Þekkt er að nokkuð stór hluti þeirra einstaklinga sem glíma við vanstarfsemi í skjaldkirtli séu einnig með vefjagigt. Einkenni vefjagigtar og einkenni vanstarfsemis í skjaldkirtli eru mörg þau sömu, má þar nefna óeðlileg þreyta, vöðvaverkir, liðverkir, depurð/þunglyndi. Sumir sérfræðingar eru á þeirri skoðun að líkt og vanstarfsemi í skjaldkirtli þá sé vefjagigt sjálfsofnæmissjúkdómur í eðli sínu. Aðrir eru á þeirri skoðun að eitt aðal einkenni vefjagigtar sé trufluð efnaskipti þ.e. hæg efnaskipti og að of lítil farmleiðsla skaldkirtilhormóns (týroxín) sé afleiðing þess.
Niðurstöður nýlegrar rannsóknar á 120 vefjagigtarsjúklingum leiddu í ljós að framleiðsla á týroxíni væri innan eðlilegra marka hjá þeim, en aftur á móti reyndust 41% þeirra vera með eitt eða fleiri sjaldkirtilsmótefni. Sjúklingar með skjaldkirtilssjálfsofnæmi voru með verri vefjagigtareinkenni meðal annars meiri einkenni munnþurrks, óþægindi frá þvagrás, sjóntruflanir og særindi í hálsi.
Dr. John C. Lowe sérfræðingur í efnaskiptasjúkdómum heldur því fram að stór hluti vefjagigtarsjúklinga hafi undirliggjandi skjaldkirtilssjúkdóm og að stærsti hluti þessa sjúklingahóps læknist af vefjagigt ef vanstarfsemi skjaldkirtils sé leiðrétt. Í rannsóknum hans þá hefur T3 lyfjagjöf haft dramatísk áhrif á verki vefjagigtarsjúklinga og í sumum tilvikum hafa þeir horfið alveg, en komið aftur þegar lyfjameðferð var hætt.
Kennig Dr. Lowe um að undirliggjandi vanstarfsemi í skjaldkirtli orsaki vefjagigt er alls ekki samþykkt af öllum sérfæðingum á þessu sviði og einstaka telja hann jafnvel vera á villigötum. Frekari rannsóknir verða að leiða það í ljós.
Benda má á að nokkuð stór hluti þeirra vefjagigtarsjúklinga sem eru einnig með vanstarfsemi í skjaldkirtli, glíma áfram við sín vefjagigtareinkenni þrátt fyrir að vera meðhöndlaðir með týroxíni. En margir einstaklingar sem eru meðhöndlaðir við vanstarfsemi í skjaldkirtli losna við flestöll einkenni sem of lítið týroxín veldur og má því leiða að því líkum að þeir hafi aldrei verið með vefjagigt.
Áður en vefjagigt er greind þarf að útiloka vanstarfsemi í skjaldkirtli. Einkenni vanstarfsemi skjaldkirtils svipar til einkenna vefjagigtar og líkt og með einkenni vefjagigtar þá þróast þau oft á löngum tíma án þess að nokkur átti sig á að um sjúkdóm sé að ræða.
Höfundur greinar:
Sigrún Baldursdóttir, sjúkraþjálfari, MTc, MPH
Heimildir:
Bazzichi L, Rossi A, Giuliano T, De Feo F, Giacomelli C, Consensi A, Ciapparelli A, Consoli G, Dell'osso L, Bombardieri S.
Association between thyroid autoimmunity and fibromyalgic disease severity.
Clin Rheumatol. 2007 Dec;26(12):2115-20. Epub 2007 May 9.
Lowe J C.
Addenda to: Dr. Richard Guttler and the "Real Thyroid Experts":
Their False and Potentially Harmful Beliefs . Sótt 16. janúar 2008, aðgengilegt á http://drlowe.com/frf/guttler/addenda.htm