Hvernig er rannsókninni háttað í stórum dráttum og hversu margir einstaklingar munu taka þátt í henni?
Í rannsókninni er notast við nýjar greiningaraðferðir sem fyrirtækið Expeda ehf. hefur þróað á undanförnum árum í samstarfi við Háskólann í Reykjavík og vísindamenn við Landspítalann (LSH). Helstu samstarfsaðilar innan LSH eru gigtarlæknarnir Björn Guðbjörnsson, Kristján Steinsson, Árni Jón Geirsson og Elínborg Stefánsdóttir, hjúkrunarfræðingur. Í rannsókninni verður gagnagrunnur sjúkraskrárkerfisins IceBio nýttur til þess að tryggja eftirlit og gæði meðferðar. Rannsóknin er unnin í samstarfi við lyfjafyrirtækið Portfarma fyrir hönd Celltrion Healthcare Co. Ltd. Má með sanni segja að rannsóknin sé einstök að því leiti að samtímis verða skoðuð áhrif kostnaðar samhliða klínískum- og grunnvísindarannsóknum auk þess sem nýjungar við greiningu, eftirlit og meðferð verða metnar. Um er að ræða rannsókn á 20 einstaklingum með iktsýki sem verða meðhöndlaðir með TNFalpha hemjandi lyfi (Remsima). Þegar samþykki þeirra liggur fyrir verður þeim fylgt eftir í 6 mánuði þar sem ofangreindir þættir verða metnir í hvert sinn sem þátttakendur rannsóknarinnar koma til lyfjagjafar á dagdeild gigtlækningadeildar LSH í Fossvogi.
Á þessi stóra rannsókn sér einhvern aðdraganda, til að mynda fyrri rannsóknir á þessu viðfangsefni?
Grunnur að núverandi rannsókn var lagður fyrir 3 árum síðan af teyminu sem stendur að baki Expeda ehf. Það kerfi sem nú verður sérstaklega notað og rannsakað í gegnum Expeda ehf. (GigtRáður) hefur tekið 10 ár í þróun. Byggir á samstarfi við fjölmarga innlenda og erlenda aðila, sérstaklega Bjarna V. Halldórssyni við Háskólann í Reykjavík. Einnig hafa margir rannsóknarnemar komið þar við sögu, þá sérstaklega þau Dagrún Jónasdóttir, Stefán Guðmundsson, Einar A. Helgason og Guðný Anna Árnadóttir.
Hvað áætlið þið að það taki mörg ár að fá niðurstöður úr rannsókninni?
Rannsóknin hefst um leið og öll tilskilin leyfi liggja fyrir frá Vísindasiðanefnd og Persónuvernd. Við gerum ráð fyrir að rannsóknin muni taka um 18 mánuði og fyrstu niðurstöður liggi fyrir innan tveggja ára.
Hver er algengasti gigtsjúkdómurinn meðal Íslendinga og er gigt ættgeng?
Gigtsjúkdómar er samheiti yfir gríðarlega marga mismunandi sjúkdóma sem herja aðallega á stoðkerfi líkamans hjá fólki á öllum aldri, en geta einnig valdið skaða í öðrum líffærum. Þar sem meðferð er yfirleitt árangursríkari eftir því sem sjúkdómurinn greinist fyrr er mikilvægt að sem minnstur tími líði frá því að einkennin gera fyrst vart við sig og markviss meðferð hefst. Algengustu gigtarsjúkdómarnir eru slitgigt, vöðva- og vefjagigt, auk iktsýki. Hluti þessara sjúkdóma teljast til sjálfsofnæmissjúkdóma (iktsýki, rauðir úlfar ofl) og er talið að a.m.k. 5% þjóðarinnar hafi þá. Rannsóknir okkar og annarra hafa einnig sýnt að sterk ættlægni fylgir þessum sjúkdómum. En einnig geta þeir komið í kjölfar annarra veikinda eins og sýkinga.
Er fýsilegt að rannsaka liðagigt meðal Íslendinga og eru gigtsjúkdómar almennt algengir hérlendis?
Okkur hefur gengið mjög vel að stunda rannsóknir hér á Íslandi, ef horft er framhjá því takmarkaða fjármagni sem veitt er. Þátttaka fólks er ávallt mjög góð og lítið um brottföll. Við höfum vel menntað fólk sem er tilbúið að leggja hart að sér til að ná góðum árangri við mjög erfið ytri skilyrði. Því miður virðast niðurstöður rannsókna benda til þess að algengi gigtar- og sjálfsofnæmissjúkdóma sé sambærileg við nágrannaþjóðir okkar, þrátt fyrir okkar góða vatn og hreina andrúmsloft.
Hefur verið sýnt fram á að eitthvað í mataræðinu geti aukið hættuna á gigt af einhverju tagi?
Þó svo að mataræði og venjur okkar hafa veruleg áhrif á suma hjarta- og æðasjúkdóma auk efnaskiptasjúkdóma eins og sykursýki. Þá hefur almennt ekki tekist að sýna fram á það með gigtarsjúkdómana, ef kristallagigtin er frátalin. Þó er ljóst að heilbrigður lífsstíll, góður svefn og regluleg hreyfing eykur verulega á bata þeirra sem þjást af slíkum sjúkdómum. Einnig getur aukið álag, líkamlegt og andlegt verið verulega slæmt fyrir gigtarsjúkdóma og jafnvel komið af stað gigtarkasti, hvort sem um slitgigt eða aðra gigtar- og sjálfsofnæmissjúkdóma er að ræða.
Er talið að mikil hreyfing og íþróttaiðkun geti leitt til aukinnar áhættu á að fá gigt?
Niðurstöður benda almennt til að hófleg íþróttaiðkun sé af hinu góða þegar kemur að líðan og bata einstaklinga sem þjást af gigtarsjúkdóm. Hins vegar virðist það einnig vera ljóst að stífar æfingar og langtíma þátttaka í keppnisíþróttum henti ekki einstaklingum með langvinna gigtarsjúkdóma.
Eitthvað sem þú vilt bæta við í lokin?
Eitt af megin markmiðum með þeim vörum sem Expeda er nú með í sölu og þróun er að auka möguleika einstaklinga til sjálfsákvörðunar þegar kemur að þeirra eigin heilsu. Þar sem allar líkur eru á gríðarlegum skorti á sérfræðilæknum um heim allan á næstu árum vegna fólksfjölgunar og hækkandi meðalaldurs er mikilvægt að þróa nýjar leiðir til að greiða götur almennings að betri lífsgæðum með bættri heilsu. Nú þegar erum við með vöru sem uppfyllir þetta sem er BeinRáður, en það er stoðtæki til lækninga sem auðveldar greiningu og meðferð á beinþynningu. Það tæki sem nú er verið að nota í þessari rannsókn, GigtRáður, kemur í beinu framhaldi af þeirri vinnu. Er það von okkar að fleiri sambærileg tæki fyrir aðra sjúkdóma fylgi í kjölfarið.