Kannabisplantan
Kannabisplantan hefur að geyma vímuefnið THC ( delta-9-tetrahydrocannabinol). Venjulega þegar verið er að tala um kannabis er átt við afurðir af þessari jurt, hluta af henni eða jurtina sjálfa. Þegar talað er um kannabisefni er átt við þær afurðir af jurtinni sem innihalda vímuefni. Helstu afurðirnar sem þekktar eru á vímuefnamörkuðum vesturlanda eru hass, marijuana og hassolía.
Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að kannabisefni eru ekki hrein efni heldur efnablanda. Sum vímuefni eru aftur á móti hrein efni eins og áfengi ( Etanól), amfetamín, kókaín, heróín. Þetta er einkum mikilvægt þegar kemur að því að tala um áhrif efnisins á líkaman. Áhrif kannabisefna á lungu eru alls ekki bundin við vímuefnið eitt sem í jurtinni er heldur við öll efnin sem berast niður í lungun við kannabisreykingar. Aftur á móti virðast áhrifin á heilann eingöngu bundin við vímuefnið THC og aðra kannabínóíða.
Vímuefnin sem unnin eru úr kannabisplöntunni eru því í rauninni efnablanda yfir 400 efna og þegar að þau er reykt myndast yfir 2000 efni sem fara inn í líkaman. 61 þessara efna finnast hvergi á jörðinni nema í kannabisplöntunni og eru nefnd kannabínóíðar. Þessir kannabínóíðar valda vímuáhrifunum. Aðeins eru rúm 30 ár síðan sannað þótti að einn þessara kannabínóíða, delta-9-tetrahydrokannabinol væri lang virkastur þeirra allra og ylli ein nær öllum vímuáhrifunum. Þá var efnið fyrst unnið hreint úr kannabisplöntunni og mólgerð efnisins greind sem er delta-9-tetrahydrokannabinol og skammstöfunin fyrir þetta efni er THC.
Kannabisplantan (Cannabis sativa) er talin upprunnin í Mið-Asíu, en vex nú víða í hitabeltinu og tempruðum beltum jarðarinnar. Hún er stundum nefnd hampjurt því úr henni má vinna hamp. Í gegnum tíðina hefur þessi jurt verið nýtt á ýmsa vegu fræin hafa verið notuð í dýrafóður, stilkur jurtarinnar til hampgerðar og olían til litagerðar. Jurtin óx vilt víða í Evrópu og vesturlandabúar fluttu hana til Norður-Ameríku til að nota hana þar til hampgerðar. Þó að jurtin hafi þannig verið nýtt á ýmsa vegu til iðnaðar um aldir voru vímuefnin sem í jurtinni finnast ekki notuð á Vesturlöndum fyrr en á 20 öld. Í löndum araba var jurtin aftur á móti ræktuð til vímuefnagerðar frá upphafi miðalda.
Jurtin er einær og tvíkynja. Vímuefni eru í báðum kynjum jurtarinnar þó kvennjurtin sé venjulega vímuefnaríkari. Lítið sem ekkert er af TCH í stöngli plöntunar, rót og fræjum. Vímuefnin eru í blöðum plöntunar og því meira magn eftir því sem blöðin standa hærra á stilknum. Mest er þó af vímuefnum í blómsprotum plöntunar og jurtakvoðunni sem þeir gefa frá sér. Á smáblöðum er umlykja grænleit blóm plöntunnar en einnig á blómsprotum og víðar á plöntunni eru kirtilhár sem seytrar eða af drýpur kvoða eða harpix sem er sérstaklega ríkur af TCH og öðrum kannabínóíðum. Þegar kannabisjurtin er fullþroskuð þekur klístrugur gullitaður harpix blóm, blómsprota og efstu blöð plöntunnar.
Það fer nokkuð eftir tegund kannabisjurtarinnar og við hvaða skilyrði hún er ræktuð hversu mikið af THC og öðrum kannabínóíðum myndast í jurtinni. Talið er að til séu að minnsta kosti þrjá tegundir af jurtinni (Cannabis sativa, Cannabis Indica og Cannabis ruderalis) sem með kynbótum og ræktunum hafa greinst í fjölmörg afbrigði.
Marijuana er blöð og blómsprotar jurtarinnar. Það ódýrasta er unnin úr villtum jurtum þannig að efsti hluti jurtarinnar er skorin. Indverska nafn er til um þennan marijuanarudda "bhang" sem hefur að geyma lítið af harpix. Mikið af því marijhuana sem reykt er í USA er af þessari gerð. Ef skorið er ofan af sérstaklega völdum og ræktuðum plöntum, helst kvennplöntum, fæst miklu vímuefnaríkara marijuana. Marijuana er á litin allt frá grænu yfir í grátt eða brúnt og gerðin allt frá því að vera líkt telaufum yfir í stóra blaðhluta. Þegar búið er að tína burtu fræ og grófustu stöngulbútana getur því svipað til tóbaks og þá er hægt að vefja það í vindling " jont" sem er reyktur.
Sinsemilla er þróuð ræktunaraðferði, þar sem þess er gætt að kvennjurtin frjógist ekki og notað er til ræktunarinnar sérstaklega vímuefnarík afbrigði af kannabisjurtinni sem ættur eru frá Indlandi, Tælandi eða Neapel. Þannig má fá mikið magn THC í blómsprotana. Slíkar afurðir hafa komið á markað í USA og geta verið jafn vímuefnaríkar og besta hass ( Sinsemilla ).
Ganja er Indverskt nafn yfir afurð af kannabisjurtinni þar sem blómsprotum og smá laufblöðin sem sitja efst við blóm kvennjurtarinnar er safnað saman. Þessi afurð er reykt í pípu en er sjaldséð á vímuefnamörkuðum á vesturlöndum.
Hass ( Hassis) er að mestu unnið úr jurtakvoðunni (harpixnum) sjálfum og er þá mulinn, sigtaður, og misvel hreinsaður harpix. Hann er pressaður í kökur sem hafa að geyma mismikið af blómsprotum. Hassið er vímuefnaríkari en marijuana og heitir á Indlandi charas. Liturinn á Hassi er allt frá ljósbrúnu að nærri svört. Það er blandað saman við sígarettutóbak og reykt
Hassolía er búin þannig til að lífræn leysiefni eru látin draga kannabínóíða úr hassi eða kannabisplöntunni. Hassolíunni er oft smurt í sígarettubréfið sem vafið er um hassvindlingin til þess að gera hann sterkari.
THC eða delta-9-tetrahydrocannabinol er virka vímuefnið í kannabisefnum. Hinir kannabínóiðar eru óvirkir eða mjög veikir. Þeir geta þó haft einhver áhrif til þess að minnka eða auka verkun TCH séu þeir til staðar í heilanum. Þó að THC sé eðlilega mjög eftirsótt á hinum ólöglega vímuefnamarkaði vegna hreinleika og styrkleika sést það sjaldan þar. Hitt er ekki óalgengt að önnur vímuefni eru seld sem THC. Magn THC í marijuana er oftast á bilinu 0,5 - 7 %, í hassi 7-14 %, ganja 6-10% og í hassolíu 15 - 50%.
Úr ársskýrslu |
Þeir sem hafa notað kannabisefni vikulega eða oftar í eitt ár eða lengur og uppfylla þau skilyrði DSM IV greinast kannabisfíklar á sjúkrahúsinu Vogi. Þó þurfa þeir sem eru 19 ára eða yngri ekki að nota efnið vikulega lengur en í hálft ár til að teljast fíknir. Flestir fíklarnir hafa þó notað efnið daglega í 2 ár eða lengur.
Í línuritunum um fjölda stórneytenda kannabisefna má sjá að fjöldi þeirra, og þá um leið neysla kannabisefna, dróst verulega saman á árunum 1989 til 1994. Kannabisneysla eykst svo nokkuð árið 1995 og þá greindust 235 kannabisfíklar. Fjöldi kannabisfíkla hefur vaxið gríðarlega og rúmlega þrefaldast á síðustu 10 árum og nær ámarki 2006. Undanfarin þrjú ár fækkar síðan tilfellunum og færri kannabisfíknir unglingar koma á Vog. Árið 2009 voru kannabisfíklarnir 557 og hlutfall þeirra 31,5% af sjúklingahópnum. Meðalaldur dagreykingamanna hass var 25,7 ár. 127 dagreykingamenn voru 19 ára eða yngri, 223 voru á milli 20 og 29 ára og 120 voru 30 ára eða eldri (sjá línurit um þróun kannabisneyslu).
Leita verður aftur til ársins 1999 til að finna sambærilegar tölur um kannabisfíkla og sjást nú 2009. Lögregluaðgerir og uppræðing kannabisræktunar á árinu 2008 virðist því samkvæmt þessum tölum skila árangri.