Þrenndartaug er grein frá heilataug sem liggur til andlits og greinist í þrjár greinar. Taugaverkir í andliti, vangahvot (trigeminal neuralgia, tic douloureux) er heiti yfir langvinna taugaverki frá þessari taug. Algengast er að vangahvot sé öðrumegin í andliti á kjálkasvæði. Verkir koma í köstum og geta þau varað í nokkra daga, vikur eða jafnvel mánuði og þá geta verkir legið niðri í mánuði eða jafnvel ár. Um er að ræða skerandi, bruna- eða nístandi verki sem koma skyndilega og vara í nokkrar sekúndur eða mínútur í hvert sinn. Kveikja að verkjaköstum getur verið snerting við verkjasvæðið, rakstur, andlitsþvottur, förðun, bursta tennur, tyggja, tala eða fá kaldan vindblástur í andlitið. Til viðbótar má geta þess að margir telja að mikið álag einkum andlegt álag sé oft á tíðum undanfari verkjakasts.
Vangahvot finnst hjá báðum kynjum, en er algengari hjá konum en körlum og er hlutfallið a.m.k. tvær konur á móti einum karli. Sjúkdómurinn byrjar yfirleitt eftir 50 ára aldur en getur byrjað á hvaða aldursskeiði sem er.
Orsakir eru ekki þekktar en talið er að þrýstingur á taugina og/eða blóðæðar sem næra hana hrindi af stað þessum langvinnu taugaverkjum. Vangahvot er nokkuð algengt einkenni í MS sjúkdómnum og tengist þá líklega eyðileggingu sjúkdómsins á myelínslíðri sem umlykur taugina.
Meðferð
Meðferð með lyfjum er algengasta meðferðarformið. Lyfi í flokki flogaveikilyfja, þríhringslaga geðdeyfðarlyfja og vöðvaslakandi lyf eru mest notuð. Til að þessi lyf virki sem best þá verður að taka þau reglulega og til að draga úr aukaverkunum þeirra þá er lyfjaskammtur aukinn hægt og ef hætta á lyfjatöku þá verður einnig að draga smám saman úr skammtastærðinni.
Aðrir algengir valkostir í meðferð við vangahvoti eru stoðkerfiskerfis- og verkjameðferðir sjúkraþjálfara, nálastungur og rafstraumsmeðferð (TNS og blandstaumur).
Í þeim tilvikum þar sem að ekki næst nægilegur árangur með fyrrnefndum meðferðum þá er aðgerðum stundum beitt. Nokkrir valkostir eru í boði má þar nefna sprautumeðferð, frystingu (cryotherapy) eða hitun taugar (thermocoagulation, radiofrequency rhizotomy) til að blokkera hana þannig að ekki berist verkjaboð eftir henni. Meðferð með geislum (Gamma-knife radiosurgery (GKR)) eða opinni skurðaðgerð þar sem að létt er á þrýstingi á taugina er í einstaka tilfellum beitt.
Sjúkdómshorfur
Einkenni vangahvots koma og fara í köstum og vara í mislangan tíma. Svefntruflun, þreyta og þunglyndi eru algengir fylgifiskar vangahvots og það ásamt verkjum og vanlíðan getur haft mikil áhrif á líf viðkomandi og þátttöku í daglegum athöfnum. Yfirleitt næst þó góður árangur í meðferð við vangahvoti með fyrrnefndum meðferðum.
Hvarmakrampar/Augnviprur (Blepharospasm)
Margir vefjagigtarsjúklingar finna endurtekið fyrir vöðvakippum og vöðvatitringi, sem getur orðið hvimleiður kvilli til lengdar. Endurteknir vöðvakippir geta verið í einum vöðva eða stakir kippir í vöðvum vítt og breitt í líkamanum. Vöðvakippir og vöðvatitringur koma bæði í stóra vöðva og smáa, eins og í stóru lærvöðvana eða í litlu vöðvana sem stýra hreyfingum augnloka. Flestir hafa fundið fyrir vöðvakippum eða fjörfiski í auga, sem koma og fara upp úr þurru.
Augnviprur/hvarmakrampar (Blepharospasm) byrja oft með óeðlilega miklu augnblikki og stundumfylgir því pirringur og særindi í augum. Skært ljós, þreyta, mikið álag og streita er oft undanfari þessa kvilla. Yfirleitt hægist á augnviprum við að hvíla yfir nótt, en síðan aukast einkennin smám saman eftir því sem líður á daginn. Ljósáreiti eins og vinna við skært ljós eða við tölvuskjá er líklegt til að auka á einkennin.
Hjá flestum eru hvarmakrampar og aðrir vöðvakippir tímabundin einkenni og geta þau varað í mislöng tímabil, en hjá einstaka þá eru hvarmakrampar viðvarandi og hverfa jafnvel ekki í hvíld og í einstaka tilfellum geta einkenni verið svo svæsin að viðkomandi er ómögulegt að beita augunum þegar líða tekur á daginn.
Hvað veldur hvarmakrömpum?
Hvarmakrampar/augnviprur eru ósjálfráðar hreyfingar í augnloki sem stafa af vöðvaspennutruflun (dystonia) sem veldur óeðlilegum samdrætti í litlu augnvöðvunum sem stýra hreyfingum augnloka og hreyfingum augans. Vöðvaspennutruflun er samheiti yfir truflun á vöðvaspennu af ýmsum orsökum og eru til margir flokkar kvilla og heilkenna sem stafa af vöðvaspennutruflun.
Ekki er vitað með vissu um ástæðuna fyrir vöðvakippum, en líklega er um ofurnæmi í taugum til vöðva þ.e. óeðlileg rafboð flytjast með taugum til augnvöðva og örva vöðvana til endurtekinna samdrátta og slökunar til skiptis.
Eftirfarandi þættir eru taldir geta átt þátt í að koma þessum kvilla af stað og að viðhalda honum:
• Vöðvaþreyta/ofálag á vöðva
• Áverkar/slys
• Andlegt álag/ langvinnt streituástand
• Kvillar í taugakerfi m.a. vefjagigt
• Koffein
• Einstaka lyf meðal annars lyfið Nozinan® sem stundum er gefið til að bæta svefn vefjagigtarsjúklinga
Vægir vöðvakippir eru afar algengt einkenni í vefjagigt og eru þeir taldir tengjast ýmsum einkennum sjúkdómsins meðal annars svefntruflunum, tanngnísti og fótaóeirð.
Meðferð
Líkt og með aðra meðferð við einkennum sem stafa af truflun í taugakerfinu þá er meðferð við hvarmakrömpum skammt á veg komin. Almennt gildir að meðferð við hvarmakrömpum fer fyrst og fremst eftir alvarleika kvillans, en ætíð er mikilvægt að byrja á að bæta lífstíl sinn með það að markmiði að draga úr álagi á taugakerfið.
Lífstíll – Draga verður úr andlegu áreiti, stunda reglulega slökun og passa vel upp á hvíld. Hugræn atferlismeðferð getur verið góð hjálp til að takast á við þennan hvimleiða kvilla, sjúkraþjálfun getur verið nauðsynleg til að meðhöndla stoðkerfi andlits og kjálka og koma viðkomandi í sem best líkamlegt form. Að læra að forðast aðstæður sem að auka á kvillann er mjög mikilvægt.
Lyfjameðferð – Ekkert lyf er til við augnviprum sem að gagnast öllum þ.e. lyf sem virka vel á suma hafa enga verkun á aðra. Því er mikilvægt að vera undir eftirliti sérfræðings á þessu sviði til dæmis taugalæknis meðan verið er að finna út hvaða lyf verkar best.
Botox sprautumeðferð – Botox (Botox®) innspýting í ofvirka vöðva getur gagnast vel við hvarmakrömpum og er tiltölulega örugg meðferð. Botoxi er sprautað inn í augnvöðvana með hárfínni nál, en botoxið hefur hamlandi áhrif á taugaboðin sem örva vöðvakippina.
Efninu er sprautað á tveggja til þriggja mánaða fresti í vöðvana í fyrirfram ákveðnum skömmtum. Þetta dregur talsvert úr einkennum hjá yfir 80% sjúklinga.
Síðastliðin ár hefur botox meðferð verið beitt í vaxandi mæli á aðra kvilla og sjúkdóma sem stafa af vöðvaspennutruflun meðal annars síbeygjukrampa (spasticity), meðfædda heilalömum (cerebral palsy), vangakrampa (e. hemifacial spasm) og staðbundna truflun á vöðvaspennu þeim tengdum.
Skurðaðgerð - Ekki valkostur fyrr en augnviprur hamla sjón og engin önnur meðferðarúrræði eru eftir.