Þó að sjálfsfróun hafi almennt fengið meiri viðurkenningu í seinni tíð er langt í land með að fólk ræði málefnið opinskátt; að sama skapi er ekki mikið um að fólk tali um aðra þætti kynferðislegrar færni sinnar opinberlega, samfarir þar með taldar.
Meðfædd blygðunarkennd og hugsanlega tillitssemi við velsæmiskennd annarra á þar eflaust einhvern þátt í máli.
Þessa blygðunarkennd notuðu valdhafar sér til skamms tíma til að bæla niður kynferðislífið. Meðal annars var sjálfsfróun úthrópuð sem synd og spilling sem í versta falli ylli geðveiki og líkamlegri hrörnun hjá þeim sem hana stundaði.
Kaldir bakstrar, hendurnar ofan á sænginni og „hugsaðu um eitthvað annað“ var sagt í góðri trú en dugði skammt til að varna því að drengir og stúlkur skoðuðu og snertu sig sjálf.
Flestallir karlmenn hafa fróað sér einu sinni, oft eða að staðaldri. Þetta liggur beint við hjá strákunum þegar þeim rís hold. Þannig kynnast þeir einnig fullnægingunni sem lýkur með sáðláti.
Piltar fróa sér einir, tveir saman eða í stærri hópum. Þetta er fullkomlega eðlilegt og skaðlaust og þó að drengir geri þetta í sameiningu á það ekkert skylt við samkynhneigð.
Stúlkur fróa sér sjaldnar en með auknum upplýsingum um kynferðismál hefur það aukist og orðið viðurkenndara, ekki síst hjá þeim sjálfum.
Stúlkur þurfa að kynna sér kynfæri sín, skeið, skapabarma og sníp sem eru eðlilegur hluti líkama þeirra. Þær venjast því að eðlilegt sé að skoða sjálfa sig í spegli, snerta sig og örva kynfærin svo að kynferðislegar tilfinningar vaxi og nái því hámarki sem kallast fullnæging.
Fullnægingin kemur fram sem hlýr, taktfastur titringur, hugsanlega krampakennd tilfinning í klofinu sem getur leitt út í allan líkamann og endar með hlýrri, ljúfri slökun.
Það er heilnæmt og gott að kynnast sjálfri sér kynferðislega og læra að þekkja fullnægingu. Það veitir öryggiskennd þegar kemur að samneyti við aðra.
Stúlkur fróa sér sjaldan saman eða í hópum, án efa vegna þess að kynferðisleg þróun þeirra er önnur en hjá drengjum. En þær standa drengjunum ekki að baki hvað varðar þörfina fyrir fullnægingu. Líkt og karlmenn fróa konur sér líka alla ævi.
Sjálfsfróun er ekki bara staðgengill kynmaka tveggja elskenda, heldur viðbót, sem enginn þarf að skammast sín fyrir, þótt ekki sé heldur nein sérstök ástæða til að monta sig af ástundun hennar. Hún er bara eðlileg og unaðsleg fyrir flesta.
Ef þú hefur löngun eða þörf fyrir að fróa þér áttu að láta það eftir þér. Hvort sem þú ert piltur eða stúlka, ungur eða gamall. Ef þú hefur engan áhuga, áttu að sjálfsögðu að láta það eiga sig. Hvort tveggja er jafn eðlilegt.
ERTU BÚIN AÐ SETJA LIKE Á HEILSUTORG ? SETTU LIKE HÉR.
Grein fengið af vef hun.is