Um þriðjungur þeirra sem leita til SÁÁ eru konur. 4% íslenskra kvenna 15 ára og eldri hafa komið á sjúkrahúsið Vog, um 7000 einstaklingar frá upphafi og yfir 500 konur á ári. 200-250 kvennanna fara í áframhaldandi meðferð á endurhæfingarheimilinu Vík á Kjalarnesi. Þar er boðið upp á sérstaka kvennameðferð.
Kvennameðferðin var sett á laggirnar árið 1995 og var miðuð við þarfir og sérstöðu kvenna með fíknisjúkdóm. Árið 2003 var ákveðið að kynjaskipta meðferðarhópunum alfarið og allar konur sem fara í inniliggjandi meðferð hjá SÁÁ eru nú í kvennahópum en ekki blönduðum hópum eins og áður var boðið uppá. Á Vík fer þó fram önnur meðferð samhliða kvennameðferðinni.
Í kvennameðferðinni er lögð áhersla á að mæta konum sem glíma við alkóhólisma og verða oft fyrir meiri fordómum og skilningsleysi en karlmenn með sama sjúkdóm. Sjálfsmynd þeirra er oft brotin því þær upplifa að þær hafi brugðist, margar koma úr erfiðum samböndum og hafa orðið fyrir ofbeldi, þeim er hætt við að einangra sig og því þarf að gæta vel að stuðningi eftir meðferðina.
Í meðferðinni er áhersla lögð á að kenna og hjálpa konum að ráða við fíkn, vinna sig út úr einangrun, ná eðlilegu sambandi við maka og börn, bæta sjálfsvirðinguna, ná lágmarksjafnvægi og fjalla um ýmis viðkæm málefni kvenna, með áherslu á að fræða þær um eðli fíknisjúkdómsins og hjálpa þeim að undirbúa sig undir breytinguna sem verður þegar neysla er stöðvuð, auk þess að gera þær færar um að fást við þau mál sem upp geta komið á fyrstu stigum edrúmennsku.
Hluti af meðferðarvinnunni er að aðstoða konur við að raða verkefnum sínum í rétta röð svo góður árangur náist þegar heim er komið. Þegar fólk er veikt af alkóhólisma er það svo fyrirferðamikill hluti af lífi fólks að til að ná tökum á öðrum þáttum í lífinu skiptir miklu máli að ná tökum á þeim skæða sjúkdómi sem alkóhólismi er og komast í jafnvægi.
Kvennameðferðin er sett upp í þrjá hluta. Sá fyrsti byrjar á 10-15 daga dvöl á sjúkrahúsinu Vogi þar sem konur fara í undirbúningshóp áður en þær fara í endurhæfingu á Vík. Á Vogi eru verkefni mismunandi og áherslur aðrar en í almenna prógramminu. Konurnar eru í sér hóp og fá fyrirlestra og fræðslu sniðnar að þeim. Þegar þær eru búnar með undirbúningshópinn og eru orðnar líkamlega og andlega tilbúnar fara þær áfram á Vík.
Endurhæfingarheimilið Vík tekur um 32 sjúklinga. Kvennameðferðin fer þar fram. Hún tekur 28 daga og er mikil áhersla lögð á fræðslu, hópvinnu og einkaviðtöl með það að leiðarljósi að konurnar fái betri innsýn í sinn vanda og verkefnin sem bíða þeirra þegar út í lífið er komið. Einnig er þeim hjálpað við að komast í góða rútínu með svefn, mataræði og hreyfingu.
Eftir að meðferð á Vík er lokið er ársstuðningur í boði í göngudeild SÁÁ í Efstaleiti, VON. Fyrstu þrjá mánuðina er eftirfylgni tvisvar í viku og svo tekur við níu mánaða skeið þar sem konur koma einu sinni í viku, en að þeim tíma loknum eru þær útskrifaðar úr meðferðinni með það í farteskinu að þær geti leitað til SÁÁ og verið í sambandi þó að formlegri kvennameðferð sé lokið.
Á Akureyri er eftirfylgni í boði einu sinni í viku í heilt ár. Í eftirfylgninni er unnið áfram að markmiðum sem á undan eru nefnd, en vaxandi áhersla lögð á að konurnar séu virkar félagslega og hópstarfið sé skemmtilegt, styðjandi og upplífgandi.
Meðferðarformið hefur gefið góða raun og hjálpað mörgum konum út úr sínum áfengis og vímuefnavanda. Konurnar sem koma til okkar eru eins mismunandi og þær eru margar, með mismunandi mynstur í sínum neysluvenjum. Þær drekka „bara bjór“, nota vímuefni, hafa vanda vegna læknalyfja, drekka daglega, sjaldan, í túrum og allt þar fram eftir götunum. Þær koma frá allskonar heimilum, sinna allavega störfum í þjóðfélaginu, eiga börn, eru ömmur,eru barnlausar, búa út á landi, í útlöndum, í Reykjavík og svona væri lengi hægt að telja.
Þær eiga það allar sameiginlegt að glíma við alkóhólisma sem er langvinnur, alvarlegur, krónískur heilasjúkdómur sem hefur tilhneigingu til að versna og versna með tímanum. Meðferðin er í stöðugri þróun þótt grunnurinn sé alltaf sá sami og eflaust myndu konur sem hafa nýtt sér þessa meðferð á árum áður ekki þekkja allt sem meðferðin býður uppá í dag. Meðferðin breytist, og í sumum tilfellum breytist sjúklingahópurinn.
Ég vona að með aukinni umræðu verði hindranirnar færri fyrir konur sem leita sér aðstoðar. Þær hafa oft á tíðum verið lengi á leiðinni að leita sér hjálpar og tengja kvíðann, þunglyndið og stjórnleysið sem oft fylgir neyslunni ekki saman. Þær eru því lengur á leiðinni til okkar og hafa verið í miklum feluleik með áfengis- eða vímuefnanotkunina.
Konurnar geta verið illa á sig komnar þegar þær koma til okkar og við gerum allt sem við getum til að taka vel á móti þeim, styðja þær og styrkja. Við hjálpum þeim að byggja upp sjálfstraust og veita þeim verkfæri til að takast á við verkefnin í lífi án áfengis og vímuefna. Það er alltaf réttur tími til að gera eitthvað í málunum !
Kristbjörg Halla Magnúsdóttir, áfengis- og vímuefnaráðgjafi, CAC - nánar á vefslóðinni www.saa.is
-----------------------------------------------------------------------------------------
Nú stendur yfir landssöfnun SÁÁ, Áfram Vogur, til styrktar Sjúkrahúsinu Vogi.
Leggðu söfnuninni lið með því að hringja í símanúmerið
903-1001 fyrir 1000 króna styrk
903-1003 fyrir 3000 króna styrk
903-1005 fyrir 5000 króna styrk