Við þessu er hægt að tína til þessi mótrök: þinn hugur er þitt einkasvæði. Það hvort þú tileinkar þér jákvæða eða neikvæða hugsun hefur sáralítið um ástand heimsins að segja - en það hefur allt að segja um þína andlegu líðan. Hvorki bjartsýni þín né svartsýni breytir veröldinni að nokkru verulegu marki. Það eina sem um er að tefla í þessari skák er þín andlega velferð og þín geðræna heilsa.
Fólki sem er með yfirdrifna ábyrgðarkennd, og finnst það ekki geta á heilu sér tekið fyrr en það hefur komið heiminum í skaplegt horf, væri hollt að íhuga þetta: mundu að heimurinn plummaði sig ágætlega áður en þú fæddist, og mun plumma sig ágætlega áfram þegar þú ert horfin(n) af jarðneska sviðinu. Eins og málshátturinn segir: „kirkjugarðarnir eru fullir af ómissandi fólki.“
Og nú kemur stóra bomban: fyrir utan nokkur sjúkleg tilfelli þar sem lyf og vistun á geðdeild eru nauðsynleg þá eru þunglyndi og depurð oftast nær yfirstíganleg að mestu eða öllu leyti með því að temja sér jákvæðni í hugsun. Það er hægt að taka þá meðvituðu ákvörðun að sjá fremur hið góða og fallega í heiminum heldur en hið vonda og ljóta. Athygli okkar mannfólksins er hvort eð er alltaf og óumflýjanlega ´selektíf´ - við sjáum veröldina eins og við viljum sjá hana; með þeim gleraugum sem við setjum á okkur. Og úr því svo er,því þá ekki að setja upp rósrauðu gleraugun og reyna að sjá það besta í öllum manneskjum og öllum kringumstæðum?
Eftir Kára Auðar Svansson fyrir hönd Vinjar, athvarfs fyrir geðfatlaða. Höfundur er greindur með geðklofa.
Greinin er fyrsta greinin af tíu í greinarröð jafn margra úrræða og/eða félaga á geðheilbrigðissviðinu á höfuðborgarsvæðinu um Geðorðin 10.