Það gefur ágæta hugmynd um stærð vandans því óhætt er að fullyrða að enginn leitar sér aðstoðar á þessu sviði nema um raunverulegt vandamál sé að ræða. Það er þó ekki nema hálf sagan sögð því á bakvið hvern einstakling sem á við vandamál að stríða á þessu sviði standa ættingjar og vinir sem allir verða fyrir áhrifum á einn eða annan hátt. Sorg, skömm, kvíði og reiði eru orð sem hægt væri að nota til þess að reyna að útskýra hvaða tilfinningar koma upp í tengslum við vandann en samt geta þessi orð engann veginn útskýrt til fulls hversu slæmar tilfinningar brjótast um í mörgum af þeim sem þurfa að takast á við að ástvinur þeirra virðist haldinn óskiljanlegri þörf til að brjóta niður sjálfan sig og allt sem í kringum hann er. Ekki má gleyma því að sá sem á í erfiðleikum með stjórn á neyslu vímugjafa eða er jafnvel orðinn háður þeim, getur líka verið að upplifa miklar kvalir, skömm, skilningsleysi og algjöran vanmátt gagnvart vandanum, hvað sem viljastyrk líður.
Foreldrar barna og unglinga í neyslu standa ráðþrota og horfa á eftir barninu sínu sogast inn í óhugnalegan heim sem getur varla kallast annað en helvíti á jörð og endar í sorglega mörgum tilvikum með alvarlegum áföllum, slysum, geðveiki eða jafnvel dauða langt fyrir aldur fram. Foreldrar, börn, systkini, eiginmenn, eiginkonur, kærastar, afar og ömmur upplifa sorgina og máttleysið gagnvart þessum vanda og beita ýmsum aðferðum til þess að reyna að hafa áhrif á viðkomandi aðila, ýmist með því að nálgast hann enn meira eða að halda sig sem lengst í burtu, með því að stjórna eða láta af stjórn, með gremju eða kærleika. Ýmsum brögðum er beitt sem sum hver virka eins og olía á eld þar sem sá sem á við fíknivandann að stríða virðist koma tvíefldur til baka þegar reynt er að stjórna hegðun hans og veldur enn meiri kvíða, sorg og reiði, allt í senn.
Fólk spyr sig af hverju viðkomandi aðili hagi sér svona? Af hverju hættir hann ekki þessari iðju sinni sem svo augljóslega hefur hræðilegar afleiðingar í för með sér? Sér hann ekki sjálfur hvað er að gerast? Ég get haft stjórn á þessu, af hverju ekki hann? Er honum alveg sama? Hvernig stendur á því að þessi aðili sem býr yfir frábærum hæfileikum á ýmsum sviðum, virðist vilja fórna öllu fyrir áfengi eða önnur vímuefni? Það er engu líkara en um sé að ræða klofinn persónuleika, stundum góður en stundum virðist hann hreinlega illgjarn, eigingjarn, sjálfselskur, óheiðarlegur og fullur af sjálfsvorkun svo eitthvað sé nefnt. Þetta eru ekki fagrar lýsingar en það er nú bara þannig að þó það séu einstaka góðar stundir inn á milli þá er almenna reglan sú að ef um vandamál með drykkju eða önnur vímuefni er að ræða, þá hefur það mikil og neikvæð áhrif á líf viðkomandi aðila og hans nánustu.
Spurningin er hvað hægt er að gera í málinu? Við því er ekkert eitt gott svar en góðu fréttirnar eru að það er til lausn. Það á bæði við um þann sem telur sig eiga við vandamál að stríða með neyslu vímugjafa og þeirra sem að honum standa. Mikilvægt er að leita sér aðstoðar hjá fólki með reynslu á þessu sviði og hafa í huga að bæði sá sem er stjórnlaus og þeir sem í kringum hann eru, geta fengið hjálp til þess að eiga betra líf og lifa frjáls frá þessu vanda. Fyrsta skrefið hjá báðum aðilum, skrefið sem verður að koma á undan öllu öðru er viðurkenning á vandamálinu og vilji til þess að leita sér aðstoðar. Það er ekki hægt að neyða lausninni upp á nokkurn mann og sá sem á við neysluvandamál að stríða getur verið lengur að finna það hjá sjálfum sér að leita eftir hjálp, ef á hann er þrýst. Eftir stendur að aðstandendur viðkomandi geta leitað sér lausnar hvort sem sá sem misnotar vímugjafa vill hætta neyslunni eða ekki.
Valdimar Svavarsson
Ráðgjafi Lausnarinnar
Hér getur þú fundið námskeið hjá Lausnin.is