætlar að fylgjast betur með óhefðbundnum efnum og fæðubótarefnum sem oft eru á gráa svæðinu. Þar geta leiðbeiningar og eðlilegar skráningar efna komið fólki að góðum notum, að sjálfsögðu ekki bara óvirkum alkóhólistum, heldur líka öllum þeim öðrum sem er annt um heilsu sína.