Sálfræðiþjónusta SÁÁ er veitt í Von, Efstaleiti 7, í Reykjavík. Tímapantanir eru í síma 530 7600 á skrifstofutíma.
Tveir sálfræðingar veita þjónustuna. Ása Margrét Sigurjónsdóttir, sálfræðingur, hefur umsjón með þessari þjónustu. Hún hefur starfað með börnum alkóhólista hjá SÁÁ frá 2010. Með henni starfar Sigurrós Friðriksdóttir sálfræðingur.
Hvert barn fær átta viðtöl; eitt viðtal í viku. Hvert viðtal kostar 3.000 krónur en aðeins er greitt eitt gjald fyrir börn úr sama systkinahópi. Um 800 börn höfðu nýtt sér Sálfræðiþjónustu barna um áramótin 2015 en þjónustan hefur verið veitt frá 2008.
Markmiðið með Sálfræðiþjónustu barna er að veita börnum opnun og viðurkenningu á stöðu sinni og aðstæðum í fjölskyldu þar sem áfengis- eða vímuefnavandi er til staðar og að hjálpa þeim að skilja betur eigin aðstæður og aðstæður foreldranna og aðstoða þau við að greina á milli sjúkdómsins alkóhólisma og manneskjunnar sem þjáist af honum.
Með því að aðstoða barnið við að rjúfa þann þagnarmúr og þá einangrun sem einkennir oft börn í þessum aðstæðum er hægt að bæta líðan og velferð barnsins og auka um leið skilning þess á sjúkdómi foreldranna og afleiðingum hans. Með því getur barnið betur áttað sig á stöðu foreldranna og getur líka betur tekist á við og unnið úr eigin tilfinningalegri vanlíðan, styrkt sjálfsmynd sína og eflt félagsfærni.
Hægt er að óska eftir forgangi fyrir börn sem búa við sérlega slæmar aðstæður eða sýna einkenni mikils kvíða eða hegðungarvanda sem ætla má að rekja megi beint til ástands á heimilinu. Ef ekki er um forgangstilvik að ræða er nokkurra vikna bið eftir fyrsta viðtali.
Venjan er sú að foreldrar eða aðrir aðstandendur koma með börnunum í fyrstu tvö viðtölin. Foreldraviðtöl standa einnig til boða. Það er sársaukafullt fyrir hvern þann sem ekki hefur náð að sinna barni sínu eins og hann hefði viljað, en í þeirri stöðu er flestir foreldrar sem eiga við áfengis- eða vímuefnavanda að stríða. Sálfræðingar SÁÁ leggja sig fram um að nálgast börn og foreldra af nærgætni og virðingu fyrir þeim vanda sem þau standa frammi fyrir
Það má segja að ákveðið mat á þjónustunni liggi fyrir af hálfu notendanna sjálfra, barnanna. Það birtist í skýrslu sem unnin var á vegum Umboðsmanns barna og kynnt var vorið 2014. Þar var um að ræða “sérfræðihóp” fimm barna sem nýtt höfðu sér sálfræðiþjónustuna og tóku þátt í tilraunaverkefni Umboðsmanns barna sem hafði það að markmiði að ná fram sjónarmiðum barnanna sjálfra til þess hvernig það er að eiga foreldri sem á við áfengis- og vímuefnavandamál að stríða, hvers konar aðstoð hefur reynst þeim vel og hvaða þjónustu þau þurfi helst á að halda.
Í skýrslu hópsins kom fram að öll börnin sem tóku þátt í starfinu voru sammála um að sú sálfræðiaðstoð og ráðgjöf sem þau fengu frá SÁÁ hafi hjálpað þeim og breytt miklu fyrir þau og veitt þeim styrk. “Fræðslan skipti þar miklu máli og fannst þeim erfitt að hugsa til þess hvernig það hefði verið ef hún hefði ekki komið til,” segir í skýrslu hópsins. “Alkóhólismi er ekki eitthvað til að skammast sín fyrir. Þessi aðstoð reyndist þeim mikill styrkur.”
Sálfræðiþjónustan er að miklu leyti fjármögnuð með tekjum SÁÁ af álfasölu og öðrum fjáröflunarverkefnum. Reykjavíkurborg hefur einnig veitt styrk til að halda þjónustunni úti, samkvæmt sérstökum samningi.
Sjá einnig Sálfræðiþjónusta barna: Spurt og svarað.
Fengið af vef saa.is